Það sem við gerum í einrúmiÍ gærkvöldi frumsýndi Smartílab Það sem við gerum í einrúmi í Tjarnarbíó. Verkið fjallar um fjórar manneskjur sem búa einar í einstaklingsíbúðum á sömu hæð í fjölbýlishúsi og hafa lítið samband sín á milli. Þó eru tvær þeirra mæðgin en sonurinn er á stöðugum flótta undan móður sinni – nema þegar hann þarf á einhverju að halda frá henni. Leiksviðið gerir Sigríður Sunna Reynisdóttir og bjó persónunum ólíkar vistarverur með einföldum ráðum.

Það er erfitt að gera skemmtilegt verk um einstaklinga sem þjást af leiðindum hver í sinni kompu en höfundarnir, Heiðar Sumarliðason og Sara Martí Guðmundsdóttir, sem líka leikstýrir, beita óvæntum ráðum sem virka: þau sýna á kvikmynd á bakvegg leiksviðsins það sem fólkið gerir utan húss og teygja þannig sviðið eins langt og verkast vill. Titill verksins er því svolítið ónákvæmur. Í kvikmyndaþáttunum kemur fyrir aragrúi leikara í alls konar hlutverkum, stórum og smáum, og aðstæðum sem víkka út heim verksins.

En á sviðinu búa þau fjögur sem eru aðal: Drífa (Ragnheiður Steindórsdóttir) er best stæð af þeim. Hún vinnur í Hagkaup, á bíl og myndi vera býsna ánægð með lífið ef hún næði sambandi við syni sína. Annar býr í Noregi og er greinilega búinn að afskrifa móður sína. Hinn, Valdi (Albert Halldórsson), býr í íbúðinni beint á móti henni og hún heldur að hann hlaupi sífellt undan henni af því að hann sé svo önnum kafinn í sínu nýja, flotta starfi sem fasteignasali. Alltaf að flýta sér á áríðandi fund. En þar býr annað að baki eins og kemur fljótlega í ljós. Halldór (Árni Pétur Guðjónsson) er einrænn náungi sem fer helst ekki út úr húsi, svarar að vísu í síma en alls ekki banki á dyr. Og Ragga (Sigríður Vala Jóhannsdóttir) svarar heldur ekki banki á dyr en það er af annarri ástæðu sem leikhúsgestir fá að kynnast. Hún vinnur í súkkulaðiverksmiðju og skemmtir sér við að „bæta“ málshættina sem stungið er inn í páskaeggin! Nokkur grátlega fyndin dæmi um þá list hennar birtast á kvikmyndatjaldinu.

Í kvikmyndinni fylgjumst við með Drífu og Röggu á vinnustað. Þær eru báðar litnar hornauga af vinnufélögum þótt af ólíkum ástæðum sé. Svo sjáum við Valda á flakki hans um bari borgarinnar og Halldór á ráfi sem endar með ósköpum. Efnisleg framvinda er helst tengd honum enda er það vafasamast sem hann gerir í einrúmi og kemur að lokum niður á öllum hinum. Annars gerist ósköp fátt og stundum framan af langaði mig til að sparka í þetta fólk og segja því að gera eitthvað almennilegt við líf sitt! En smám saman fær maður samúð með því og það er ekki síst að þakka góðum leik allra fjögurra. Ragnheiður er afskiptasama móðirin og samverkakonan lifandi komin og mikið gladdist ég þegar hún komst í félagsskap í lokin sem kunni að meta hennar góðu kosti. Árni Pétur vakti óhug allt frá fyrsta atriði sínu og bjó til nöturlega persónu úr Halldóri. Eitt margslungnasta atriði verksins var þegar hringt er til hans frá ABC barnahjálpinni og hann talaður inn á að styrkja fátækt barn í Afríku. Albert býr til mann úr Valda sem vinnur bug á ergelsi manns þegar á líður. En smám saman stelur Sigríður Vala senunni með sinni einlægu túlkun á Röggu. Í kvikmyndasenunum með henni var áhrifaríkt hvernig leikhúsgestir eru fluttir á einfaldan hátt yfir í hennar heim.

Af leikurum í kvikmyndinni þarf sérstaklega að geta um Erling Jóhannsson, sem leikur samstarfsmann Drífu í Hagkaup, og Höllu Margréti Jóhannsdóttur sem leikur forstöðumann safnaðarins Lífsljóssins. Samtal þeirra Kjartans Bjargmundssonar á Ómega var óborganlegt.

Öll tæknivinna var ágætlega af hendi leyst. Stefán Örn Gunnlaugsson sér um tónsmíði og hljóðhönnun en Dagur Valgeir Sigurðsson var með honum í hljóðupptökum fyrir kvikmyndina. Kvikmyndatakan og klippingin voru á hendi Pierre-Alains Giraud. Sigríður Sunna Reynisdóttir sér bæði um svið í leikhúsi og bíó og búningana sem smellpössuðu við persónurnar. Lýsingin er vandaverk þar sem birtan verður alltaf að vera á sérstökum, afmörkuðum stað og það var hún hjá Kjartani Darra Kristjánssyni.

Það sem við gerum í einrúmi er óvenjulegt verk og því hæfir óvenjuleg aðferð sem tekst vel.

-Silja Aðalsteinsdóttir