Skattsvik Development Group

Það fór fram merkileg kennslustund í salnum á þriðju hæð Borgarleikhússins í gærkvöldi. Þar freistuðu félagarnir fimm í leikhópnum Ást og karókí þess að kenna áhorfendum að svíkja undan skatti með því að koma peningunum sínum fyrir í skattaskjóli. Afleitt efni í leiksýningu? Annað kom á daginn!

Sýningin Skattsvik Development Group hefst á símtali um óþægilega háa skattaprósentu á Íslandi. Síðan stíga piltarnir fimm, Adolf Smári Unnarsson, Birnir Jón Sigurðsson, Friðrik Margrétar- Guðmundsson, Matthías Tryggvi Haraldsson og Stefán Ingvar Vigfússon, fram hver af öðrum, kynna sig og lýsa því hvað þeir séu ömurlegir fjáraflamenn og botni lítið í peningum. Birnir Jón játar þó að hann sé býsna fær í excel og það sýnir hann líka í ógleymanlegu lokaatriði sem var hápunktur sýningarinnar og hitaði manni alls óvænt um hjartað.

Já, þeir eru sem sagt aular í fjármálum en nú hafa þeir fengið dálitla fjárhæð fyrir að gera leiksýningu í Borgarleikhúsinu og þá langar að sjá aurana sína margfaldast í stað þess að horfa á eftir þeim í skattinn. Þeir komast fljótlega að því að til eru fyrirtæki úti í heimi sem einbeita sér að því að hjálpa fólki að skjóta undan fé sínu og starfsmenn þar vilja allt fyrir þá gera. Þetta er firna kurteist fólk eins og við fáum að heyra í samtölum og samtalsbrotum félagana fimm við það.

Málið er að finna land sem hefur tvísköttunarsamning bæði við Ísland og land þar sem skattaprósentan er nálægt núlli, flytja peningana héðan og þangað með viðkomu í millilandinu, láta svo gefa út greiðslukort á nöfn allra hluthafa þannig að þeir geti eytt peningum hér á landi. Virðist einfalt en lengi rekast þeir félagar á veggi einhvers staðar á leiðinni. Loks ná þeir fundi á skype við bankamann í millilandinu Írlandi og við fáum að fylgjast með þeim fundi. Adolf Smári og Matthías Tryggvi sitja í sparifötunum við borð og leika stórlaxa, bæði uppi á vegg í upptökunni og niðri á gólfinu hjá okkur, en þótt þeir séu öruggir með sig og stærilátir á upptökunni bregðast þeir í holdinu við á mun margvíslegri hátt okkur til skemmtunar en líka skilningsauka. Þetta atriði var langt og ég játa fúslega að ég datt út smástund enda ekki sérlega snokin fyrir umræðum um peninga, hvað þá skattsvik. En það var partur af prógramminu að birta fundinn óstyttan, annað hefði verið svindl.

Skattsvik Development Group

Skattsvik Development Group / Mynd: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Síðasta verk Ástar og karókí sem ég sá var Sýning um glímu og Slazenger og þó að Skattsvik Development Group sé mun vandaðra verk og skemmtilegri heild eru bæði verk byggð upp á svipaðan hátt og hugsuð þannig að allir þátttakendur fái jafnan hlut. Þetta kemur býsna vel út, ekki síst vegna þess hvað strákarnir eru ólíkir innbyrðis. En ástin sameinar þá – og karókíið!

 

Silja Aðalsteinsdóttir