Krakkarnir í Stúdentaleikhúsinu rannsaka fordóma í íslensku samfélagi í leiksýningunni Yfir strikið eftir leikstjórann, Ólaf S. K. Þorvaldz, sem er sýnd í Kartöflugeymslunum handan Elliðaánna. Þátttakendur í sýningunni eru ellefu, sex stúlkur og fimm strákar, þau ganga undir sínum eigin nöfnum en taka að sér ýmis hlutverk, tala ýmist frá eigin brjósti eða þvert um hug sér, þó alls ekki sé alltaf hægt að vera viss um hvort er uppi hverju sinni.

Yfir strikið

Manneskja sem kemur ný á samfélagsmiðlana þessi misserin gengur inn í afar sérkennilegan og framandi heim þar sem furðulegasta orðræða veður uppi. Á dögunum tóku starfsmenn Kastljóss fyrir að reka ofan í fólk það sem það hafði skrifað á Facebook eða álíka miðla. Þá kom í ljós að einhverjir viðurkenndu alls ekki að hafa skrifað óþverrann sem hafði birst í þeirra nafni. Fólki ofbauð sem sagt það sem það hafði sjálft skrifað þegar það var lesið upp fyrir það í síma. Þetta segir ansi mikið um hve varasamt það er að geta á augabragði opinberað hug sinn fyrir alþjóð. Engin bið eftir birtingu, enginn prófarkalestur eða annar yfirlestur, bara „in your face“ og undir eins og stendur til efsta dags.

Í Yfir strikið tekur hópurinn fyrir marga algengustu fordómana – gegn femínistum (þær tala um píkuna á sér eins og hún sé manneskja, ein hafði kennt sinni að prjóna), gegn útlendingum (þeir taka vinnuna frá okkur og fyrirlíta konur) eða gegn rauðhærðu fólki (það er bara öðruvísi). Við fylgjumst með atvinnulausa rasistanum sem vill sko ekki vinna einhverja „útlendingavinnu“, þessir andskotans útlendingar geta bara unnið hana sjálfir! Við hittum fyrir hóp af klárum strákum sem safna kvenfólki, þeir taka myndir af hjásvæfum sínum og senda hver öðrum. Ég vissi hreinlega ekki hvar fordómar mínir myndu lenda í merkilegu atriði þar sem Hildur Ýr komst að því með því að skoða símann hans Jökuls eftir dráttinn að hún var áttunda stelpan sem hann hafði haft mök við þann dag. Víst var að „henni“ fannst ég eiga að dæma hann og það var vissulega freistandi en aðallega fannst mér samfélagsmyndin óhugnanleg sem atriðið opinberaði. Jakob hefur sem faðir þungar áhyggjur af því að múslimir flytjist til landsins en Andrés sló rækilega á þá fordóma með áhrifamikilli sögu eins úr þeirra hópi.

Að mörgu leyti fannst mér athyglisverðust atriðin sem sýndu hve órökrétt fordómafull viðbrögð eru og hve óhugnanlega fljót við erum að stimpla aðra. Þegar Hildur Ýr gagnrýnir Andrés (sem segist vera pólskur í aðra ættina) fyrir að vera lélegur að ríma (hann rímaði maís á móti Gylfa Ægis og hélt því fram að ekkert rímaði við ægis nema maís) er undireins ákveðið að hún hafi eitthvað á móti fólki frá Austur-Evrópu – alveg sama hvernig hún reynir að beina talinu aftur að rím-íþróttinni! Og eins þegar Hekla gagnrýnir tónlist mæðgna frá Húsavík og fær á sig þann dóm að hún hati konur! Einmitt svona jöðrum við manneskjur, ákveðum að þær séu svona og svona án almennilegrar skoðunar.

Þetta er bæði áheyrileg og ásjáleg rannsókn og allrar athygli verð. Þó að hún fari einstaka sinnum yfir strikið er hún yfirleitt nokkuð fyrirsjáanleg. Höfundur reynist í flestum tilvikum hafa skoðanir sem við getum væntanlega flest fallist á, og vill öllum vel. Stöku sinnum vekur hann þó máls á efnum sem kunna að koma á óvart og leiða til umhugsunar. Ekki reyndi mikið á leikhæfileika þátttakenda en þau hreyfa sig á sviðinu eins og þau eigi heima þar og öll sungu þau vel og röppuðu við lipran og lifandi undirleik Halldórs. Engin föðurnöfn eru gefin upp í leikskrá þó að mótmælt sé fordæmingu á „feðraveldi“, ef við erum á móti því að karlar ráði eigum við að nota orðið „karlveldi“. Það er ágæt ábending eins og margar aðrar í sýningunni.

Silja Aðalsteinsdóttir