Sem á himniÞað var hátíðisdagur í Þjóðleikhúsinu í fyrrakvöld þegar söngleikurinn Sem á himni eftir Carin Pollak og Kay Pollak (handrit) og Fredrik Kempe (tónlist) var frumsýndur á stóra sviðinu: Framundan spennandi leikhúsvetur eftir löng og leiðinleg covid-ár. Þórarinn Eldjárn á þýðinguna fínu, leikstjóri er Unnur Ösp Stefánsdóttir en tónlistarstjórn í höndum Jóns Ólafssonar.

Sagan í Sem á himni er ekki flókin. Heimsfrægi hljómsveitarstjórinn Daníel (Elmar Gilbertsson) snýr aftur til bernskuslóðanna, lítils bæjar langt frá ysi heimsins, og hyggst draga sig í hlé. En presturinn í þorpinu (Hinrik Ólafsson) sér undireins hvaða gagn hann getur haft af tónlistarmanninum því kirkjukórinn sem Sif (Sigríður Eyrún Friðriksdóttir) stjórnar er slakur. Eftir nokkurt þref samþykkir Daníel það. Í kórnum syngur  prestsmaddaman (Katrín Halldóra Sigurðardóttir) og fleiri bæjarbúar, til dæmis reddarinn mikli (Guðjón Davíð Karlsson), fallega léttlynda Lena (Salka Sól), Olga (Ragnheiður K. Steindórsdóttir), Amanda (Edda Björgvinsdóttir), Erik (Örn Árnason), Flóvent (Sigurður Sigurjónsson) og Hólmfreð (Hallgrímur Ólafsson), öll með sína sérstöku fortíð. Þar er þorpsfíflið (Almar Blær Sigurjónsson) líka oft að þvælast og Gabríella (Valgerður Guðnadóttir) kemur þegar Konna (Kjartan Darri Kristjánsson) þóknast.

Allir sem eru í kór vita hvað hann getur breytt miklu í lífi manns og Daníel hefur djúp áhrif á allt þetta fólk og aðstandendur þess – til góðs og ills. Honum tekst þó svo vel til með kórinn sjálfan að strax á fyrstu vortónleikum slær hann í gegn með óvæntri stjörnu sem Daníel uppgötvar af næmi sínu í hópnum. Lokaatriðið fyrir hlé var svo glæsilegt að hver söngleikjasýning hvar sem væri í heiminum hefði mátt vera stolt af því. Enda reyndist vandi að toppa það í framhaldinu og lokaatriðið var helst til langdregið.

Dýptin í verkið er fengin með bernskuminningum Daníels úr þorpinu sem eru sárar. Bæði var móðirin (Hildur Vala Baldursdóttir) einstæð og drengurinn (Guðmundur Brynjar Bergsson / Óttar Benedikt Davíðsson) snillingur á fiðlu og hvort tveggja bauð upp á endalausa stríðni og misþyrmingar hrekkjusvína (eins og Konna) þangað til móðirin flúði burt með hann. Þessi reynsla hefur sett sitt mark á Daníel þannig að líf hans hefur verið ástlaust og einmanalegt. Vinnan með kórnum og kynnin af kórfélögum bætir nú úr því en öfund og afbrýðisemi eru ennþá grasserandi í litla samfélaginu og á því fær Daníel enn að kenna. Ofbeldið bitnaði þó ekki lengur eingöngu á honum og sterkustu atriðin voru milli Gabríellu og Konna sem var óþægilega vel túlkaður af Kjartani Darra.

