FRAMIKolbeinn Arnbjörnsson skapar flókinn en þó heillegan og trúverðugan karakter í einleiknum Frama eftir Björn Leó Brynjarsson sem frumsýndur var á Lókal og Reykjavík Dance Festival en er nú sýndur í Tjarnarbíó á vegum hópsins TAKATAKA. Björn Leó leikstýrir sjálfur og sér líka um tónlistina í sýningunni en sér til aðstoðar við sviðsetninguna hefur hann Pétur Ármannsson dramatúrg og Brogan Davison dansara.

Karakterinn – myndlistarmanninn – sem við sáum og heyrðum verða til á sviðinu kannast sjálfsagt allir við sem hrærast í menningar- og listalífi Vesturlanda. Þetta er maður með mikinn metnað en sem er svo hundkrítískur á aðra að hann á erfitt með að leggja verk sín í dóm. Hann hefur svo mikla sýniþörf að hann kemur meira að segja nakinn fram fyrir okkur en þorir samt ekki að taka tilboði um að verða fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum – sem þó er mesti heiður sem listamanni getur hlotnast. Hann er með félaga sinn Ásgrím alvarlega á heilanum. Ásgrímur virðist vera allt sem okkar maður er ekki, kurteis og indæll, óragur við að sýna verkin sín (þó að þau séu alveg ömurleg að mati okkar manns) og þar að auki svo ljónheppinn að vera með Vigdísi, konunni sem okkar maður þráir. Hann þráir Vigdísi svo heitt að talsverður kafli verksins er órafengin lýsing á því þegar hann ímyndar sér að hann ræni Vigdísi og fari með hana til útlanda – að lokum alla leið til Suður-Ameríku.

Sviðsmyndin var á myndbandi eftir Daníel Þorsteinsson. Hann lék sér aðallega með kyrrar myndir sem hann dró að og frá til að sýna vítt eða þröngt sjónsvið eftir því sem við átti. Virkaði einfalt og smart.

Ég hafði reglulega gaman af þessari sýningu. Textinn er þéttur og vel skrifaður og Kolbeinn leikur þennan brogaða karakter af sannfærandi innlifun. Auk þess brá hann sér í önnur hlutverk, sýndi okkur bæði Ásgrím og Vigdísi í samtali við okkar mann og fór létt með að skipta milli persóna. Ennþá betra var þó símasamtalið við mömmu; þar þurftum við ekkert að heyra nema í öðru þeirra.

Það er djarft af ungu leikskáldi að afhjúpa miskunnarlaust þær slítandi tilfinningar sem hörð samkeppni á listasviðinu skapar í hugum listamanna. Maður getur jafnvel ímyndað sér að ýmislegt sem okkar maður hugsar upphátt á sviðinu geti hann sett á netið – kannski nafnlaust – þó að hann myndi aldrei segja það beint við þá sem hann öfundar.

Silja Aðalsteinsdóttir