SamdrættirÞað er líf og fjör í Tjarnarbíó þetta misseri sem oftar og í gærkvöldi sá ég nýjustu sýninguna þar, Samdrætti eftir Mike Bartlett, tveggja kvenna verk undir stjórn Þóru Karítasar Árnadóttur. Kristín Eiríksdóttir þýðir, Sean Mackaout sér um leikmynd og búninga, lýsingin er á hendi Ólafs Ágústs Stefánssonar og Valgeir Sigurðsson sá um tónlist og hljóðmynd. Silfra Productions framleiðir.

Samdrættir eru tvírætt orð á íslensku og ég hélt fyrst að verkið fjallaði um fæðingar, frekar en samdrátt milli karls og konu. Á netinu sé ég að upphaflega var þetta útvarpsleikrit sem hét Love Contract (ástarsamningur) en þegar höfundurinn umskrifaði það fyrir svið kallaði hann það Contractions (samdrættir, samþjöppun) sem líka er tvírætt á ensku þótt á aðeins annan hátt sé. Snjöll þýðingin kom vel til skila bæði texta og undirtexta í máli kvennanna.

Það er greinilega eitthvað í fari Emmu (Íris Tanja Flygenring) sem vekur tortryggni framkvæmdastjóra fyrirtækisins (Þórunn Lárusdóttir) því hún kallar hana á sinn fund hvað eftir annað fyrir að því er virðist litlar sem engar sakir. Stúlkan er frjálsleg í fasi, örugg með sig í sínum vonargræna jakka þegar hún byrjar hjá fyrirtækinu; hún vekur áhuga ungu mannanna á staðnum, einkum Darrens sem framkvæmdastjórinn heldur upp á og vill ekki missa út í óreiðu ástarlífsins. Hún minnir Emmu á það hvað eftir annað að hún hafi skrifað undir samning um að leyfa yfirstjórninni að fylgjast með tilfinningamálum sínum og þótt Emma þumbist við og reyni að halda sínum einkamálum út af fyrir sig lætur hún smám saman bugast – við fylgjumst með manneskju brotna undan stöðugu áreiti sem þó er ævinlega kurteislegt. Íris Tanja var sannfærandi í hlutverki Emmu, sýndi okkur ólíkar hliðar á þessari stúlku og lét hana þróast og breytast við að ganga í gegnum gleði og djúpa sorg.

Þó að Emma væri í brennidepli allt verkið varð framkvæmdastjórinn smám saman meira og meira spennandi – af hverju vill hún ekki segja til nafns eða svara fullkomlega eðlilegum spurningum um sjálfa sig? Þórunn fékk ekki langar stundir til að sýna okkur í hug þessarar konu en notaði þær vel og þá kom lýsing Ólafs Ágústs að góðu gagni. Einu sinni varð andlit hennar hreinlega öskugrátt.

Samdrættir

Á bók er þessi texti eins og útvarpsleikrit en Þóra Karítas sýnir mikla hugkvæmni í uppsetningunni, setur okkur áhorfendur á skrifstofustóla (eins og við séum starfsmenn fyrirtækisins) þannig að við getum snúið okkur í allar áttir, og lætur leika um allan salinn. Þetta er bæði skemmtilegt og merkingarbært – ekki laust við að áreitið breytist í einelti þegar framkvæmdastjórinn er kominn á eftir Emmu í önnur horn vinnustaðarins.

Búningarnir eru líka merkingarbærir, það segir sína sögu bæði þegar græni jakkinn hverfur og þegar hann kemur aftur, og bleika glæsidragtin sem framkvæmdastjórinn ber hefur áreiðnalega vakið öfund fleiri en mína!  Þetta er athyglisverð sýning sem skilur mikið eftir þótt stutt sé.

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir