Það ríkir glannalegt fjör og meinleg kæti í nýrri sýningu Leikfélagsins Geirfugls, (90)210 Garðabær, sem nú er sýnd í Kassa Þjóðleikhússins. Höfundur og leikstjóri er Heiðar Sumarliðason og hann skoðar hér æskustöðvarnar í spéspegli. Eiginlega erum við stödd í heilum spéspeglasal þar sem speglarnir ýkja og afskræma á ýmsa vegu, toga og teygja, beygla og vinda og brjóta.

(90)210 GarðabærSviðið er naumhyggjuleg stofa Steinunnar (Vigdís Másdóttir) og Lofts (Stefán Hallur Stefánsson) í mörg hundruð fermetra einbýlishúsi í Garðabæ. Steinunn er glæsilegur rauðhaus, virðulegur apótekari og svo háleit að hún er við það að falla aftur fyrir sig, Loftur hins vegar eins og hrekkjóttur álfur sem skýst óþreytandi inn og út og til hliðar. Í heimsókn hjá Steinunni í fyrri hluta verksins er Sóley (María Heba Þorkelsdóttir), sakleysisleg ljóska með þungar áhyggjur af syni sínum tíu ára. Honum er strítt í skólanum og vinkonurnar geta sér þess til að sökudólgurinn sé strákurinn úr félagsmálaíbúðinni (þeirri einu sem eftir er í bænum). Þegar Bergdís (Svandís Dóra Einarsdóttir), fjallmyndarleg og ofstopafull, auðug og sjálfstæð kona, bætist í hópinn verður þessi grunur von bráðar að vissu og þær strunsa af stað, allar þrjár, til að taka málið föstum tökum. Milli þátta hitta þær móður hins meinta sökudólgs en þann fund fáum við ekki að sjá.

Í seinni þættinum er kvöldverðarboð hjá Lofti og Steinunni og þangað koma Sóley, Bergdís og nýjasti áhangandi hennar Reynir (Sveinn Ólafur Gunnarsson), félagsráðgjafi og fulltrúi VG í bæjarstjórn. Eins og það sé ekki nóg til að Lofti verði í nöp við hann þá er Reynir líka úr Kópavogi. Allir vita nú hvers konar fólk rekur ættir sínar þangað. Svo á eftir að koma í ljós að hann á enn fleira á sakakrá Lofts. Steinunn og Bergdís eru sem festar upp á þráð eftir hina leyndardómsfullu heimsókn í félagsmálaíbúðina og það er Sóley líka; hún reynir meira að segja að vera með múður. Það finnst vinkonum hennar ekki góðs viti.

Þetta er gróteskur, kolsvartur ærslaleikur með ívafi ýkts fáránleika. Mér fannst ég oft vera að horfa á mína eftirlætis sjónvarpssápu um Aðþrengdar eiginkonur enda minntu konurnar á týpur þaðan, eins og Arngrímur Vídalín nefndi í umsögn sinni um sýninguna í DV. Höfundar þeirrar seríu voru alls ósmeykir við að láta fráleita hluti gerast í friðsælu auðmannahverfi, til dæmis voru glæpir, jafnvel morð, svo til vikulegir atburðir. Það er hressandi að herma slíkt andrúmsloft upp á fína hverfið Garðabæ og greinilegt var að áhorfendurnir sem fylltu Kassann í gærkvöldi kunnu vel að meta allan gang mála. Persónurnar eru staðalmyndir, teiknimyndafígúrur sem að sjálfsögðu taka engri þróun, nema hvað Reynir breytist kannski úr tvívíðri persónu í einvíða fyrir áhrif umhverfisins!

Leikurinn er ýktur og leikararnir nutu sín allir í sprellinu, ég er þó ekki frá því að María Heba hafi notið sín best sem hin kúgaða ljóska. Búningar Kristínu R. Berman drógu vel fram týpurnar, bæði karla og konur. Ljósahönnun Magnúsar Arnars Sigurðarsonar var markviss, hljóðmyndin er ekki eignuð neinum sérstökum í leikskrá en hún var hönnuð til þess að láta manni bregða við og við eins og tískan býður nú til dags.

Silja Aðalsteinsdóttir