Af krókófílum, geimverum, tímaflakki og hugsanablöðrum

eftir Margréti Tryggvadóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2004

 

Þegar ég var að alast upp áttu barnabækur að vera stútfullar af félagslegu raunsæi, kenna lesendum sínum á heiminn og gera þá að virkum, ábyrgum og síðast en ekki síst róttækum þjóðfélagsþegnum. Börn áttu að kynnast raunveruleikanum.

ég var að upplagi hlýðið barn og las það sem fyrir mig var borið. Og vissulega kunni ég að meta þessar bækur. Ég lifði mig inn í heim lyklabarnsins, kjörbarnsins og barnsins sem átti sundraða fjölskyldu. Reyndar samræmdist sú heimsmynd sem bækur þessa tíma drógu upp ekki endilega veruleika mínum, barns heildsalans og stundakennarans sem lifði í allsnægtum í rúmgóðu raðhúsi í úthverfi og hlaut alla þá ást og athygli sem það gat tekið á móti. Engu að síður þótti mér líf lyklabarna sem bjuggu með einstæðu foreldri í blokk á byggingarsvæði áhugavert og kannski hefur lestur þessara bóka gert mig að betri manneskju eins og til var ætlast.

En þegar ég var átta ára eignaðist ég bók sem mér þótti ótrúlega fyndin og skemmtileg og varð mér kærari en flestar aðrar. Þessi bók var allt öðruvísi en bækurnar um afskiptu börnin. Hún gaf raunveruleikanum langt nef og boðaði það eitt að mínu mati að ef manni leiddist ætti maður að skemmta sér. Þessa bók átti ég ein og ég minnist þess ekki að neinn hafi lesið hana fyrir mig. Ég skynjaði á einhvern hátt að fullorðna fólkið myndi ekki vera sama sinnis og ég og reyndi lítið að fá einhvern til að lesa hana fyrir mig.

Þótt ég hafi orðið læs á tímum þegar allar barnabækur voru uppfullar af félagslegu raunsæi sótti ég líka mikið í ævintýri og þjóðsögur og þekkti undraheim þeirra. En það sem var öðruvísi í þessari nýju bók var að ævintýrin gerðust í nútímanum og í þeirri Reykjavík sem ég þekkti svo vel. Bókin var ekki bara sú skemmtilegasta sem ég hafði lesið fram að þessu. Hún kenndi mér og vinum mínum hugsanablöðruleikinn og þegar maður fór í hann varð veröldin bara svo miklu sniðugri. Bókin heitir Allt í plati (1980) og er eftir Sigrúnu Eldjárn.

Allt í plati

Allt í plati eftir Sigrúnu Eldjárn

Sigrún lauk námi úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1977. Hún hefur starfað jöfnum höndum við myndlist, myndskreytingar og ritstörf allar götur síðan og eftir hana liggja 28 frumsamdar barnabækur. Auk þess hefur hún myndskreytt ótal bækur annarra höfunda sem og ljóðabækur Þórarins Eldjárns. Þekktustu bækur Sigrúnar eru væntanlega myndabækur hennar fyrir ólæs börn en hún hefur einnig skrifað lengri sögur fyrir eldri börn, fjörlegar spennusögur og vísindaskáldsögur. Fantasían er áberandi í verkum hennar og leikur, bæði í myndum og máli. Bækur hennar þekkjast alls staðar á fjörlegum og fallegum myndum höfundar.

 

Leikur með formið

Bókin Allt í plati segir frá þeim Eyvindi og Höllu sem halda á vit ævintýraheims í hugsanablöðru Höllu. Þessi heimur er undir götum borgarinnar en þar búa svokallaðir krókófílar í háþróuðu og örlítið útópísku samfélagi. Þeir vinna ýmis störf í þágu mannkyns án þess að hljóta þakkir fyrir, t.d. vökva þeir ljósastaurana með lýsi svo að þeir lýsi betur og rækta kirkjur í sérstökum kirkjugörðum. Krókófílarnir eru miklar tilfinningaverur og eiga erfitt með að horfa upp á sóun mannanna á auðlindum sínum. En aðallega eru þeir uppspretta skemmtunar og gleði. Eftir skoðunarferð neðanjarðar halda krakkarnir upp á yfirborðið með vini sínum Sigvalda krókófíl og sjá þá heiminn í nýju ljósi. Árið eftir fylgdi svo bókin Eins og í sögu (1981) þar sem krakkarnir lenda í nýjum ævintýrum með Sigvalda vini sínum.

