CreatureÉg fékk góða útrás fyrir hláturþörfina í vikunni. Á fimmtudagskvöldið sá ég Kristján Ingimarsson leika listir sínar í Kassanum í sýningu sinni Creature – og hvílíkar listir! Og í gærkvöldi horfði ég á söguna gömlu um Sigríði og Indriða lifna við enn einn ganginn hjá Hugleik á Smíðaverkstæðinu í leikritinu Ó, þú aftur. Ég veit ekki hvort Jón Thoroddsen ætlaðist til að maður skemmti sér eins vel yfir þeirri sögu og áhorfendur gerðu þar, en hann þekkti heldur ekki Hugleik. Kristján hóf ferðalag sitt sem laumufarþegi í lest. Mannauminginn er lokaður inni í litlum kassa í lest sem er á fleygiferð með tilheyrandi hristingi og hávaða. Það var erfitt að ímynda sér að kassi Kristjáns væri ekki á hreyfingu, svo ekta voru hreyfingar hans í fullkomnum takti við lestarhljóðið. Og þegar lestin bremsaði á brautarstöð og maðurinn þrýstist upp í horn hélt ég að ég myndi kafna úr hlátri. Og þó var þetta auðvitað alls ekki fyndið. Af hverju ferðast maðurinn i þessum kassa? Væntanlega af því hann er svo fátækur að hann á ekki fyrir lestarmiða eða hann er að reyna að komast inn í land ólöglega. En einmitt þannig er list trúðsins þegar hún nær hæst. Hann lætur mann hlæja eins og vitleysing en finna um leið einkennilega til í brjóstinu af meðaumkun með þeim sem eiga bágt.

Mér finnst að Kristján hefði átt að halda áfram sögunni af manninum í lestinni, þegar hann kemst á áfangastað eða -staði, en það gerði hann ekki. Eftir upphafsatriðunum kom fjöldi smásagna af ýmsu tagi, sumar fyndnar, aðrar ekkert sérstaklega, en fyrst og fremst án innra samhengis. Ég skemmti mér ógeðslega vel á ljósmyndasessjóninni þar sem Kristján pósaði sem módel, karl- eða kvenkyns. Maður sá fyrir sér óteljandi myndir úr glansblöðunum, og þegar litli loðhundurinn bættist við var maður endanlega búinn. Lokaatriðið var svo ansi fínt þegar áhorfendur báru Kristján bókstaflega á höndum sér niður pallana og upp á sviðið. Geníalt! En hefði hugsanlega verið áhrifameira með samfelldu handriti.

Ég sá því miður ekki sýninguna Ó, þú hjá Hugleik fyrir 25 árum, þó að síðan hafi ég séð langflestar stórar sýningar þeirra. Þetta er elsti áhugaleikhópurinn í Reykjavík og alveg vafalaust sá besti. Hann heldur upp á aldarfjórðungsafmæli sitt með því að endurvinna sína fyrstu leiksýningu sem var, eins og margar síðari sýningar, unnin upp úr eldra efni, sjálfum bókmenntaarfinum. Piltur og stúlka er auðvitað klassísk saga um klassískt efni, unga parið sem illar vættir komast upp á milli svo tvísýnt er um skeið hvort það nái endanlega saman, en auðvitað endar allt vel. Þetta er nú engin sjeikspírsk tragedía.

Það eru hugleiksku skáldkonurnar Ingbjörg Hjartardóttir, Sigrún Óskarsdóttir og Unnur Guttormsdóttir sem axla ábyrgð á textanum, en viðbótina á afmælinu, sönglög og texta, eiga Eggert Hilmarsson, Oddur Bjarni Þorkelsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Viðbótin var alveg yndisleg og í góðu samræmi við annan texta, falleg lög, sum grípandi snjöll (einkum ástardúett Sigríðar og Indriða). Oddur Bjarni leikstýrir styrkri hendi. Einkum voru fjöldaatriðin (þegar Indriði fer á sjóinn, til dæmis) stórvel heppnuð. Og hvað hópurinn getur sungið vel, allir sem einn, þó fremst meðal jafningja hafi verið þau sem léku unga parið, Elísabeth Lind Ingólfsdóttir og Jón Svavar Jósefsson. Af öðrum leikurum þarf (að venju) fyrst að telja þær mæðgur Huldu B. Hákonardóttur og Silju Björk Huldudóttur, sem ævinlega eru senuþjófar á Hugleiksýningum vegna smitandi leikgleði sinnar og hæfileika. Hulda var að þessu sinni dönsk prestsfrú sem talaði sína sérstöku íslensku, Silja Björk var grasalæknir og jógagúru sem stofnar spa í sveitinni til að líkna stressuðum kaupstaðarbúum. Mig langaði mjög til að taka með þeim gleðiöndunina – enda var orðið svolítið loftlaust á Smíðaverkstæðinu í óvæntu hitakastinu í höfuðborginni. Líka þarf að nefna Svanlaugu Jóhannsdóttur sem var nokkuð öðruvísi Gróa á Leiti en hjá Jóni Thor., og Friðjón Magnússon var alveg frábær Hallfreður guðfræðistúdent.

Hljómsveitin Ær og kýr stóð sig með hefðbundinni prýði; músíkkin er alltaf pottþétt hjá Hugleik. Leikmynd og búningar báru góðu hugviti vitni. Ó, þú aftur verður sýnt á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins til 29. maí. Ég heiti á alla aðdáendur Hugleiks fyrr og síðar og láta hana ekki fara framhjá sér. Netfangið er www.hugleikur.is

 

Silja Aðalsteinsdóttir