Independent Party People

Independent Party People / Mynd : Owen Fiene

Þau gera grimmt en hollt gys að löndum sínum og sjálfum sér, ungu Sálufélagarnir í verki sínu Independent Party People í Tjarnarbíó (sem er að mestu leikið á íslensku þótt enskan sé annað tungumál verksins). Stofnendur hópsins og forsprakkar sýningarinnar eru þær Nína Hjálmarsdóttir sviðshöfundur og Selma Reynisdóttir dansari og danshöfundur og í upphafi leiks kynna þær vandlega fyrir okkur sjálfar sig, sýninguna framundan, tilurð hennar og tilgang. Þar koma þær líka fljótlega að meðleikurum sínum og hvernig þátttaka þeirra kom til. Þeir eru báðir rammíslenskir en dökkir á hörund og kunnir leikhúsáhugamönnum. Jónmundur Grétarsson lék til dæmis aðalhlutverkið í Smán í Kúlu Þjóðleikhússins og Davíð Þór Katrínarson hef ég séð í nokkrum verkum í Borgarleikhúsinu, síðast í Bæng! á Nýja sviði.

En Nína og Selma eru ekkert að básúna um nýja sigra þeirra pilta, þær vilja upphefja sjálfar sig fyrir víðsýni, manngæsku og fordómaleysi og draga fram eldgömul verk strákanna, söng Jónmundar í Bugsy Malone fyrir tuttugu og tveim árum og feril Davíðs Þórs sem rappara sem er löngu lokið – þó að býsna gott ljóð sem hann flytur eftir sig minni vissulega á rapptexta í formi. Þessi kynning og samræðurnar sem fylgja eru vandræðalegar, niðurlægjandi fyrir báða aðila, ögrandi og drepfyndnar, allt í senn.

Yfirlýst markmið sýningarinnar er að skoða ímynd Íslands „í fullri alvöru“ og það er líka gert svikalaust þegar Nína setur sig á svið í samtali við útlending sem ekki hefur komið hingað til lands og dregur upp fyrir honum allar þær myndir af náttúru og eðli lands og þjóðar sem seljendur landsins halda á lofti. Á meðan leika félagar hennar það sem hún lýsir í orðum. Þetta var skemmtilegt en ennþá betri var myndgerð ímynd íslensku konunnar þar sem Davíð Þór fór með upphafinn textann en Nína var skrýdd hafmeyjarpilsi og sigldi um sviðið í fiskikeri á hjólum með nýveiddan fisk (þorsk?) í fanginu. Sú sena hygg ég að verði ógleymanleg.

Independent Party People

Independent Party People / Mynd : Owen Fiene

Þetta er dillandi skemmtileg sýning sem ber þessum ungu, fjölhæfu og meðvituðu listamönnum fagurt vitni. Svið Katerinu Blahutová er hvítt og látlaust en fallegt, einkum vakti athygli mína plastaður heybaggi og hvít fléttuð motta sem mér var sagt að væri gerð úr baggaplasti. Það gleður mig að sú gegndarlausa sóun geti orðið efni í listaverk. Búninga gerði Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir, skrautlega blöndu af venjulegum fatnaði og öskudagsbúningum. Og tónlist Sigrúnar Jónsdóttur tók virkan þátt í dramatíkinni.

Leikararnir voru að leika sjálfa sig en þótt einkennilegt kunni að virðast er það erfiðara en maður skyldi halda. Þar hafa þau komið að góðu liði leikstjórinn Brogan Davison og dramatúrginn Pétur Ármannsson.

 

Silja Aðalsteinsdóttir