HúmanímalMönnum brá svolítið í brún þegar Páll Baldvin gaf sýningunni Húmanímal í Hafnarfjarðarleikhúsinu fimm stjörnur af fimm mögulegum í Fréttablaðinu, vissu ekki alveg hvaðan á þá stóð veðrið af því Páll er venjulega spar á hrósið. Ég sá ekki sýninguna fyrr en í gær, kannski næstsíðustu sýninguna, ef aðdáendum tekst ekki að fá þeim fjölgað, en ég sannfærðist um að PBB hafði nokkuð til síns máls. Þetta er óvenjuleg sýning, hún er borin fram af sannri fagmennsku og borin uppi af sannri ástríðu – fyrir listinni og fyrir boðskapnum. Meira er erfitt að heimta.

Leikhópurinn kallar sig “mig og vini mína” og hann tók allur þátt í að semja verkið. Svo klofnaði hann, Friðrik Friðriksson tók að sér að stjórna því ásamt Friðgeir Einarssyni, hin flytja það, líka ásamt Friðgeiri. Verkefnið er að rannsaka hvatirnar sem vakna strax hjá smábarninu, græðgina í lífið, tilfinningarnar og útrásina. Mestan áhuga hafa þau á ástinni og greddunni, og þau fara verulega vel með þetta flókna efni. Annars vegar segja þau okkur í texta um hvað greddan og ástin eru, og þar var minnisstæðust kennslustund Friðgeirs og Sögu Sigurðardóttur í næmum svæðum kvenlíkamans. Hins vegar sýna þau okkur í dansi og annarri hreyfilist hvað þessar tilfinningar eru. Þá verður sýningin oft innilega erótísk og afar falleg. Það eru samskipti kynjanna sem hópnum eru hugleiknust, eðlileg og öfugsnúin, erfið og hugljúf, fögur og ljót.

Það áhrifamesta er hvað hópurinn treystir fullkomlega á aðferðir sínar til að ná til áhorfenda, aðferðir sem eru fyrst og fremst líkamlegar, og traustið fleytir þeim alla leið.

Í hópnum eru flottir listamenn með Álfrúnu Örnólfsdóttur í broddi fylkingar sem dansara, leikara og söngvara. Hvílík rödd og hvílík tjáning sem líkami hennar miðlar. En félagar hennar voru engir eftirbátar. Erótísk áflog Jörundar Ragnarssonar og Sögu Sigurðardóttur með sitt makalausa hár voru heillandi. Erindi Margrétar Bjarnadóttur um hvernig orðin bera ævinlega í sér andstæðu sína var barnslega hrærandi. Dóra Jóhannsdóttir fræðir okkur kalt og einbeitt um efnin í heilanum sem valda ástargirnd en á bágt með kúlið þegar hendur koma út úr veggnum á bak við hana, hlykkjast utan um hana og gæla við hana.

Talandi um vegginn þá er svið Rósu Hrundar Kristjánsdóttur í senn einfalt, fallegt og gagnlegt. Á bakvegg eru óteljandi flíkur sem raðað er eftir litum þannig að þau mynda rendur langsum. Þessar flíkur grípa leikararnir þegar þörfin kallar og fara ýmist í eða úr. Ljósahönnun Garðars Borgþórssonar virtist mun flóknari en jafnsnjöll. Loks var hljóðmynd Gísla Galdurs Þorgeirssonar frábær án þess að vera senuþjófur – nema þegar hún átti senuna hvort sem var. Allt í allt: Dýrleg sýning.

Silja Aðalsteinsdóttir