Unnur Ösp leikstjóri kann að velja samverkafólk, bæði á sviði og baksviðs, og henni finnst ekki verra að koma á óvart. Ég hef dáð Elmar Gilbertsson síðan ég sá hann í hlutverki Daða í óperunni um Ragnheiði biskupsdóttur fyrir átta árum en söngleikur er ekki sama og ópera, hann krefst öðruvísi færni í leik og söng og munurinn á Elmari og öðrum leikurum og söngvurum sást og heyrðist vel. Á móti kemur að Daníel á að vera „öðruvísi“, hann kemur úr öðrum heimi. Mér fannst hann eiga vel heima í hlutverkinu og söngurinn var áreiðanlega mun fegurri en þessi einföldu lög voru vön.

Konurnar þrjár sem standa upp úr í kórnum voru frábærar, hver á sinn hátt, bæði í leik og söng. Lena er ekkert nema gæðin og gleðin og Salka túlkaði skínandi vel stúlku sem sést ekki alltaf fyrir en fagnar nýjum tilfinningum þótt hún hafi langa reynslu af að reka sig á. Hana dreymir um framtíð í dægurlaga- eða vísnasöng og röddina hefur hún sannarlega. Inger prestsfrú er sterk og klár kona sem er orðin dauðleið á bragðleysi hjónabandsins og lífsins í litla bænum. Katrín Halldóra gekk býsna nærri manni þegar Inger rís gegn teprunni bónda sínum og syngur eins og sú sem valdið hefur. En Gabríella Valgerðar Guðnadóttur var titrandi taug sýningarinnar sem engan lét ósnortinn, trúi ég, jafn sönn og einstök í leik og söng og hún er.

Kórinn var ekki eins slæmur og presturinn sagði Daníel í upphafi, hann hefði vel mátt vera dálítið falskari til að þróunin yrði augljósari undir stjórn Daníels. En þarna eru auðvitað frægir söngkraftar eins og Örn Árnason, Edda Björgvins og Siggi Sigurjóns sem eiga heldur ekki í neinum vandræðum með að leika sín litlu hlutverk. Gói var freki besserwisserinn lifandi kominn, maður hreinlega gnísti tönnum þegar hann tók skorpurnar. Og hinn ungi Almar Blær lék bæklaða drenginn Dodda af innlifun. Atriðin milli hans og Lenu voru einkar hugnæm.

Sviðið var umfram allt þægilegt æfingarými fyrir kórinn og minnti á baksvið á gömlu málverki sem á eftir að mála dramatískan atburð inn á. Mjög vel heppnað hjá Ilmi Stefánsdóttur. Björn Bergsteinn lét ljósin leika um þetta rými þannig að það tók nauðsynlegum breytingum á undraverðan hátt. Filippía I. Elísdóttir hannaði búninga fyrir hverja týpu fyrir sig og dró fram persónuleika þeirra – þangað til í lokin þegar allir voru í stíl. Lee Proud skapar hreyfingamunstrið á sviðinu á smekklegan hátt og hljóðhönnun var í öruggum höndum Kristins Gauta Einarssonar og  Kristjáns Sigmundar Einarssonar.

Sem á himni

Tónlistin er áferðarfalleg en ekki verulega eftirminnileg fyrir utan eitt lag, „Þetta líf“ eftir Stefan Nilsson, sem heldur áfram að syngja í höfði manns. Og mætti segja mér að einhverjir kórar muni taka það upp í söngskrá sína á næstu mánuðum.

Söngleikurinn Sem á himni er gerður eftir kvikmyndinni Så som i himmelen (2004) sem margir þekkja og bera nú saman við söngleikinn. Þar er mun vandlegar farið ofan í sögur einstaklinga í litla bænum og byltingaráhrifin sem koma Daníels hefur á líf þeirra, því eðlilega tekur söngurinn tíma frá tali á sviðinu. Við töpum vissulega einhverjum persónuupplýsingum en við græðum fullt af söng!

 

Silja Aðalsteinsdóttir

  1. Tilvitnunin í titli umsagnarinnar er í texta Álfheiðar Ingólfsdóttur við lagið „Í kór“ sem verður annað sameiginlega lagið á Landsmóti Kvennakóra í Reykjavík á komandi vori.