Það var ekki einungis söguefnið sem var nýstárlegt í þessum bókum, frásagnarmátinn var það líka. Í þessum fyrstu verkum Sigrúnar koma strax fram mörg af hennar sérstöku höfundareinkennum. [1] Bækurnar eru tilraunakenndar og uppfullar af skemmtilegum hugmyndum sem margar hverjar hafa lifað áfram í verkum hennar. Og þótt bækur Sigrúnar hafi vissulega þróast má fullyrða að í fyrstu verkum sínum hafi hún verið langt á undan sinni samtíð hvað varðar framsetningu, efnistök og skemmtigildi (sem var alls ekki í tísku).

Í Allt í plati segir Sigrún sögu í bók sem í senn er textabók, myndabók og teiknimyndasaga. Á þessum tíma voru fáar íslenskar bækur myndskreyttar að ráði og hvað þá í lit. Fyrstu bækur Sigrúnar voru prentaðar í tvílit sem gerði að verkum að þær skáru sig enn frekar frá öðrum íslenskum bókum. Það sem greindi bækur Sigrúnar frá fjöldanum (ef hægt er að komast svo að orði um barnabókaútgáfu á þeim tíma) var að myndir hennar voru ekki bara til skrauts, þær voru virkt tjáningarform sem sagði jafnmikla sögu og textinn. Höfundur ætlast til að lesendur lesi líka myndirnar því án þeirra er ekki hægt að skilja söguna til fullnustu. Með aðferðum teiknimyndasögunnar og myndabókarinnar fléttar Sigrún saman myndir og texta svo úr verður ein heilsteypt saga.

Allt í plati

Ævintýrið í Allt í plati eftir Sigrúnu Eldjárn gerist inni í hugsanablöðru annarrar aðalpersónunnar og þar getur allt gerst.

Ævintýrið sjálft gerist inni í svokallaðri hugsanablöðru eins og notaðar eru til að tjá hugsanir persóna teiknimyndasagna en í þessari bók eru hugsanablaðran hlutgerð og krakkarnir geta farið inn í hana og þaðan niður um hlemm í götunni til að komast ofan í holræsakerfi borgarinnar. Í seinni bókinni fara börnin ekki inn í hugsanablöðruna. Halla hugsar um Sigvalda krókófíl og Eyvindur sprengir blöðruna hennar og Sigvaldi fellur til jarðar.

Sigrún gerir oft þá kröfu að lesendur lesi myndirnar til að fá botn í sögur hennar. Þriðja bók hennar, Gleymmérei (1981 og endurgerð útgáfa 1996) er ljóðskreytt af Þórarni Eldjárn og er eina íslenska flettimyndabókin. Þar segir frá telpuhnátunni Gleymmérei sem lendir í stökustu vandræðum þegar mikilvæga hluti vandar í það sem hún er að gera. Bókin er afar hugvitssamlega hönnuð. Á hverri opnu er mynd af stelpunni vinstra megin en hægra megin er botnlaus vísa sem lýsir því sem stelpuna vantar, t.d. kopp, stígvél, sleikipinna eða axlabönd. Barnið sem hlustar á upplesturinn þarf svo að lesa í myndirnar og botna vísuna með rímorði eða orðum og leysa gátuna um leið. Lausnin er þó ekki langt undan því hægri síðan flettist út frá miðju og lausnin birtist, bæði í mynd og texta. Í nýlegri verkum, t.a.m. í myndabókunum um Málfríði, Skordýraþjónusta Málfríðar (1995) og Málfríður og tölvuskrímslið (1998) þarf einnig að lesa í myndirnar til að skilja söguna. Víða eru setningar og orð á skiltum sem gaman er að lesa en einnig brýtur hún textann upp með því að sýna okkur minnisbók mömmu Málfríðar. Síða úr henni er birt í mynd á 11. opnu en er í raun hluti af textanum. Fyrir krakka sem eru nýbyrjuð að læra að lesa verður úr þessu skemmtilegur leikur, því þau ráða oft við að lesa á skilti eða í talblöðrur þótt þau geti ekki enn lesið texta sagnanna.

