Árum saman hef ég vitað af leiklistarhátíðunum í Edinborg en aldrei farið enda mikið fyrirtæki. Í ár bar svo óstjórnlega vel í veiði að heimilisvinir fengu hús þar í borg í húsaskiptum á réttum tíma og buðu okkur gistingu sem annars er erfitt að fá í borginni á þeim tíma. Maður spurði sig náttúrlega hvers vegna Edinborgarbúar vildu flýja að heiman á þessum hátíðatíma en eiginlega vissum við svarið um það leyti sem við komum heim.

Því að það gengur ekkert venjulega mikið á þessar vikur í borginni. Íbúafjöldinn tvöfaldast og meðal gestanna eru fjöllistamenn af öllu tagi sem ekki láta sér nægja að sýna í þar til gerðum húsum heldur leika listir sínar á götum úti, hvar sem svolítið rými gefst. Á götunni sem er kölluð Royal Mile er hver hópurinn af öðrum að sýna sig og ekki verður þverfótað fyrir þúsundum ungmenna sem dreifa auglýsingablöðum til vegfarenda.

Mest sinntum við þeim hluta hátíðarinnar sem er kenndur við fringe, útjaðar. Þar  voru yfir þrjú þúsund viðburðir á yfir þrjú hundruð stöðum í borginni þannig að gestir velja ekki af kostgæfni það sem þeir vilja sjá, a.m.k. ekki fyrstu dagana. Og alltaf verður undir hælinn lagt hvort maður sér það sem maður ætti helst að sjá. Þrátt fyrir það vorum við að mestu leyti heppin og jafnvel versta sýningin gaf bara skemmtilega andstæðu við hinar.

Lights! Camera! Improvise!

Lights! Camera! Improvise!

Við komum til Edinborgar á sunnudagskvöldi og drifum okkur í bæinn strax eftir morgunmat á mánudegi. Sá dagur fór að mestu í að safna áhrifum og auglýsingablöðum og fyrsta viðburðinn völdum við einfaldlega úr þeim, sýningu Mischief Theatre á Lights! Camera! Improvise!, verðlaunasýningu frá hátíðinni árið áður. Þar býður leikstjóri áhorfendum að koma með hugmyndir að kvikmynd, stinga upp á stað þar sem hún á að gerast, titli og helstu persónum. Síðan ætlar hann að láta leikhópinn leika eftir pöntuninni. Salurinn vildi að myndin héti Crouching Penguin, Hidden Herring og ætti sér stað á Suðurpólnum en ekki varð mikið úr þeim óskum því kröfurnar samræmdust illa þræðinum og textanum sem leikararnir voru búnir að læra. En þetta varð dillandi fjörugur og skemmtilegur hálf-gjörningur.

Þessi fyrsti viðburður var uppi á þriðju hæð í einu af Pleasance rýmunum. Fyrri sýningin á þriðjudegi var í loftlausum kjallara á vegum Spotlites. Hún hét Our Jackie og leikhópurinn kom frá University College í London. Leikritið var grín á sápuóperur og alls ekki svo galið en stúdentarnir voru ekki nógu góðir leikarar til að halda manni vakandi í súrefnisleysinu. Þetta var versta sýningin sem við sáum en það gerði ekki til því að auðvitað verður maður að upplifa allan skalann.

Seinni þriðjudagssýningin var allt sem sú fyrri var ekki: Rosalega vönduð og vel leikin og sviðstækni notuð af mikilli snilld. Þetta var SmallWar eftir Belgann Valentijn Dhaenens sem einnig leikur öll hlutverkin, á sviðinu og í vídeómynd í baksýn. Leikritið var sýnt í Traverse leikhúsinu því þá vorum við komin í samband við Kolbrúnu Björt Sigfúsdóttur sem þar starfar og var okkur innan handar. Verkið fjallar um fyrri heimsstyrjöldina en um leið um öll stríð. Á sviðinu er hjúkrunarkona sem vakir yfir sjúklingi sem misst hefur alla útlimi, sjón og heyrn. Hún talar um sára reynslu sína af starfinu og hatur sitt á vígtólum. Svo heyrum við rödd sjúklingsins sem segir sína reynslusögu og líka í öðrum hermönnum og aðstandendum þeirra. Textinn er byggður á bútum úr raunverulegum bréfum frá hermönnum og hjúkrunarfólki á vígvöllum styrjalda og líka þeim sem heima sátu og biðu. Flott sýning en ekki auðveld áhorfs.

Við héldum okkur við Traverse og sáum á fyrri sýningu á miðvikudegi einleikinn Carousel eftir kanadíska leikskáldið Jennifer Tremblay þar sem Maureen Beattie leikur konu sem rifjar upp ævi sína, móður sinnar og ömmu á leiðinni að dánarbeði móðurinnar. Maureen Beattie er minnisstæð úr kvikmyndinni Decoy Bride og var rosalega fín í hlutverkinu sem sannarlega er ekki auðvelt.

