eftir Friðrik Sólnes

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2020

 

 

Ég lúskraði á einum nemandanum í dag.
Hann hét Edward Said.
Ég var að sitja yfir prófi og skynfæri mín voru þanin til hins ýtrasta.
Ég heyrði dauft burstahljóð í löngum augnhárum einhvers sem sat aftast.
Klórið í blýöntunum hljómaði eins og rigning í frumskógi; þungir dropar sem skella á stórum grænum blöðkum með dimmu braki.
Ef ég lokaði augunum þá gat ég skrúfað niður í öllum þessum hljóðum og þá fann ég ekkert nema yndislega kyrrð, eins og það væri enginn í stofunni nema ég og sofandi nýfætt barn.
Ég elskaði starfið mitt.
Þessi Edward Said fór að vera með einhvern uppsteyt þegar ég sagði honum að hann yrði að merkja prófið sitt.
Hann gaf skít í það og reyndi að troða prófinu ómerktu inn í miðjan bunkann.
Ég stóð upp og fór í karatestellingu, lét hnén dúa og fann taglið skoppa létt milli herðablaðanna.
Ilmur af sandalviði og negul liðaðist gegnum loftið.
Ég var flottur, eins og Steven Seagal, og ég sá hvernig sjálfstraustið hvarf úr augunum á honum.
Stuttu seinna hlunkaðist hann á teppið á gólfinu og ég setti hnéð í bakið á honum.
Teppið var persneskt, rautt og snjáð, en aðrir litir gengu í lífrænu munstri gegnum rauða litinn, rétt eins og slægðin og miskunnarleysið marmarast gegnum siðmenningu okkar, sem þó byggir mest á hugviti, gleði og ást.
Lítil hvít plastkúla rúllaði úr úlpunni hans og ég stakk henni á mig svo lítið bar á.
Stuttu seinna kom Ghora og leysti mig af en ég var boðaður á fund.
Lektorinn var ekkert að skafa utan af því.
„Þú ert búinn að hanga hérna frá því þú útskrifaðist eins og einhver óþefur sem virðist fyrirmunað að dofna, heldur blómstrar bara og breytist í annan viðbjóðslegri óþef!“
Svo horfði hann bara í opna lófana á sér eins og feiminn vitfirringur.
Prófessorinn hafði gaman að þessu.
Ég sá það á honum að honum fannst þetta allt áhugavert og honum fannst ég áhugaverður náungi.
Ég horfði á glerkrukkurnar á hillunni fyrir aftan þá, hálffullar af brúnum og okkurgulum kryddum.
Tekannan á borðinu var úr gljáandi málmi með langan beittan stút.
Lektorinn bar fram allskonar spurningar.
„Við hvað vinnur þú hérna?“
Ég sagði honum að hlutverk mitt væri að sitja yfir prófum og standa vörð um heilindi námsmatsins.
„Heilindi námsmatsins“ hváði hann.
„Já,“ sagði ég, „og rétt nemendanna til þess að taka prófin sín í friði.“
„Og lemja svo 17 ára strák fyrir að trufla prófið,“ spurði hann, nokkuð höstugur.
„Hann truflaði heilagt ferli,“ sagði ég, kannski aðeins of hátt.
Það kom löng þögn. Hugsanir mínar leituðu undan eins og styggir hestar en svo kom falleg skýring upp í hugann og ég þurfti ekki annað en að lýsa því sem ég sá.
„Ímyndaðu þér ef einhver myndi ferðast til Kenýa, lengst út á einhverja gresjuna, og fela sig svo undir fullt af laufi, trjágreinum og einhverju rusli …“
Ég gef þeim gott tómarúm til þess að sjá þetta fyrir sér.
„Og svo á nákvæmlega réttu augnabliki, eftir einhverja daga, mánuði, eða jafnvel ár, stekkur sá hinn sami út undan haugnum öskrandi og gólandi einmitt þegar tvö ljón eru í miðju kafi að eðla sig.“
Prófessorinn á erfitt með að hemja brosið og efri vörin strekkist yfir framtennurnar.
„Það er að trufla heilagt ferli,“ segi ég sigri hrósandi, „og það er einmitt það sem þessi náungi gerði.“
Eftir fundinn langar mig ekki heim.
Ég nenni ekki að segja bræðrum mínum að ég hafi verið rekinn svo ég skríð innum lítinn hlera við hliðina á lyftunni.
Þar ligg ég og læt daginn líða.
Ég hugsa um að steikja apríkósur, valhnetur og eggaldin á pönnu, skófla þessu svo upp í mig með þunnu, mjúku pönnubrauði.
Ég stari út í tómið og dreg þá ályktun eftir einhvern tíma að frumlitirnir séu líklega aðeins tveir; neongrænn og fjólublár, eins og yfirborðið á sápukúlu.
Ég geri nokkrar armbeygjur, íhuga að rota apann, nenni því ekki og sofna.
Þegar ég vakna skríð ég aftur út um hlerann.
Það er dimmt í skólanum og bænakallið bergmálar fyrir utan.
Mér er skítsama.
Mig langar í súkkulaði, Bounty eða eitthvað.
Ég fer inn í stofuna, tek af mér vefjarhöttinn í heilu lagi og kveiki á tölvunni.
Ég tek upp hvítu kúluna hans Edwards Said.
Þetta er eitthvert hvítt duft vafið í glært plast.
Ég sýg það uppí nefið af oddinum á bjúgsverðinu mínu.
Það lyktar eins og marsípan en ég fæ eitthvert beiskt, kemískt bragð í kokið.
Þögnin siglir gegnum loftið eins og risastór glær hvalur.
Það er miðnætti.
Skjárinn glóir í myrkrinu á meðan myndbandið hleðst inn.
Þarna er gresjan.
Ljónynjan er þolinmóð á svipinn á meðan karlljónið klöngrast á bak.

 

 

Friðrik Sólnes Jónsson