Í bókinni Talnakver (1994) sem Þórarinn Eldjárn ljóðskreytti er að finna sögu sem er nánast aðeins til á myndunum. Vísur Þórarins fjalla um tölurnar og gildi þeirra og eru vissulega tengdar við myndefni hverrar opnu en með því að skoða myndirnar eingöngu má lesa sögu af krökkum sem fara í afmæli og skemmta sér konunglega.

Í mörgum bóka hennar má líka finna litlar verur, köngulær, mýs, gangandi banana og annað sem gaman er að leita uppi og gerir það að verkum að ungir lesendur skoða bækurnar af meiri athygli en ella. Þessar litlu fígúrur stuðla þannig að virkari myndlestri.

 

Hvað veistu um heiminn?

Margar góðar myndabækur vísa út fyrir sig með texta og myndum. Í fyrstu bókum Sigrúnar má finna ógrynni hugvitssamlegra vísana. Aðalpersónur bókanna heita t.a.m. eftir þekktum persónum í bókmenntasögunni, Fjalla-Eyvindi og Höllu. Þjóðhildur, eldgömul kona sem krakkarnir hitta á ferðum sínum, talar um að hafa þekkt Njál á Bergþórshvoli og hafa verið skotin í „Gunnari á Hlíðarenda þótt ótuktin hún Hallgerður krækti í hann.“ [2] Hún segist einnig vita hver samdi Njálu (en „það er leyndó“). Þá dregur hún fram bók og á eftir fylgir bein tilvitnun í Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Einnig er borgarlandslag Reykjavíkur vel þekkjanlegt á myndunum og víða sjást þekktar byggingar og kennileiti s.s. Tjörnin, Hallgrímskirkja, Iðnó og gamli iðnskólinn við Tjörnina.

Allt í plati

Útsýnið ofan úr Hallgrímskirkjuturni, Allt í plati eftir Sigrúnu Eldjárn.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir að ungir lesendur sögunnar skilji allar þessar vísanir eða þekki sig á söguslóðum en það kemur ekki að sök, sagan stendur fyrir sínu og  höfundur gætir þess að þessi atriði trufli aldrei flæði sögunnar. Merkingaraukarnir verða þarna enn þegar börnin hafa þroska og forsendur til að skilja þá. Geri þau það bætist við heill merkingarheimur. Fyrir fullorðna lesendur eru þessar vísanir frábærar og til þess fallnar að auka áhuga þeirra á að lesa bækurnar fyrir smáfólkið. Það vill nefnilega oft gleymast að myndabókin er bókmenntaform fyrir tvo lesendahópa. Hún er skrifuð fyrir ólæs börn og á að höfða til þeirra með efni sínu og efnistökum. Það er hins vegar fullorðna fólkið sem þarf að lesa bækurnar og ef þeim finnst þær leiðinlegar lenda þær ósjálfrátt uppi í efstu hillu þar sem börnin ná ekki til þeirra. Þess vegna tala góðar myndabækur ávallt til þessara tveggja lesendahópa og með tveimur miðlum, myndum og texta.

Vísanirnar í Draugasúpunni (2002) eru hins vegar flestar sérsniðnar að forþekkingu barna. Mest áberandi eru vísanir í Rauðhettu en í sögunni halda þau Harpa og Hrói í sendiferð með köku og vín inn í skóg. Það er þó ekki amma sem á að njóta veiganna heldur Hrollfríður frænka Hörpu. Auðvitað hitta þau úlf sem spyr þau hvort þau séu á leiðinni til ömmu. „Ha, ha! Það þýðir ekkert fyrir þig að reyna að plata okkur, við erum ekki nærri eins vitlaus og Rauðhetta. Við þekkjum alveg ömmur frá úlfum,“ segir Harpa [3] og eftir nokkurt þóf halda þau þrjú áfram inn í skóginn og síðar slást fleiri furðuverur úr skóginum í för með þeim. Eðli úlfsins er þó samt við sig og Harpa á eftir að falla í sömu gildru og Rauðhetta þegar hópurinn gengur fram á tvö misvísandi skilti sem bæði þykjast vísa veginn til Hrollfríðar frænku. Úlfurinn stingur upp á því að hann fari aðra leiðina en Harpa, Hrói og þau hin tíni blóm í skóginum en haldi svo hina leiðina. Það finnst Hörpu snilldarhugmynd. Þau átta sig þó um síðir og flýta sér heim til Hrollfríðar sem stendur yfir pottinum og er að sjóða súpu. Inni í rúmi sefur úlfurinn með nátthúfu á höfði. „HROLLFRÍÐUR FRÆNKA! Af hverju ertu með svona STÓR EYRU … og AUGU … og MUNN!?“ [4] æpir Harpa en svarið sem hún fær er: „Það er alls ekki kurteislegt að gera gys að útliti fólks! Ég hef alla tíð verið fremur stórskorin í andliti og mér finnst það bara í góðu lagi!“ [5]

