Nokkur augnablik um nóttÞað hafa heldur betur orðið umskipti á Kassa Þjóðleikhússins. Þar hafa veggir verið fjarlægðir í anddyri og rýmið opnað þannig að maður trúði varla sínum eigin augum. Ekki spillir skemmtileg notkun rimla úr Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar eins og þetta hús hét á sinni tíð. Það fór því einkar vel á því að fyrsta frumsýning eftir endurnýjun skyldi nýta sér þetta nýja anddyri sérstaklega, en sýningin á verkinu Nokkur augnablik um nótt eftir Adolf Smára Unnarsson hefst frammi í anddyri. Þar erum við stödd á framboðsfundi Ragnhildar (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) sem heldur yfir okkur þrumu-kosningaræðu. Leikurinn er svo endurtekinn með tilbrigðum í hléi. Þetta var ansi hreint smart!

Þegar inn á sviðið sjálft kom varð allt kunnuglegra en hugmyndaauðgi, frískleiki og leikur að því óvænta einkenndu þó sýninguna áfram – eins og von er til þegar leikstjórinn er Ólafur Egill Egilsson.

Ragnhildur og maður hennar, fjárfestirinn Magnús (Björn Thors) eru stödd í glæsilegum sumarbústað sínum (gjöf frá pabba hans) og eiga von á gestum í kvöldmat og gistingu, Björk litlu systur Ragnhildar (Ebba Katrín Finnsdóttir) og kærasta hennar  Óskari (Hilmar Guðjónsson) sem þau hafa ekki hitt áður. Yngra parið mætir seint í matinn og undir eins kemur í ljós að mikil spenna er milli systranna sem sjást sjaldan. Björk hefur ekki áhuga á framboðsmálum stóru systur og Ragnhildur hefur ekki áhuga á tónlistarferli litlu systur. Þær eiga ekkert sameiginlegt nema æskuheimilið og síst fylgir ánægja því að rifja upp minningar þaðan.

Nokkur augnablik um nótt

Spennan milli karlmannanna tveggja er óræðari lengi vel en byggist upp smám saman alveg snilldarlega. Þeir eru eins og dagur og nótt, Magnús og Óskar – annar fæddur með silfurskeið i munni, þar að auki fyrrum fótboltahetja og nú auðugur og vel látinn fjárfestir, hinn lánleysingi úr Hólunum sem finnst best af öllu að sitja yfir bjór og fótbolta með félögum sínum. Persónurnar hafa allar sama vægi í verkinu, þær verða skýrar í textanum, samtölin eru um listir, pólitík, fótbolta, peninga, hamingju, barneignir og trú og þau eru vel skrifuð, hröð, hnyttin, iðulega fyndin en aðallega afhjúpandi. Smám saman verður vistin í þessum sumarbústað alveg óbærileg …

Nokkur augnablik um nótt er vel gert leikrit, eins og sagt er. Fyrir utan frávikin í anddyrinu gerist það í samfelldum tíma, byggir upp spennu sem er fylgt vel eftir uns losnar úr henni í hápunkti verksins. Allt umhverfið hjálpaði til; svið Hildar Evlalíu Unnarsdóttur gaf berlega til kynna hve flottur bústaðurinn var og hönnunin á bátnum sem karlarnir skemmta sér á var sniðug. Myndbönd Ástu Jónínu Arnardóttur fylltu upp í tímann sem líður í verkinu með því að sýna okkur atferli persónanna milli atriðanna með þeim; þau virtust í fyrstu ætla að verða of frek á athygli en náðu smám saman samræmi við textann og urðu að lokum geysilega áhrifamikil. Búningar Arturs Zorģis eru afar vel hugsaðir; lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar var markviss og tónlist og hljóðmynd Arons Þórs Arnarssonar skipti sköpum á vissum augnablikum í sýningunni.

Mestu varðar þó hvað leikurinn var góður. Hér var hver maður á réttum stað. Kamelljónið Björn Thors sýnir afar vel ytri og innri mann Magnúsar sem trúir því að ímyndin sé veruleikinn – að maður eigi bara að skapa sjálfan sig eins og maður vilji vera, það sé nóg. En við erum líka háð öðru fólki og hann hefur valið eiginkonuna í samræmi við ímyndina. En hvað ef hún er ekki öll þar sem hún er séð? Vigdís Hrefna túlkaði af einstakri færni konu sem virðist á yfirborðinu vera gegnheil en er í rauninni margbrotin og skemmd hið innra. Mikið mæddi á Ebbu Katrínu í hlutverki Bjarkar sem er svo reið, bitur og sár að hana langar mest til að hverfa – eyða sér; svipbrigði, rödd og hreyfingar leikkonunnar opinberuðu persónuna fullkomlega.

Herra X, aðskotadýrið, er svo Óskar sem Hilmar Guðjónsson gaf líf og lit og vakti bæði forvitni og spennu: upp á hverju mun hann taka í þessum „óvinahópi“? Svo verður áleitnari spurningin hvor gefur meira af sér, fjárfestirinn úr Vesturbænum eða strákurinn úr Hólunum sem finnst nóg að njóta lífsins með fólkinu sem lætur honum líða vel.

Adolf Smári hefur gefið út tvær skáldsögur og fékk mikið hrós fyrir leikstjórn og líbrettó óperunnar Ekkert er sorglegra en manneskjan í Tjarnarbíó fyrir tveim árum. Það var því ástæða til þess að vænta góðs af Nokkrum augnablikum um nótt en verkið og sýningin fóru umtalsvert fram úr þeim væntingum. Innilegar hamingjuóskir, Adolf Smári, Ólafur Egill og allir aðrir aðstandendur.

 

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir