Það er einkar viðeigandi að setja upp leiksýningu byggða á skáldsögu franska rithöfundarins Jules Verne um leyndardóma Snæfellsjökuls í Frystiklefanum á Rifi undir Jökli. Journey to the Center of the Earth var frumsýnd milli jóla og nýárs undir stjórn Árna Kristjánssonar og við fórum í gær í kyrru og fallegu vetrarveðri að sjá hana. Leikið er á ensku því leikhússtjórinn og höfundur leikgerðarinnar, Kári Viðarsson, er að hugsa um erlenda ferðamenn. Ég játa fúslega að ég hefði viljað sjá hana á íslensku enda eru leikararnir allir íslenskir nema einn.

Frystiklefinn er víðáttumikið húsnæði og hrátt eins og nafnið bendir til. En eins og gestir hafa komist að raun um á undanförnum árum hefur það furðumikla möguleika. Best nýttust þeir í sýningunni Mar sem fjallaði um tvö mannskæð slys á sjó en staðurinn var líka sannfærandi sem iður Jökulsins.

Journey to the Center of the EarthSagan segir frá ferðalagi þýska prófessorsins Ottós Lidenbrock (Kári Viðarsson) og Axels aðstoðarmanns hans (Smári Gunnarsson) til Íslands í leit að leið úr gíg Snæfellsjökuls að miðju jarðar. Kári og Árni skipta sögunni í þrjá þætti með hléi á milli og hefur hver þáttur sitt svið og sinn stíl en glens og háð einkenna þá alla. Hér er ekkert tekið mjög alvarlega.

Fyrsti þáttur gerist í Þýskalandi og við komuna til Íslands. Framan af er hann eins konar stofuleikrit og báru húsgögnin (úr bylgjupappa) hönnuðinum Francescu Lombardi fagurt vitni. Þegar til Íslands kemur eru landsmenn leiknir af hópi sautján barna af Nesinu sem syngja, dansa og leika af miklu fjöri. Danshöfundur er Jordine Cornish og henni hefur tekist verulega vel að þjálfa krakkana sem voru samstillt og örugg með sig.

Eftir fyrra hlé var komið inn í allt annað rými, myrkt og innilokað, þar sem Ottó og Axel hanga í köðlum niður úr loftinu og eru að láta sig síga niður gíg jökulsins. Við fylgjumst svo með ógnþrunginni ferð þeirra að jarðarmiðju ásamt leiðsögumanninum Hans (Halldóra Unnarsdóttir). Gangan langa var hugvitsamlega sviðsett og nútímalega. Þriðji þáttur gerist á neðanjarðarhafinu (sem við áhorfendur lékum). Félagarnir sigla þar um á fleka ásamt kvikmyndastjörnunni Anitu Briem (Stephanie Lewis) en allt um kring skjóta furðudýr og skrímsli kollinum upp úr öldunum, leikin af börnunum í sýningunni. Að lokum bjargast ferðalangarnir þó, allir á hinn undursamlegasta hátt!

Þetta er dillandi skemmtileg sýning og munar þar mest um börnin sem voru alveg yndisleg. Francesca sér líka um búninga og sleppti sér alveg þegar hún klæddi þau, ekki síst í skrímslaatriðinu. Leikararnir þrír ganga hlutverkum sínum á hönd í skoplegri einlægni. Kári er yfirlætisfullur og hryssingslegur prófessor, Smári héralegur og feiminn aðstoðarmaður, Halldóra þungbúinn og þegjandalegur fylgdarmaður og Stephanie djarfmannleg og flott kvikmyndastjarna. Hún var líka hæversk og bljúg ráðskona prófessorsins í fyrsta þætti, Grauben. Músíkin var að mestu eftir hljómsveitina Flaming Lips og hljómaði ágætlega, einkum fannst mér lokalagið, „Do you realize“ koma vel út í meðförum barnanna og alls hópsins.

Frystiklefinn hefur verið sérstaklega skemmtileg og frumleg nýjung í menningu á Snæfellsnesi á undanförnum árum og er það enn. Hugsið ykkur bara það tækifæri sem sýningin um leyndardóma Snæfellsjökuls gefur börnunum á að kynnast nýrri hlið menningarlífsins. Þar fengu að vera með öll börn í byggðunum á Nesinu sem svöruðu kalli. Ekkert var dæmt úr leik – og öll reyndust ráða við verkefni sitt. Það er leitt að þetta skuli vera síðasta sýningin sem þar er framleidd (a.m.k. í bili) og ástæða til að hvetja fólk til að sjá hana.

Silja Aðalsteinsdóttir