 

Ísland í öðru veldi

Ísland er áberandi í þessum fyrstu verkum Sigrúnar. Eitt af einkennum Reykjavíkur, Hallgrímskirkja, gegnir veigamiklu hlutverki í fyrstu bókinni og borgin öll er mjög greinileg. Þessu hefur hún haldið að nokkru leyti í síðari bókum. Reykjavík er ekki eins sýnileg í öðrum verkum hennar (meðal annars vegna þess að þær gerast ekki allar í borg) en umhverfi flestra bóka hennar er greinilega landið okkar. En Ísland hefur breyst síðan 1980 og árið 1997 kom út bókin Kynlegur kvistur á grænni grein sem er fyrsta íslenska myndabókin sem gerist í skógi. Í gömlu ævintýrunum þurfa persónurnar oftast að fara yfir fjöll og firnindi ístað þess að ganga í gegnum skóg í þeim evrópsku en Harpa og Hrói lenda í ævintýrum í alvöru íslenskum skógi og eins og í gömlu ævintýrunum þarf aðalpersónan Harpa að beita snilligáfu sinni til að vinna óvætt skógarins.

Þjóðhildur í Allt í plati og Eins og í sögu er ákaflega gömul því hún á lífstein sem er græddur í handarkrika hennar. Hún er fyrsta þjóðbúningakerling Sigrúnar, býr í torfbæ og er hafsjór fróðleiks um íslenska menningu. Í kjölfar hennar fylgdi Málfríður, fjörug kerling sem býr með mömmu sinni sem er vitanlega enn eldri. Málfríður er þó frjálslegri en Þjóðhildur því hún er yfirleitt bara í skrautlegu pilsi, blússu og strigaskóm en ber þó ávallt skotthúfu á höfði. Þá eru konur í íslenskum búningum algengt þema í myndlist Sigrúnar.

Kuggur, Málfríður og mamma Málfríðar

Kuggur, Málfríður og mamma Málfríðar, úr Ferðaflækjur eftir Sigrúnu Eldjárn.

 

Þurfa allar barnabækur að hafa góðan boðskap?

Því hefur stundum verið haldið fram að hvergi sé að finna boðskap í verkum Sigrúnar. Gleðin og leikurinn er alls staðar í fyrirrúmi. Ef vel er að gáð má þó sjá að verk hennar eru mörkuð ákveðinni lífsafstöðu sem vissulega felur í sér boðskap. Í bókum sínum um Hörpu og Hróa setur Sigrún til dæmis fram and-rasískan boðskap á afar smekklegan hátt og kannski þann eina rétta þegar verið er að tala til ungra barna. Harpa er fyrsta aðalpersóna íslenskrar myndabókar sem er dökk á hörund. Áður hafði Sigrún teflt fram dökkri aukapersónu í Talnakveri en enn eru persónur af öðrum kynþætti fremur fágæt sjón í íslensku barnabókum. [6]

Í raunsæisbókunum sem ég ólst upp við, bæði þýddum og íslenskum, og fleiri bókum af því tagi er stundum fjallað um fólk af öðrum kynþáttum en þeim næpuhvíta en ávallt með því að fjalla um framandleika þess, ættleiðingar eða einelti sem dökkar sögupersónur lentu í sökum þess að þær skáru sig úr. Höfundum þessara bóka gekk gott eitt til en engu að síður bentu þær sífellt á allt sem var öðruvísi í fari þessara barna. Hjá Sigrúnu er þessu þveröfugt farið. Hvergi er minnst á að Harpa sé á nokkurn hátt frábrugðin öðrum börnum (enda er hún það ekki) en hún er sérlega yndisleg stelpa og góð fyrirmynd. Ungum lesanda er svo sannarlega óhætt að feta í fótspor hennar. Harpa er svo jákvæð og skemmtileg persóna að það er ekki hægt að stilla sig um að elska hana. Þau Harpa og Hrói eru reyndar ansi lík þeim Eyvindi og Höllu. Líkt og Eyvindur á Hrói það til að vera neikvæður og fara í fýlu en þær Harpa og Halla kunna alltaf ráð við því. Harpa og Halla eru líka svipaðar í útliti, fyrir utan litarháttinn, hárgreiðslan er meira að segja sú sama. [7]