Í Traverse var líka sýnt eitt vinsælasta verk hátíðarinnar, Spoiling eftir John McCann. Vinsældirnar stöfuðu vissulega af því hvað stykkið er fyndið og vel leikið en ekki síður af því að það gerist eftir að Skotar hafa kosið að verða sjálfstæðir og fjallar um undirbúning undir fyrsta fund skoska og enska utanríkisráðherrans. Kosningar um það hvort Skotland skuli losa sig frá Bretlandi og verða sjálfstætt ríki verða eftir rétt rúman mánuð og mikil spenna í samfélaginu vegna þess. Skoski ráðherrann er Fiona (Gabriel Quigley), háólétt og meinlega fyndin, nýr aðstoðarmaður hennar er Norður-Írinn Henderson (Richard Clements) sem Fiona kallar lengi vel Anderson til að sýna honum fyrirlitningu sína en lærir að meta hann áður en lýkur og hann hana. Rosalega skemmtilegt verk en hefði mátt vera lengra. Mig langaði til að vita hvað gerðist eftir að því lauk!

Spoiling

Spoiling eftir John McCann í Traverse leikhúsinu

Bara einn viðburður á þessum fimmtudegi og líka einn á föstudegi, tónleikar Soweto Spiritual Singers, eitilhressra söngvara frá S-Afríku. En letina unnum við upp á laugardegi þegar viðburðirnir urðu þrír, tvær leiksýningar og einir einsöngstónleikar í Dómkirkju heilagrar Maríu. Morgunverkið var Comedy of Errors (Allt í misgripum) eftir Shakespeare sem Bristol Old Vic Theatre School sýndi á einu Underbelly-sviðinu fyrir sjö ára og eldri. Fáránlega dásamleg sýning á fáránlega furðulegu stykki um tvenna tvíbura eftir meistarann. Börnin í salnum skemmtu sér undir drep en það gerðu þeir fullorðnu (sem voru fleiri) sannarlega líka.

Síðustu tvær sýningarnar, á laugardagskvöldi og sunnudagsmorgni, voru á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni sem tekur við af Fringe-hátíðinni. Það var talsvert meira í þær lagt en sýningarnar fram að því enda sérstaklega pantaðar af stjórn hátíðarinnar og settar upp í sjálfu Festival-leikhúsinu. Þetta voru tvö af þremur verkum eftir skoska leikskáldið Ronu Munro sem öll fjalla um skoska 15. aldar konunga, Jakob I, Jakob II og Jakob III, konungana sem mótuðu skoska konungdæmið, og tilefnið greinilega kosningarnar sem í vændum eru því skírskotanir til samtímans eru fjölmargar.

Við byrjuðum á endinum, leikritinu um Jakob III, menningarlega sinnaðan, glaðlyndan alþýðuvin sem ekki er nógu hamingjusamur í embættinu. Á unglingsaldri kvænist hann 12 ára dóttur Kristjáns I af Danmörku, Margréti, sem verður mikið gæfuspor fyrir Skota (a.m.k. í túlkun leikskáldsins). Leikritið hefst þegar þau hafa eignast þrjá syni og Margréti er orðið ljóst að hún hefur ekki stjórn á manni sínum. Svo fer að hún tekur völdin (eftir glannalega flotta ræðu yfir þinginu) en hann hverfur af vettvangi. Þau Jamie Sives og Sofie Gråbøl léku konungshjónin af miklum sannfæringarkrafti, einkum var Sofie glæsileg og sönn í sínu hlutverki. Það var auðvitað auðveldast að skilja enskuna hennar, hinir voru margir voðalega skoskir, og sérstaklega gaman fyrir okkur var þegar hún bað guð að hjálpa sér á dönsku. Þá hlógu Íslendingarnir einir í salnum. Ég verð líka að nefna að Blythe Duff, sem við þekkjum öll í hlutverki lögreglukonunnar Jackie í Taggart-þáttunum, leikur stór hlutverk bæði í I og III og var greinilega eftirlæti áhorfenda.

Daginn eftir sáum við fyrsta konungaleikritið, Jakob I, með James McArdle í hlutverki konungsins. Hann var átján ár fangi Englandskonungs og á erfitt með að fá Skota til að játast undir vald sitt þegar hann kemst loksins norður. En það tekst – eftir hroðalegar blóðsúthellingar.

Leikritin eru vel skrifuð og upp byggð; þótt fjallað sé um alvarlega atburði er kímnin aldrei fjarri og þar sýndi Sofie Gråbøl ekki síst sína einstæðu hæfileika. Laurie Sansom stjórnar öllum þrem sýningunum og skilar ógleymanlegu verki. Festival Theatre er geysistórt, það er sviðið líka og var afar vel nýtt. Leikhópurinn tekur virkan þátt í sviðsskiptingum en mest áberandi á sviðinu er geysistórt sverð sem er rekið niður í sviðsgólfið hægra megin. Það er aldrei fjarlægt enda linnti ekki ofbeldi þó að konungar yrðu fastari í sessi.

Enn á ég eftir að sjá miðjuna, leikritið um Jakob II. Það verður vonandi, því líkur eru á að verkin gangi lengi, sennilega bæði í Edinborg og London því þau eru sett upp í samvinnu skosku og ensku þjóðleikhúsanna.

Silja Aðalsteinsdóttir