Í iðrum menntaskólahússins við Hamrahlíð hefur Karl Ágúst Þorbergsson leikstjóri sett upp sérstæða og áhrifamikla sýningu sem unnin er upp úr framtíðarskáldsögu Georgs Orwell, 1984. Handritið samdi Karl Ágúst ásamt Adolf Smára Unnarssyni aðstoðarleikstjóra og stórum hópi nemenda við skólann, leikurum, hljómsveitarmeðlimum og öðrum þátttakendum í sýningunni.

1984 LFMHHandritið varð til á löngum tíma gegnum spuna út frá þemum úr bókinni og þetta er ekki handrit sem er meitlað í stein. Leikararnir láta sig ekki muna um að spinna inn í það atriði beint úr blæðandi samtíma okkar; til dæmis léku þau sér með splunkunýjar tilvitnanir í forsætisráðherra á sýningunni sem ég sá í gærkvöldi. Atriðinu var skotið inn í þátt framarlega þar sem verið var að fjalla um nýmál, endurritun sögunnar og aðra vitsmunastarfsemi í ríki Stóra bróður, það var firna skemmtilegt og sterkt auk þess sem það átti vel við. Fleiri óvæntar íslenskar tengingar voru í sýningunni, til dæmis tókst ráðuneytisstarfsmanninum Ampleforth (Steinunn) ekki að útrýma orðinu Guð úr endurskoðaðri endurútgáfu á Hallgrími Péturssyni – hún fann bara ekki annað nothæft orð sem rímaði á móti „puð“ enda ekki mörg slík í málinu!

Sýningarsvæðið er stór salur í kjallara sem hægt er að stúka niður með gegnsæjum hvítum tjöldum þegar þarf að þrengja að sviðinu. Þannig urðu „herbergin“ eða leiksvæðin eins mörg og verkast vildi. Áhorfendur sátu á skrifstofustólum með hjólum og eins og vel fer á í þessu verki var stöðugt verið að ráðskast með okkur og við rúlluðum stólunum hlýðin fram og aftur um rýmið samkvæmt skipunum ofurhressra gulklæddra ungliða í framtíðarlandinu. Þau fóru líka í leiki með okkur inn á milli til að koma að dálitlum heilaþvotti. Það voru frumleg og vel heppnuð inngrip.

Aðalpersóna 1984 er ungur maður, Winston Smith (Hinrik), sem vinnur í sannleiksráðuneytinu við að endurskrifa söguna. Hann fær smám saman áhuga á að sjá í gegnum endurskrifin og rifja upp hvað gerðist í raun og veru en jafnvel hans eigin minningar úr bernsku og æsku eru orðnar þokukenndar og ruglingslegar af öllum endurteknu lygunum. Hann fer að hata „flokkinn“ og alvaldið „Stóra bróður“ en það er að sjálfsögðu óleyfilegt og á hverri stundu á hann von á því að hugsanalögreglan taki hann fastan. Honum er meinilla við stúlkuna Júlíu (Margrét) sem er byltingarsinni „neðan mittis“ því hún er dugleg að sofa hjá flokksdindlum. En þegar hún kemur til Winstons skriflegri ástarjátningu tekur hann upp samband við hana, hann kemst að því að hún er ekki eins flokksholl og hann hélt og þau verða elskendur. Þau fá leigt herbergi í öreigahverfi fyrir ofan antíkverslun og treysta því að eigandi búðarinnar (Annalísa) sé þeim vinveitt. Svo hefur hátt settur flokksfélagi, O‘Brien (Tryggvi), samband við Winston og býður honum að ganga til liðs við Bræðralagið sem vinni gegn Stóra bróður og um hríð halda Winston og Júlía að þau séu þátttakendur í byltingu gegn stjórnvöldum sem eigi að skapa betri veröld. En það reynist blekking eins og annað.

Sýningin var fjörug og fyndin framan af, þótt undirtónninn sé myrkur, en verður æ þyngri og átakanlegri þegar líður á og Winston og Júlía og fleiri andófsmenn eru handteknir og pyntaðir. Pyntingarnar voru óhugnanlega vel útfærðar og þá reyndi heldur betur á leikarana sem stóðust raunina með aðdáunarverðri prýði. Sýningin var skínandi vel leikin og sérstaka athygli vakti góð framsögn enda skiptir miklu máli að þessi texti komist vel til skila. Hinrik var fremstur meðal jafningja í hlutverki Winstons en öll hlutverk, stór og smá, voru vel mönnuð. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir vil ég nefna Lárus í hlutverki hins barnalega Parsons, sem verður fyrir því að dóttir hans klagar hann fyrir hugsanalögreglunni, Victoriu sem lék flokkseiginkonu Winstons, Katrínu, og Hákon í hlutverki Sæm sem var duglegastur í nýmálinu en er að lokum „eytt“ af því hann er of snjall.

1984 er óhugnanlega nákvæm og meistaralega gerð lýsing á einræðisríki sem þarf að rifja upp með reglulegu millibili – af því að allir „sterkir leiðtogar“ eiga á hættu að verða „Stóri bróðir“. Það er með ólíkindum hvað þessum hópi menntaskólanema hefur tekist að gera æpandi flotta sýningu úr þessu brýna efni. Þetta er athyglisverðasta leiksýningin á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir og ég hvet alla pólitíska áhugamenn, leikhúsáhugamenn og leikhúsmenn til að sjá hana.

Silja Aðalsteinsdóttir