BakaraofninnGaflaraleikhúsið heldur uppi heiðri grínsins þessi misserin og ekki er hann slakur farsinn sem Gunnar Helgason og Felix Bergsson hafa kokkað saman og kalla Bakaraofninn. Ég er með svo miklar harðsperrur í kjálkunum eftir hlátursköstin að ég get ekki ennþá talað með góðu móti. Gott að geta látið nægja að skrifa.

Þeir fengu sem sagt þá hugmynd, félagarnir, að stofna veitingahús undir þessu nafni og hafa fest kaup á húsnæði. Gunni ætlar að vera kokkurinn en Felix þjónninn. Þegar þeir koma á staðinn er allt í drasli þar (segja þeir, krakkarnir í salnum hafa áreiðanlega séð það svartara í herberginu sínu) og góð ráð dýr því Felix hefur boðað skæðasta matarbloggara landsins, Höllu Fjellreven (Elva Ósk Ólafsdóttir), á staðinn strax sama kvöld. Hennar mottó er að láta hlutina helst hætta áður en þeir byrja („Halla segir neiiiiiii“). Eldhúsið reynist vanbúið og vandræði eru bæði með rafmagn og vatn; þetta lítur mjög illa út en er mjög fyndið. Í öngum sínum kalla þeir á iðnaðarmann, Pólverjann Pavel (Ævar Þór Benediktsson) en hann er ekki allur þar sem hann er séður, sennilega er hann bara íslenski meltingarskurðlæknirinn Eyvindur að safna sér aurum fyrir fari til Noregs. Munar litlu að hann eyðileggi með rafmagnssöginni það sem þó var heilt í húsnæðinu. En hann fer létt með að leika franskan sjarmör þegar Halla mætir á staðinn og heilla hana þannig að henni finnst allt ljúffengt sem borið er á borð.

Þessi söguþráður er auðvitað bara úr tvinna en fjórmenningarnir tvinna úr honum alveg fantagóða sýningu, þétta, hraða og ógeðslega fyndna. Leikararnir hafa hraðann algerlega á valdi sínu og skapa hver sína sérstöku týpu sem síðan spila saman í ekta farsaheild: Halla er freki valdsmaðurinn sem hinir sýna auðmýkt, Eyvindur er kamelljónið, breytir sér í hvaða þjóðar kvikindi sem vera skal með tilheyrandi hreim, Felix er sá stóri og barnalegi og svolítið seinfæri og Gunni er litli sprelligosinn sem er alls staðar í einu og getur komið steini til að hlæja. Hann er svo magnaður látbragðsleikari og svo ó-trú-lega fótfrár að hann var varla einhamur. Ekkert í heimi er eins fyndið og maður sem fer út um einar dyr og kemur inn um aðrar nánast um leið, aftur og aftur, það uppgötvaði ég ung að árum þegar ég sá Marcel Marceau í Þjóðleikhúsinu.

Þó að Bakaraofninn sé barnasýning og Máni Svavarsson framleiði nóg af prumphljóðum til að skemmta heilum her af smástrákum þá er fínasta tæknin ekki síður aðlaðandi fyrir fullorðna og margir brandararnir voru meira fyrir foreldra en börn. Til dæmis er nett að láta Höllu og Evind ná saman rétt einu sinni. Leikmyndina og galdrana í henni sáu Nicolaj Falck og Klæmint Henningsson Isaksen um, kannski er hinn dásamlegi kjallari þeirra verk. Þar var mikið undur skapað að því er virtist á undur einfaldan hátt (eða þannig kom það manni fyrir sjónir). Kristín Thors og Einar töframaður Mikaelsson voru líka í göldrunum og utan um allt saman heldur Björk Jakobsdóttir og á skilið að fá stóran rósavönd fyrir vikið.

Silja Aðalsteinsdóttir