Upp úr gryfjunni framan við stóra svið Þjóðleikhússins líða tregafullir tónar, sárir en blíðir, veikir í fyrstu en styrkjast. Svo eru rauðu, þungu tjöldin dregin frá og við okkur blasir eyðiland. Gráir, grýttir melar, fallin girðing, nakin tré sem teygja greinar sínar angistarfullt til himins. Mistur eftir nýafstaðna stórskotahríð myrkvar sólina. Dauðir menn liggja eins og hráviði um sviðið. Tónarnir fögru eru þeirra sálumessa.

Stríð - Ragnar Kjartansson

En smám saman truflar annað og allt öðruvísi hljóð tónana. Stunur manns, hálfkæfð óp hans þegar hann teygir handleggina upp úr sprengjugíg og reynir að toga sig upp á yfirborðið. Hann er illa særður og sárkvalinn en hann er lifandi. Ólíkt félögum sínum sem hann syrgir með háværum skelfingar- og sársaukahrópum þegar hann finnur þá á sinni ferð. Hann staulast um sviðið, minnir kannski á flugu sem vængirnir hafa verið slitnir af, sært dýr sem finnur ekki leiðina út úr hryllilegum aðstæðum sínum, blindað af kvölum. Og alltumlykjandi er tónlistin, í senn harmræn og huggandi.

Ragnar Kjartansson er hugmyndasmiður Stríðs sem ég sá á annarri sýningu í kvöld. Hans er leikmyndin og hann leikstýrir Hilmi Snæ Guðnasyni sem þjáðist svo sannfærandi fyrir framan okkur. Ragnar er alinn upp í leikhúsi eins og alkunnugt er; hann hefur séð hvers lags kraðak tilfinninga er borið á borð í venjulegu leikriti: gleði, sorg, ást og hatur, kátína og bræði … Kannski hefur hann einhvern tíma langað til að eima einhverja eina af þessum andstæðu tilfinningum, leyfa henni einni að ríkja heila sýningu. Ef svo er þá hefur honum tekist það í Stríði því þar er hryllingurinn allsráðandi í sviðsmyndinni og í túlkun Hilmis Snæs. En yfir og allt um kring er andstæðan í formi innileika og fegurðar tónlistar Kjartans Sveinssonar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Þetta urðu yfirþyrmandi sterkar andstæður og mjög áhrifamiklar.

Aðeins ein sýning er eftir af Stríði. Ég myndi ekki missa af henni í ykkar sporum.

Silja Aðalsteinsdóttir