Litla hafmeyjanLeikhópurinn Lotta frumsýndi í dag ævintýraleikinn Litlu hafmeyjuna á Lottutúni í Elliðaárdal í yndislegu veðri. Þetta er þrettánda fjölskyldusýning leikhópsins og á næstu mánuðum mun hún ferðast um landið, börnum og fylgifiskum þeirra til gleði og fróðleiks. Höfundur er Anna Bergljót Thorarensen sem líka stýrir og yrkir lagatextana ásamt Baldri Ragnarssyni en lögin eru eftir Björn Thorarensen, Rósu Ásgeirsdóttur og Þórð Gunnar Þorvaldsson.

Hlini kóngsson (Sigsteinn Sigurbergsson) er á gangi um ströndina með foreldrum sínum, Björk drottningu (Þórunn Lárusdóttir) og Aski kóngi (Stefán Benedikt Vilhelmsson) þegar hann dettur í sjóinn við að reyna að veiða plastflösku sem ekki á að fljóta um í hafinu. Hlini er ekki syndur og ekki konungshjónin heldur en sem betur fer er hafmeyjan Bára (Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir) nærri og bjargar honum. Hlini er þó ekki þar með sloppinn úr öllum háska því skömmu seinna er honum rænt af þrem tröllum (Þórunn, Stefán Benedikt og Andrea Ösp Karlsdóttir) sem loka hann inni í Tröllahelli. Drottningin lofar hverjum þeim sem bjargar Hlina hálfu ríkinu að launum og það freistar Báru og Sævars bróður hennar (Árni Beinteinn). Ekki þrá þau völd valdanna vegna heldur vilja þau nota valdið til að setja lög sem banna að rusli sé fleygt í sjóinn. Heimkynni þeirra eru að verða óbyggileg.
En Bára og Sævar eru með sporð. Hvernig komast þau upp í fjall til að bjarga kóngssyni? Nú kemur sér vel að Sævar er bókaormur og vel heima í ævintýrum, hann veit hvað þarf til að skipta á sporði og tveim fótum …

Fyrirfram hefði ég ekki ímyndað mér að hægt væri að hræra saman Hlina kóngssyni og Litlu hafmeyjunni þannig að vit yrði í útkomunni en það getur verið stutt á milli fjalls og fjöru í ævintýrum og Önnu Bergljótu tekst þetta furðuvel. Hún kemur meira að segja ruslvandamálinu líka að á landi því tröllin eru að kafna í plasti ekki síður en hafbúarnir. Þó að verkið sé fyrst og fremst áróður gegn mengun hafs og lands kemur ástin við sögu eins og í ævintýrunum báðum en það er snúið örlítið upp á hana því Hlini verður ekki hrifinn af Báru eins og við eigum von á – hún bjargaði lífi hans tvisvar! – heldur Sævari.

Leikhópurinn Lotta

Persónusköpunin er með femínískum áherslum; Bára er töffarinn en þarf að hvetja Sævar áfram, hann er blíðari og meiri kveif en líka betur lesinn og vekur aðdáun Hlina með gáfum sínum. Persónur þeirra systkina koma vel fram í afstöðu þeirra til tröllanna, Bára ætlar að sigra þau með ofbeldi en Sævar ætlar að faðma þau að sér þegar hann er búinn að stríða þeim hæfilega mikið. Kóngurinn er viðkvæmur vælukjói en drottningin er hörkutól. Þessi persónueinkenni voru skemmtilega dregin fram í leik. Af öðrum persónum þarf helst að nefna Sírenu (Sigsteinn og Þórunn), kolkrabba með tvö höfuð sem skiptu texta á milli sín en voru samhljóma inn á milli. Það var sniðuglega útfært. Textinn er oft snjall og eins og vant er hjá Lottu er líka hugsað fyrir fullorðnum fylgdarmönnum barnanna sem fá sína sérstöku brandara – til dæmis slær Sírena „á létta sæstrengi“ þegar hún leikur sér við gullfiskana sína. Allir leikararnir syngja vel en hljóðmögnunin var stundum helst til mikil. Hafa Lottuliðar alltaf verið með hljóðnema?

Sviðið var afar litríkt og sniðuglega skipt milli hafs og lands og sporðaköst hafbúanna voru sannfærandi. Búningar Kristínu R. Berman voru hrein snilld, einkum búningar hafbúanna. Og ekki voru þau lengi að breyta sér úr hafbúum í landkrabba og öfugt. Það gerðist eins og fyrir töfra.

Silja Aðalsteinsdóttir