Svarti Galdur á ÍslandiGeir Konráð Theodórsson skemmtir sér þessar vikurnar við að segja gestum á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi sögur af svarta galdri á Íslandi. Þeir eru þrír feðgarnir sem standa að sýningunni því Theodór Kristinn Þórðarson, faðir Geirs, leikstýrir honum og bróðirinn Eiríkur Þór sér um uppsetninguna.

Uppsetningin er afar einföld eins og jafnan á þessu leiksviði. Trjádrumbar til að setjast á eða klífa upp á öðrum megin á loftinu, hinum megin stílfærð níðstöng sem kom ekki við sögu. Sjálfur er Geir búinn eins og útilegumaður að ofan í mussu og með herðaskinn en að neðan eins og útigangsmaður í víðum buxum og berfættur.

Geir Konráð byrjar sögu sína í útlöndum, í skólanum sem Kölski rak og lét nemendur læra svartagaldur af bókinni Gráskinnu sem var skrifuð á mannshúð. Skólinn hafði gengið ágætlega öldum saman þegar Íslendingurinn Sæmundur, seinna kallaður fróði, gerði Kölska ljótan grikk sem hann var lengi að jafna sig á. Geir lætur Sæmund komast til Íslands með Gráskinnu og rekur síðan sögu hennar gegnum nokkra liði þar sem við sögu koma meðal annarra Sturlungaaldarhöfðinginn Kolbeinn ungi og Flóabardagi, Gottskálk grimmi, Galdra-Loftur skólapiltur á Hólum og Eiríkur hellismaður. Tengingar milli þessara persóna og atriða eru að miklu leyti skáldskapur höfundar.

Geir togar og teygir söguefni sitt eins og honum sýnist. Sum efnisatriði lætur hann ónotuð sem skaði var að missa, einkum sú snjalla aðferð Sæmundar til að sleppa úr Svartaskóla að blekkja Kölska til að hrifsa skugga sinn. Það gengur ekki alveg upp heldur að láta Sæmund sökkva Kölska í sjó með því að slá hann með galdrabók. Í þjóðsögunni lýstur hann Kölska með kristilegri bók, Grallaranum. Á tímabili sá ég svolítið eftir því að hafa lokkað sagnfræðinginn og Sturlungusérfræðinginn sem ég bý með á sýninguna með mér, en hann bar sig bara vel. Geir hefur skemmtilegan og frísklegan stíl, góða rödd og hressilegan hlátur en hann verður dálítið einhæfur í hreyfingum og framsögn þegar á líður. Sýningin mun vera upphaflega skrifuð fyrir erlenda ferðamenn og á íslensku hentar hún líklega best stálpuðum krökkum en söguefnið var nógu fjölbreytt til þess að það var engin leið að láta sér leiðast.

Silja Aðalsteinsdóttir