Á eigin vegumÞað virðist í fljótu bragði djarft að setja skáldsöguna Á eigin vegum á svið. Er nokkuð „leikrænt“ við roskna konu sem býr ein og þekkir engan, á ekki einu sinni neina vinnufélaga því að hún ber út blöð á morgnana  alein og hennar eina afþreying er að fara í jarðarfarir og erfisdrykkjur fólks sem hún þekkir ekkert eða á opið hús hjá fasteignasölum? Nei, ég hélt ekki. Þetta gera þær þó Maríanna Clara Lúthersdóttir og Salka Guðmundsdóttir með góðfúslegu leyfi höfundar, Kristínar Steinsdóttur og verkið var frumsýnt í gærkvöldi á Litla sviði Borgarleikhússins með hinni makalausu Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í eina hlutverkinu. Stefán Jónsson leikstýrir henni listilega vel.

Ég ímynda mér að þær Maríanna Clara og Salka hafi ekki síst fallið fyrir sögumannsröddinni í bókinni, enda er það hún sem þær nota í handritinu –  hinn hlýi, mjúki tónn, auðmjúkur vissulega eins og hæfir langbældri manneskju eins og Sigþrúði Kristbjörgu Ólafsdóttur en þó ofurlítið íronískur og talsvert kómískur. Líf Sigþrúðar hefur ekki verið viðburðaríkt nema þá í neikvæðum skilningi. Hún fæddist bækluð og ekki nóg með það heldur lést móðir hennar við að fæða hana. Hún elst upp hjá elskulegri fóstru en þótt væn sé getur hún ekki verndað litlu stúlkuna fyrir illyrmislegri stríðni skólafélaganna sem setur mark sitt á hana ævilangt. Eitt stutt ástarævintýri á hún á unga aldri með sárum afleiðingum. Hún verður vinnukona hjá Tómasi, verkstjóranum í síldinni, þegar móðir hans þarf umönnun á heimili hans og þolir andstyggilega framkomu og fyrirlitningu skjólstæðings síns í heil fimm ár. Margur hefði nú gefist upp en ekki Sigþrúður. Þegar kerlingin er dauð giftist Sigþrúður Tómasi verkstjóra og seinna meir flytja þau suður. Nú er Tómas líka fallinn frá en ekki virðist hann liggja alveg kyrr …

Á eigin vegum

Það bjargar miklu að Sigþrúður hefur áhuga á umhverfi sínu og fólki og hún hefur ríkulegt hugmyndaflug. Hennar innra líf bætir upp grámygluna ytra. Þetta innra líf skapar Egill Sæbjörnsson upp um bakveggi sviðsins á hreint ævintýralegan hátt svo að mann langaði oft til að skella upp úr og æpa jafnvel af gleði! Efnið í hugarreik sitt sækir Sigþrúður aðallega í ættarsögu sína sem hún veit þó ekki mikið um. Þrjóskan hjálpar henni til að finna út tengingu við Frakkland sem verður henni mikil lyftistöng. Það er ekki amalegt að sitja í berangurslegri kjallaraíbúð í Reykjavík en vera í huganum á kaffihúsi í París!

Sigrún Edda leikur á móti myndunum hans Egils og góðan mótleik fær hún líka frá fötunum sem hún klæðist. Sigþrúður þarf á alls konar yfirhöfnum að halda því að annars vegar er veðráttan alls konar í blaðburðinum á morgnana og hins vegar þarf hún að vera fín í jarðarförunum. Stefanía Adolfsdóttir klæðir Sigþrúði á mjög svo sæmandi máta. Og það var furðu áhugavert að horfa á persónuna klæða sig úr og í kápuna, aftur og aftur, setja upp eða taka af sér slæðu eða sjal, og tala við okkur á meðan. Undir hljómaði tónlistin sem Sóley Stefánsdóttir samdi og valdi, enn einn mótleikari – óáreitin en drjúgur hluti af þokka sýningarinnar í heild.

Á eigin vegum

 

Það var einstaklega ánægjulegt að fylgjast með þessum hversdagslegu athöfnum, hlusta á merkilega sögu persónunnar og dást að öryggi, þokka og sjarma þessarar dáðu leikkonu. Merkilegt að hún skuli ekki hafa reynt löngu fyrr að standa ein á sviðinu, það lætur henni ákaflega vel.

 

Silja Aðalsteinsdóttir