Sigrún notar sömu aðferð þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Hvergi er talað um réttindi kvenna eða að stelpur eigi að standa jafnfætis strákum en með því að skapa sterkar kvenpersónur og hafa venjulega bæði stráka og stelpur í aðalhlutverki í bókum sínum snýr Sigrún upp á hefðina. Í bókunum Langafi drullumallar (1983) og Langafi prakkari (1984) gerir hún meira að segja karlmann að barnapíu sem þá og kannski ekki síður nú er óvenjulegt.

Þá reyna mörg verka hennar að brúa bilið milli kynslóðanna. Við lifum í samfélagi þar sem hver kynslóð fyrir sig lifir ólíku og aðskildu lífi. Börn eru í leikskólum og skólum, fullorða fólkið í vinnunni og gamla fólkið umgengst öðrum fremur annað gamalt fólk. Í bókunum um Langafa tengir hún saman tvær kynslóðir í leik og starfi. Anna og langafi passa hvort annað og leika sér dægrin löng. Í bókunum um Málfríði, mömmu hennar og Kugg (1987–1998) segir frá stráknum Kuggi sem er nýfluttur og þekkir enga krakka á nýja staðnum. Hann kynnist tveimur skrýtnum en ákaflega skemmtilegum gömlum kerlingum og er mikið með þeim. Vinátta Málfríðar og Kuggs byggist ekki skyldleika eins og í bókunum um langafa og Önnu. Þau kjósa einfaldlega að vera vinir vegna þess að þau kunna vel við félagsskap hvort annars. Og hver myndi fúlsa við vini eins og Málfríði sem stofnar skordýraþjónustu sem gaman er að fylgjast með og er einstaklega laghent, getur meira að segja smíðað undraverðar tölvur og prentara sem prenta út lifandi fyrirbæri.

Þótt Málfríður sé gömul kona er hún að vissu leyti í sömu sporum og Kuggur (og lesendur ef því er að skipta) því hún býr hjá mömmu sinni og finnst ekki í sínum verkahring að  axla ábyrgð. Þegar sköpun hennar, sjálft tölvuskrímslið, sleppur út og hrellir saklausa borgara finnst henni bara ágætt að vera laus við það og mamma hennar er ekkert skárri, fær sér bara tertusneið. Þá er það Kuggur sem er samviska þeirra mæðgna og bendir á þá ógn sem mannkyninu stafar af tölvuskrímslum.

Málfríður og Tölvuskrímslið

Kuggur reynir að fanga tölvuskrímslið ógurlega í Málfríður og Tölvuskrímslið eftir Sigrúnu Eldjárn.

Málfríður hefur allt það frelsi sem ungir lesendur bókanna geta aðeins látið sig dreyma um. Hún er fullorðin manneskja eins og ungir lesendur myndu vilja vera: Hress, skemmtileg og alltaf til í að leika sér.

Þá má víða finna boðskap sem umhverfisverndarsinnar yrðu hrifnir af. Í Allt í plati fylgjumst við með krókófílunum hjúkra þorskum sem hafa orðið fyrir alvarlegri eitrun í sjónum því „það eru engin takmörk fyrir því hvað mannfólkinu dettur í hug að kasta í sjóinn, alls konar eitri, olíu, herðatrjám, plastbrúsum, tyggjói og gömlum gleraugum.“ [8]

Stundum gera persónur Sigrúnar líka grín að boðskap hefðbundinna barnabóka. „Það er […] góð regla að BORÐA ALDREI VINI SÍNA!“ [9] segir Hrollfríður frænka og það er alveg satt.

 

Leikur með tungumálið

Eitt af því sem maður fær ekki nóg af í bókum Sigrúnar er hvernig hún leikur sér með tungumálið. „Skóflið þessu í ykkur!!“ segir Þjóðhildur í Allt í plati þar sem hún stendur fyrir framan mannhæðarháa rjómatertu og réttir þeim Höllu og Eyvindi skóflur í fullri stærð.

