HúsiðÞað var margt sem gladdi og nærði fortíðarþrána á frumsýningu Hússins eftir Guðmund Steinsson á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi. Eitt var einfaldlega það að sjá eftir Guðmund leikrit sem aldrei hafði verið sett á svið áður; annað var að sjá hvað leikstjórinn, Benedikt Erlingsson, vísaði smekklega til þess í uppsetningu sinni að verkið hefði verið tilbúið fyrir hálfum fimmta áratug. Það setti skemmtilega framandi en þó kunnuglegan svip á sýninguna að draga þungu rauðu tjöldin fyrir milli þátta eins og einu sinni var algild venja og svo var sérkennilega áhrifamikið að heyra lengi vel engin hljóð önnur en tal persónanna. Það minnti á að „hljóðmyndir“ eru nýlegt fyrirbæri. Sýningin er þó ekki laus við tónlist – enda er hápunktur hennar fjörugt partý – og umsjónarmenn hennar eru Davíð Þór Jónsson og Kristján Sigmundur Einarsson.

Verkið hefst á dæmigerðri fjölskyldumynd frá sjöunda áratugnum. Hjónin Páll og Inga (Guðjón Davíð Karlsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir) eru að horfa á sjónvarpið með tveim sonum sínum, Eiríki og Jóhanni (Emil Adrian Devaney, Þorsteinn Stefánsson) og Katrínu móður Páls (Kristbjörg Kjeld). Stofan er þröng og andrúmsloftið þvingað, strákarnir reyna að andmæla ströngum boðum foreldranna en til lítils. Amman er mun kærleiksríkari. Svo kemur stóri bróðir heim, Bjarni (Arnmundur Ernst Backman). Hans uppreisn er orðin markvissari og máttugri þó að enn sé hann bara unglingur.

Næst halda Páll og Inga jól í stóru og glæsilegu nýju húsi. Við sjáum að efnin eru óþrjótandi – samt er ekki lengur pláss fyrir ömmu á heimilinu, hún kemur í jólamatinn af elliheimilinu. En á jólanóttina birtist maður (Þröstur Leó Gunnarsson) inni á miðju stofugólfi og gengur um eins og hann eigi allan rétt á að vera þar. Er húsið þá ekki öruggt? Hjónin halda innflutningsveislu og vinirnir koma og dást að nýja heimilinu. Framan af er allt stillt en smám saman æsist leikurinn, Inga hverfur með Albert (Stefán Hallur Stefánsson), Nína (Birgitta Birgisdóttir) gerir sig til fyrir Páli og önnur pör blandast margvíslega. En gestirnir eru ekki fyrr farnir en ókunni maðurinn kemur aftur og varnarleysi hjónanna í nýja húsinu er ítrekað.

Í lokaatriðunum leysist veruleikinn upp og tíminn með. Við erum með Páli og Ingu að kvöldlagi og skyndilega fyllist húsið af fólki sem þau þekkja ekki, vilja ekki hafa og reyna að flæma burt, en það gerir sig heimakomið og virðist njóta þess að vera í húsinu. Guðmundur Steinsson hefur eflaust hippa og hústökufólk ritunartímans í huga en það er snjallt af leikstjóra að hafa þennan hóp af ólíku þjóðerni og litarhætti og skírskota með því beint til þjóðflutninga samtímans.

Húsið er alvarlegt verk og þrungið húmanískum boðskap um réttlátari skiptingu veraldargæða. Höfundur sýnir berlega muninn á orðum fólks og gerðum. Páll og Inga eru með orð Biblíunnar á vörunum en breyta ekki eftir þeim. „Allir menn eru bræður,“ segir Inga þegar hún messar yfir sonum sínum en þau orð eru lítils virði þegar til kastanna kemur. En Katrín er kærleikurinn holdgerður og það sem við getum vonað er að áhrif hennar á drengina verði varanleg.

Það er gaman að sjá sprelligosann Góa í alvarlegu hlutverki heimilisföðurins og viðskiptajöfursins Páls og hann fór vel með það. Þó er ekki laust við að hann leiki í skugga Vigdísar Hrefnu sem er firna sterk í hlutverki Ingu, sýnir ólíkar hliðar hennar af innlifun og ástríðu. Kristbjörg Kjeld er máttarstólpi í hlutverki Katrínar; lokaatriðið milli móður og sonar snertir mann djúpt. Arnmundur Ernst vex með hverju hlutverki og náði vel utan um margslungna persónu Bjarna. Yngri bræðurnir voru skínandi vel leiknir af Emil og Þorsteini. Sérstaklega dáðist ég að framsögn Emils.

Hóparnir ólíku sem leggja undir sig húsið, fyrst veislugestirnir og síðar hústökufólkið, voru fjölbreyttir og spennandi hvor á sinn hátt. Filippía I. Elísdóttir búningahönnuður fékk nóg að gera að klæða þennan mikla fjölda persóna en leysti það verk af sinni alkunnu snilli. Græni kjóllinn sem Inga klæðist í partýinu bar þó af. Og svið Snorra Freys Hilmarssonar var úthugsað, bæði uppbygging þess og upplausn.

Húsið minnir talsvert á yngra og mun þekktara leikrit Guðmundar, Stundarfrið. Bæði verkin sýna okkur fjölskyldu þar sem miðkynslóðin gerir of miklar kröfur til lífsins og spillir þannig hamingju sinni, eldri kynslóðin er nægjusamari og því ánægðari en börnin nokkuð ráðvillt. En sagan er sögð á ólíkan hátt í verkunum tveimur. Í Stundarfriði tekur raunsæið völdin en hér leikur hann sér að táknum og fjarstæðum eins og í hinu afbragðsgóða verki Lúkasi. Mér finnst absúrdisminn fara Guðmundi vel.

Silja Aðalsteinsdóttir