Það er gaman að fara í leikhús og margra leiksýninga minnist ég með sérstakri ánægju. En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þær ekki margar sem standa upp úr, fá yfir sig einhverja áru í minningunni, verða jafnvel að goðsögn. Ein þessara örfáu sýninga er Kæra Jelena eftir Ljúdmílu Razúmovskaju sem Þjóðleikhúsið frumsýndi í október 1991 undir stjórn Þórhalls Sigurðssonar, og ég gæti skrifað langt mál til að útskýra sérstöðu hennar. Það ætla ég þó ekki að gera en nefni hana nú vegna þess að í gærkvöldi var verkið endurlífgað á Litla sviði Borgarleikhússins, undir stjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur.

Kæra JelenaFjölmiðlar hafa sinnt þessari frumsýningu vel undanfarna daga, þó vil ég minna á að við erum stödd heima hjá Jelenu, miðaldra menntaskólakennara, í litlu notalegu íbúðinni sem hún deilir með aldraðri móður sinni. Móðirin er nú í hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili þannig að Jelena er ein, hún á afmæli og býst til að snæða afmælismatinn sinn í einrúmi. Þá er hringt dyrabjöllunni og úti fyrir standa fjórir eftirlætisnemendur hennar með gjafir og blóm. Hún verður yfir sig glöð og þegar þau ætla að fara strax aftur vill hún það ómögulega og fer að útbúa eitthvað matarkyns til að halda þeim hjá sér smástund. En það teygist úr stundinni því ungmennin eru komin í allt öðrum erindum en þau létu uppi í byrjun.

Þetta er afar vel skrifað leikrit, þétt með mörgum snúningum, misjafnlega óvæntum. Það var nýlegt þegar það var sett hér upp fyrir tæpum þrjátíu árum en auðvitað hefur samfélagið breyst mikið síðan. Unnur Ösp ákvað að færa leikritið til samtímans og gera heiðarlega tilraun til að flytja það út úr klíkuveldi Sovétríkjanna og Kristín Eiríksdóttir vinnur með þá ákvörðun í yfirferð yfir afbragðsgóða þýðingu móður sinnar, Ingibjargar Haraldsdóttur.

Leikritið þolir þessar breytingar vel. Því þótt samfélagið hafi breyst á yfirborðinu þekkjum við manngerðirnar, þær eru samar við sig. Jelena (Halldóra Geirharðsdóttir) er samviskusöm og réttsýn kona sem hefur gefið starfinu og nemendunum alla orku sína. Hún á ekkert líf utan vinnunnar, hugsar ekki einu sinni um að halda sér almennilega til, eins og stúlkan í hópnum, Lilja (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) bendir henni á, svolítið grimmdarlega. Hugsjón Jelenu er að byggja nemendur sína upp andlega og vitsmunalega til að þeim geti vegnað vel í lífinu á heiðarlegan hátt. Þessari hugsjón hefur hún helgað líf sitt og það verður æ meira spennandi að komast að því hvað – ef eitthvað – geti fengið hana til að ganga gegn henni.

Því krökkunum finnst sjálfsagt að fá eitthvað fyrir ekkert ef nauðsyn krefur. Hvaða máli skiptir smá svindl ef enginn veit af því nema þau fimm?

Jelena er margbrotin persóna eins og Halldóra sýndi okkur. Hún fyrirlítur aumingjaskap en þó þykir henni vænst um Viktor (Sigurð Þór Óskarsson) sem er langmesti auminginn í hópnum, drykkfelldur strákur sem á drykkfelldan föður. Af skiptum þeirra tveggja verður ljóst að Jelena hefur aldrei fengið eðlilega útrás fyrir kærleikann sem býr í henni og þess vegna hefur hún bælt þær tilfinningar í sér. Hún er kona kerfisins, holdgervingur gamla skólans, þó hefur hún skömm á valdatilburðum Valda (Aron Már Ólafsson) sem finnst sjálfsagt að beita mútum og ofbeldi ef hann fær ekki sitt fram öðruvísi. Hún vorkennir Lilju ekki neitt þótt hún hírist með móður sinni í skúr og skammar hana fyrir að hugsa bara um að vera sæt og selja sig dýrt. Og þótt hún dýrki hámenningu mætir hún háspekilegu tali tilvonandi bókmenntafræðingsins Péturs (Haraldur Ari Stefánsson) með nokkurri hæðni; hann er bara strákur, og þótt hún vilji ekki viðurkenna það lítur hún í rauninni stórt á sig.

Eins og Þórhallur gerði fyrir nærri þrjátíu árum valdi Unnur Ösp unga leikara í hlutverk ungmennanna. Það er jafnvel einn óútskrifaður í hópnum eins og komið hefur fram í viðtölum. Það er Aron Már sem leikur helsta andstæðing Jelenu, yfirstéttarstrákinn sem ekki þarf neina hjálp sín vegna, hann hefur allt og getur allt og ef hann vantar eitthvað tekur hann það. Aron Már var vel valin týpa í hlutverkið og sýndi vel færni Valda til að bregða sér í ólík gervi, að minnsta kosti lengi framan af.

Haraldur Ari lék gufuna Pétur á sannfærandi hátt og varð verulega brjóstumkennanlegur í niðurlægingu sinni undir lokin. En eins og við var að búast átti Sigurður Þór léttastan leik af unga fólkinu enda með mesta sviðsreynslu sem atvinnumaður. Hann var líka alveg frábær Viktor, svo fljótfær, svo vandræðalegur, svo mikið krútt þrátt fyrir aumingjaskapinn. Ég skildi Jelenu vel að vilja reyna að draga hann í land.

Lilja er eina stúlkan í hópnum og það gefur henni sérstöðu; hún er í rauninni bandamaður Jelenu frá upphafi þótt hún fylgi félögum sínum. Kannski eru samband og samskipti þeirra tveggja kjarni verksins þegar grannt er skoðað. Þuríður Blær túlkaði Lilju af hrífandi sannfæringarkrafti og einlægni.
Filippía I. Elísdóttir býr sýningunni umgerð við hæfi á Litla sviðinu. Stofa Jelenu, hversdagsleg en hlýleg og snotur, er í miðju rýminu og áhorfendur sitja allan hringinn í kringum hana. Fólkið á fyrsta bekk er nánast inni á sviðinu. Þetta skapar mikla nánd sem leikendurnir eiga eftir að venjast betur en eykur áhrif átakamestu atriðanna til muna. Þetta er alvöru leikhús. Filippía klæðir persónurnar líka í viðeigandi fatnað; þó var ég efins um kjól Lilju, hann var rosalega smart en kannski ívið of sérkennilegur. Valgeir Sigurðsson sér um tónlistina sem varð eðlilegur partur af sýningunni og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir smekklega.

Það var erfitt í gærkvöldi að hugsa ekki um „gömlu sýninguna“, ekki síst vegna þess að á staðnum voru ýmsir sem minntu á hana: Þórhallur leikstjóri, Anna Kristín Arngrímsdóttir (Jelena), Baltasar Kormákur (Valdi) og Ingvar E. Sigurðsson (Viktor). En mér finnst ekki ósennilegt að unga fólkið sem var þarna í gær og ekki man svona langt aftur eigi eftir að hugsa oft og lengi um þessa sýningu, svo brýn er hún enn.

Silja Aðalsteinsdóttir