Í Kynlegur kvistur á grænni grein kynnast Harpa og Hrói furðulegu systkinunum og skógarbúunum Kvisti og Greinaflækju. Orðfæri Kvists einkennist að miklu leyti af myndmáli skógarins. Hann notar til dæmis orðið greinilega oftar en flestir aðrir sem og önnur orð sem fela í sér orðmyndina „grein“. Greinaflækja er t.d. greinargóð stúlka þótt sérgrein hennar sé að hrekkja gamalt skógarskrímsli og koma sér í vandræði í stað þess að festa rætur eins og til er ætlast.

Í Draugasúpunni segir hauslausi maðurinn að „höfuðatriðið [sé] að halda haus“, en beinagrindinni finnst „beina leiðin […] áreiðanlega best“. [10]

Þá hefur enn ekki verið fjallað um það hvernig persónum er lýst með orðfæri sínu. Mamma Málfríðar er feykilega gömul kona. Aldur hennar er mjög á reiki en mál hennar er gamaldags og sker sig frá öðrum texta bókarinnar. „Það eru öll tormerki á því að Málfríður geti gengið til leiks með þér. Ég ræ nú að því öllum árum að koma henni út í atvinnulífið. Hún þarf að fara að vinna fyrir sér, eiga til hnífs og skeiðar,“ [11] svarar hún Kuggi þegar hann kemur að spyrja eftir dóttur hennar.

Í bókunum um Teit tímaflakkara (1998–2001) ferðast Teitur bæði fram og aftur í tímann. Í fortíðinni kynnist hann Narfa sem talar fornmál: „Vér höfum engu að tapa … allt að vinna! OG munum vér vera þau einu sem getum bjargað vorri jarðarkringlu og mannkyni öllu fyrr og síðar!“ [12] segir hann í hita leiksins. Teitur eignast líka vinkonu í framtíðinni, Stellu. Hún talar framtíðaríslensku sem er gegnsýrð öllum þeim ambögum sem víða er að finna í fjölmiðlum nú á tímum. „Hvað ertu að gera maður? Hefurðu orðið fyrir vitskerðingu!?“ [13] segir Stella þegar henni er nóg boðið. Stella talar alltaf um sjálfa sig sem „sitt sjálf“, augun sem „sjónstöðvar“, hugann sem „heilastöðvar“ og þekkingu sem „vitneskju í heilavef“. Þá bætir hún gjarna „-leiki“, „-ferli“ og „-stuðull“ við orð sem okkur er eðlilegt að nota í einfaldari mynd og ofnotar tískuorð á borð við „að hanna“ ístað þess að tala einfaldlega um að búa eitthvað til. Framtíðaríslenska Stellu er góð aðvörun um hvert íslenskan stefnir.

 

Sögur um sögur

Mörkin milli draums, veruleika og fantasíu í verkum Sigrúnar eru oft óljós. Í Allt í plati er lesendum látið eftir að dæma hvort sagan sé hugarburður barnanna eða hvort hún gerðist í raun og veru:

 

„Það verður nú gaman að segja frá öllu, sem hefur gerst hjá okkur í dag!“ segir Eyvindur um leið og hann stekkur út úr hugsanablöðrunni.

„Iss!! Það trúir okkur áreiðanlega enginn!!!“ [segir Halla]

HVER TRÚIR LÍKA SVONA SÖGU???!!! [14]

 

Þar er bókin farin að fjalla um sjálfa sig og því orðin metatexti, texti sem fjallar um sjálfan sig sem texta.

Í lok Eins og í sögu skiljum við við þau Höllu og Eyvind á bekk þar sem þau ranka við sér eftir ævintýrin í hugsanablöðrunni og velta fyrir sér hvort þau hafi verið að dreyma. En þau halda enn á lúðrum sem ævintýraverurnar sem þau heimsóttu í Lúðrasveitinni (svokallaðir Lúðrasveitungar) höfðu ljáð þeim, og lesanda er að ákveða hvort þeir trúi sögunni. Það sama er upp á teningnum í Kynlegir kvistir á grænni grein. Aðalpersónur þeirrar bókar standa í lokin með ljósmynd sem sannar ævintýri þeirra og velta fyrir sér hvort borgi sig að sýna fullorðnu fólki hana. Það myndi ábyggilega ekki sjá neitt annað út úr henni en venjuleg tré í venjulegum skógi.

