Leikritið Eitur eftir hollenska leikskáldið Lot Vekemans, sem nú er sýnt á litla sviði Borgarleikhússins í þjálli og hrynfagurri þýðingu Rögnu Sigurðardóttur, fjallar um ólíkar aðferðir til að vinna úr sorg eftir barnsmissi. Leikstjóri er Kristín Jóhannesdóttir og naumhyggjulega en afar viðeigandi leikmyndina gerir Börkur Jónsson.

EiturHún (Nína Dögg Filippusdóttir) og Hann (Hilmir Snær Guðnason) hafa fengið boð frá umsjónarmanni kirkjugarðsins þar sem leiði sonar þeirra er vegna þess að það eigi að færa gröfina og nú þurfi að halda fund um málið. Hann mætir svolítið fyrir tilsettan tíma, Hún kemur á réttum tíma en það verður bið á að umsjónarmaðurinn mæti á staðinn. Fljótlega kemur í ljós að þau hafa ekki sést í heil níu ár. Hann hafði ekki getað risið undir nístandi sorginni eftir að ekið var á ungan son þeirra, hafði pakkað niður á gamlárskvöld, gengið út og ekki látið í sér heyra síðan. Hún veit ekkert um líf hans og verður fá við þegar hún kemst að því að hann er kvæntur aftur og á von á barni. Hann hefur löngu hafið nýtt líf.

Hún hefur hins vegar lifað í sorg sinni og fyrir sorgina og þráir að ræða hana við manninn sem á hana með henni. Um þetta snýst samtal þeirra og það er vel hugsað og vel skrifað með sínum átökum, risi og lausn. Persónurnar eru nokkuð dæmigerðar fyrir kynin eins og þau eru gjarnan sýnd – hann lausnamiðaður (fór að syngja í karlakór til að hjálpa til við úrvinnslu á sorginni), hún einsömul á kafi í tilfinningum sínum. Félagi minn í leikhúsinu spurði hvort ekki hefði verið áhugaverðara að snúa dæminu við, hafa hana sterkari en hann, en það hefði sjálfsagt orðið álíka fyrirsjáanlegt þegar áhorfandinn áttaði sig á viðsnúningnum.

En það er ekkert fyrirsjáanlegt við leik þeirra Nínu Daggar og Hilmis Snæs, hann er heitur og innlifaður. Kristín Jóhannesdóttir hefur unnið einstaka nákvæmnisvinnu með leikurunum og hún skilar sér í áhrifamikilli sýningu. Hilmir sýnir okkur mann sem er svalur á yfirborðinu, traustur, maður sem vill hafa allt sitt á hreinu. Hann hefur komist yfir sárasta harminn með góðri vinnu í sjálfum sér (og væntanlega líka með hjálp nýju frönsku eiginkonunnar) en það þýðir ekki að hann hafi ekki syrgt sárt og hugsi ekki ennþá um drenginn sinn á hverjum einasta degi.

Eitur

Nína Dögg sýndi okkur djúpt inn í kviku þessarar konu sem á ekkert líf utan sorgarinnar. Það grípur köld hönd um hjarta mitt núna þegar ég sé hana fyrir mér á sviðinu í gærkvöldi, hún var svo nakin í kvöl sinni. Það er makalaust að fylgjast með tilfinningasveiflum hennar, úr hiki yfir í festu, úr veikri von yfir í ofsareiði, úr andköfum gráts yfir í stjórnlausan hlátur.

Garðar Borgþórsson gerir tónlist og hljóðmynd sem skipti miklu máli í framvindunni og skapaði talandi táknmyndina sem sýningin endar á. En einu sinni heyrðist tónlist sem persónurnar brugðust ekki við … var henni kannski ofaukið þá?

 

Silja Aðalsteinsdóttir