like-con 2017Leikfélag MH frumsýndi like–con 2017 í gærkvöldi, nýtt frumsamið verk sem Guðmundur Felixson stýrir. Eins og eðlilegt er fjallar verkið um samtímaveruleika höfunda, leikhópsins og leikstjórans: okkar nýja stafræna heim.

Við erum á leið á ráðstefnu hjá tæknifyrirtækinu Helix í kjallaraherhergjum Menntaskólans við Hamrahlíð og móttökunefndin er fjallhress þrenning (Hlynur, Hrafnhildur, Inga) sem er okkur til leiðsagnar alla sýninguna. Þau leiða okkur fyrst inn í kynningarsalinn þar sem starfsmenn Helix sitja hver við sitt borð og bjóða fram þjónustu af ýmsu tagi. Þeir eru tunguliprir með afbrigðum og eftir því sannfærandi ef þeir ná athygli gesta.

Síðan hefst ráðstefnan með sínum fyrirlestrum og skemmtiatriðum sem leiða okkur í allan sannleika um starfsemi fyrirtækisins, hvernig það býður þeim hjálp sem þrá frægð og frama og auglýsa rækilega góðverk sín – sem kannski reynast ekki góðverk þegar fram í sækir. Við kynnumst Nóa (Óðinn) sem er vinafár og leiður en Helix lyftir honum upp í heimsfrægð fyrir lagasmíð. Þá snýr hann baki við þeim einu tveim vinum sem hann þó átti (Dilja, Magnús) og eignast kærustu (Erna) en það er spurning hvort gæfan fylgir með. Við kynnumst kjarnafjölskyldunni Blöndal (Bjartur, Katla, Hákon, Iðunn) og fylgjumst með áhrifum Helix á hana. Við kynnumst heimilislausa manninum Villa (Hinrik) og björgunaraðgerðum viðsjárverða Helix-engilsins (Joana). Sérlegur talsmaður Helix (Victoria) þarf á öllu sínu að halda þegar tæknin stríðir henni – því það gerir hún í þessum fullkomnasta tækniheimi allra heima, það er svo skrítið! Og hvað gerir þrenningin tækniglaða þegar tæknin bregst? Hún fer með okkur í eldgamlan partýleik!

Í lokin stígur svo fram nýr hvítklæddur frelsari (Jónatan) með sinn óvænta boðskap …

Höfundar like-con 2017 lifa í þeim veruleika sem þau sýna okkur, þau vita hvernig hann virkar og þó að þau spili með láta þau ekki blekkjast af honum. Í rauninni er þetta nýstárlega leikverk skemmtilega gamaldags í boðskap sínum og kallast hárfínt á við sýningu sama leikfélags í fyrra á 1984 eftir Orwell. Textinn rann vel, framsögnin var skýr og leikurinn prýðilegur. Kynnarnir fjallhressu voru skínandi góðir og mörg atriðin verða eftirminnileg, til dæmis sjónvarpsviðtalið um og við heimilislausa manninn og grátleg örlög Blöndal-fjölskyldunnar. Innilegar hamingjuóskir LFMH (og Helix)!

Silja Aðalsteinsdóttir