Bétveir Bétveir

Konan sem skrifar stundum bækur færir geimverunni nýjustu bókina sína, í Bétveir Bétveir eftir Sigrúnu Eldjárn.

Í verkum Sigrúnar er oftar en einu sinni fjallað um sögurnar sjálfar sem sögur. Í B2 – Bétveir fylgjumst við með samskiptum nokkurra jarðneskra krakka og geimveru sem heitir Bétveir. Heima hjá Bétveimur eru ekki til bækur og hann vill gjarna fræðast um þessi furðulegu fyrirbæri. Krakkarnir fara þá með hann til konu sem skrifar stundum bækur (og er reyndar ansi lík höfundi í útliti) og biðja hana um að sýna sér hvernig hún fer að. Konunni dettur hins vegar ekkert í hug og sendir krakkana í burtu, þó ekki fyrr en hún hefur komið auga á Bétvo og fengið að vita hvaðan hann er kominn. Konuna má svo sjá á flestum opnum sögunnar, horfandi inn um glugga eða að gægjast yfir limgerði, fylgjast með dvöl geimverunnar hér á landi og teikna í stóra teikniblokk. Í lok sögunnar, rétt áður en Bétveir heldur af stað út í geiminn, kemur konan hlaupandi með bókina sem hún er búin að skrifa, söguna um Bétvo, og færir geimverunni.

Nýlega gerði ég óformlega könnun á bókmenntasmekk barna. Ég fékk krakka á aldrinum 4 til 11 ára til að velja eftirlætisbækurnar sínar. Draugasúpan og Drekastappan fengu flest atkvæði allra bóka hjá yngstu börnunum en bækurnar um Málfríði gáfu þeim lítið eftir í vinsældum. Hjá eldri börnunum voru bækurnar um Teit tímaflakkara ofarlega á lista. Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart enda er ég alveg sammála krökkunum. Í nærri aldarfjórðung hafa bækur Sigrúnar opnað börnum og öðru barnalegu fólki leið inn í ótal hugsanablöðrur. Ekki einungis færa þær okkur dásamlegar sögur, þær opna líka fyrir hugmyndaflug okkar sjálfra.

Þegar ég var krakki þótti mér gaman að velta fyrir mér möguleikanum á að undir götuhlemmunum væru krókófílar, þótt ég væri í raun of gömul til að trúa því. Ævintýri eru ekki sönn vegna þess að þau kenna okkur að drekar séu til, heldur vegna þess að þau kenna okkur að dreka megi sigra. Bækur Sigrúnar benda okkur á að við höfum líðan okkar í hendi okkar. Er nokkur furða að krakkar kunni vel að meta svona skemmtilegar bækur? Niðurdreginn lesandi er umsvifalaust hresstur við með hugmyndaauðgi og fjöri. Lífið er einfaldlega of stutt til að njóta þess ekki.

 

Tilvísanir

[1] Bækur Sigrúnar má t.a.m. þekkja á skófatnaði persóna hennar. Frá fyrstu tíð hafa þær yfirleitt klæðst strigaskóm sem eru reimaðir upp á ökkla.

[2] Eins og í sögu, 7. opna. Síður myndabóka eru yfirleitt ótölusettar og er því vísað til opna.

[3] Draugasúpan, 5. opna.

[4] Draugasúpan, 15. opna.

[5] Draugasúpan, 15. opna.

[6] Það á þó ekki við um nýlegar námsbækur. Í lestrarbókum fyrir yngstu börnin má víða sjá fólk af öllum gerðum.

[7] Í fyrstu bókinni um Hörpu og Hróa er hárið á Hörpu reyndar mun meira en á Höllu en í þeim nýrri hefur hún farið í klippingu og er orðin mun líkari Höllu.

[8] Allt í plati, 7. opna.

[9] Draugasúpan, 16. opna.

[10] Draugasúpan, 14. opna.

[11] Skordýraþjónusta Málfríðar, 2. opna.

[12] Geimeðlueggin, bls. 76.

[13] Teitur í heimi gulu dýranna, bls. 70.

[14] Allt í plati, 7. lokaopnan.