Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær og fyrrakvöld Nashyrningana eftir Eugène Ionesco – frumsýningarnar voru tvær vegna þess að aðeins má hálffylla salinn vegna farsóttarinnar. Ný fantagóð þýðing er eftir Guðrúnu Vilmundardóttur og leikstjóri er Benedikt Erlingsson sem sjálfur vann leiksigur sem menntaskólanemi í hlutverki Róberts, sem Hilmir Snær Guðnason leikur nú.[1] Leikmynd er eftir Börk Jónsson, búninga hannaði Filippía I. Elísdóttir og meistaraleg lýsingin var verk Björns Bergsteins Guðmundssonar. Sérstaklega þarf að benda á hve markvisst leikhúsreykur er notaður í sýningunni.

Sennilega hefur verið löngu ákveðið að setja Nashyrningana á svið þegar Kórónuveiran tók að herja á heimsbyggðina en þetta virkar eins og sérlega snjallt markaðsplott. Hverjir skyldu „nashyrningarnir“ vera í heiminum í dag, „þórólfarnir“ og reglumeistararnir eða þeir sem ekki trúa á veiruna og vilja engar reglur? Til að ákveða það þarf að vita hvar við stöndum sjálf.

Verkið hefst á samtali tveggja vina á kaffihúsi eða bar sem leikstjóri velur stað fyrir framan sviðið og raunar á göngunum upp með stólaröðinni, í dyrunum fram í anddyrið og þar frammi. Þetta var fáránlega einföld og snjöll hugmynd sem gaf ferskan og spennandi tón fyrir kvöldið framundan. Á kaffihúsinu hittast gamlir vinir, Róbert (Hilmir Snær Guðnason) og Lárus (Guðjón Davíð Karlsson). Róbert er glerfínn og glæsilegur, Lárus óttalega tuskulegur, í þvældum frakka, skítugri skyrtu og bindislaus. Hinu síðastnefnda ræður Róbert bót á því hann er með aukabindi á sér en notar tækifærið og les yfir félaga sínum um hvernig ungir menn eigi að líta út, vilji þeir vera menn með mönnum og ganga í augun á kvenfólkinu. Messunni lýkur bratt þegar nashyrningur reynir að komast inn í kaffihúsið – og svo aftur hinum megin í húsinu. Þá er spurningin: var þetta sami nashyrningurinn eða voru þeir tveir, og voru þeir með eitt horn eða tvö? Rökfræðingur (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir) er kallaður til en skýringar hans flækja málið enn frekar.

Slíkar rökræður verða smám saman óþarfar því nashyrningum fjölgar hratt í bænum næstu daga, Lárusi til skelfingar. Hann fréttir af vinnufélögunum, Baldvin skrifstofustjóra (Pálmi Gestsson) og Bessa (Örn Árnason) og sjálfur verður hann vitni að því þegar vinurinn Róbert umbreytist. Hann fyrirlítur keppinautinn Rúrik (Arnmundur Ernst Backman) fyrir að horfa á þróunina með yfirvegaðri ró og reynir að fá Herdísi (Ilmur Kristjánsdóttir) til að byggja með sér nýjan heim en hlýtur að sjá eftir þeim báðum í foraðið. Þá er hann einn eftir, aumur, drykkfelldur vesalingur en þó manneskja …

Leikurinn var jafn og yfirbragðið fumlaust, eins og leikararnir hefðu verið á sviðinu í þessum vandlega úthugsuðu búningum lengi. Guðjón Davíð er á sviðinu nánast allan tímann og náði afar góðu sambandi við sinn mann. Örvænting hans þegar hann óttast að verða eins og hinir var áþreifanleg og afdrifarík. Hilmir Snær fær stærstu áskorun verksins og gerir henni fullkomin skil. Arnmundur Ernst var afar kúl Rúrik, sá sem allt vill skilja og umbera; Ilmur fór létt með Herdísi og Steinunn, Pálmi og Örn voru skemmtileg í sínum hlutverkum hvert á sinn hátt.

En þetta var ekki bara leikrit á sviði, þetta var virkileg leiksýning. Sviðsmenn tóku drjúgan þátt í sýningunni og í hléinu tók lögregluþjónn stjórnina og stýrði hópum út á klósett meðan aðrir biðu í sætum sínum. Lögregluþjónninn var alveg frábær og kannski hafa ekki allir fattað að þar fór leikarinn Hákon Jóhannesson á kostum! Kötturinn sem varð fyrsta fórnarlamb nashyrninganna kom lifandi og mjálmandi inn í fangi Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur og það var ábyggilega ekki hann sem hún kom svo grátandi inn með dauðan. Milli atriða lék Flemming Viðar Valmundsson á harmonikku tónlist Davíðs Þórs Jónssonar sem túlkaði vel stemninguna í verkinu hverju sinni. Best fannst mér þó að fá að heyra sviðsleiðbeiningar Ionescos lesnar í upphafi hvers þáttar (þó ekki þess fyrsta) af Siobhán Antoinette Henry og upplifa glæsilega sviðsmynd Barkar Jónssonar á nýstárlegan hátt, og drepfyndið var hvernig leikstjórinn lék sér áfram með þetta trikk. Allt blés þetta nýju lífi í verkið sem varð ennþá skemmtilegra en það eiginlega er. Þó gleymdi leikstjórinn sannarlega ekki dramanu eða angistinni sem fékk sína útrás í lokin.

Geggjuð sýning sem þið skuluð flykkjast á!

Silja Aðalsteinsdóttir

[1] Ranghermt er í leikskrá að hann hafi leikið aðalhlutverkið sem Guðjón Davíð leikur nú.