Gömlu ævintýrin hafa lengi verið drjúg uppspretta barnaefnis, það veit Guðjón Davíð Karlsson (Gói) og nýtir sér vel í nýju barnaleikriti með söngvum, Fjarskalandi, sem var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í dag. Vignir Snær Vigfússon semur lögin við texta Góa, Finnur Arnar Arnarson skapar undurfallegt ævintýraland á sviðinu, Lára Stefánsdóttir semur dansa og Selma Björnsdóttir stýrir öllu saman.

Fjarskaland

Þegar Þorvaldur Þorsteinsson skrifaði Skilaboðaskjóðuna lét hann hana gerast í ævintýraskóginum „þar sem öll ævintýrin eru alltaf að gerast“ eins og við munum. Síðan eru liðin mörg ár og nú er svo komið, segir Gói, að ævintýralandið er að deyja af því að mannfólkið er hætt að hirða um gömlu ævintýrin. Hver ævintýrapersónan á fætur annarri verður gleymskunni að bráð og stór hætta á því að sjálft Fjarskaland hverfi. Þetta ergir skapmiklar ævintýrapersónur sem ekki sætta sig við að hverfa og þegar verkið hefst hefur úlfurinn í Rauðhettu (Þröstur Leó Gunnarsson) rænt ömmu úr mannheimi (Ragnheiður Steindórsdóttir) til að halda lífinu í sinni sögu. Hann er ákveðinn í því að sagan um Rauðhettu skuli lifa þó að öll önnur ævintýri gleymist!

Sú sem úlfurinn rændi er amma hennar Dóru og þegar fjölskyldan kemur í heimsókn til hennar upp í sveit þá er engin amma þar. Þau eru varla orðin verulega áhyggjufull þegar til Dóru (Snæfríður Ingvarsdóttir) kemur undarlegur náungi, Númenór (Hallgrímur Ólafsson), verndari ímyndunaraflsins, og segir henni að amma hennar sé í mikilli hættu. Enginn geti bjargað henni nema Dóra af því að Dóra er svo vel lesin í gömlum ævintýrum. Þau leggja af stað í langt og strangt ferðalag gegnum Fjarskaland þar sem Dóra þarf að bregða sér í gervi ýmissa ævintýrapersóna og kippa þeim þar með aftur inn í almenna minnið. Fyrst leikur hún Grétu og berst hetjulega við illu nornina (Oddur Júlíusson) til að bjarga Hans bróður sínum (Sigurður Þór Óskarsson), svo reynir hún að komast hjá því að bíta í eplið hjá stjúpu Mjallhvítar (Edda Arnljótsdóttir – sem líka leikur mömmu Dóru) en lætur undan og fellur í dauðadá, dvergunum fimm – því tveir eru „horfnir“ – til djúprar sorgar. Úlfsófétið hefur fangað prinsinn (Oddur Júlíusson) svo að um hríð lítur út fyrir að Dóra deyi í alvöru í kistu Mjallhvítar en því er bjargað á seinustu stundu. Loks kemst Dóra til húss ömmu í skóginum en þegar hún ætlar að bjarga ömmu sinni þaðan reynist úlfurinn búinn að éta hana og gleypir síðan Dóru eins og hvern annan eftirrétt … Skurðaðgerðin til að bjarga þeim var einn af hápunktum sýningarinnar.

Fyrir utan þessar aðalsögur er minnt lauslega á ótalmargar í viðbót með svipmyndum og auðþekkjanlegum persónum á flandri um skóginn. Þar mátti meðal annarra sjá Dimmalimm og Garðabrúðu (Ísabella Rós Þorsteinsdóttir), Dóróteu úr Galdrakarlinum í Oz (Kolbrún María Másdóttir), stígvélaða köttinn (Edda Arnljótsdóttir), Gandálf (Baldur Trausti Hreinsson), Dísu ljósálf (Selma Rún Rúnarsdóttir), Lilla klifurmús (Sigurður Þór), tindátann og ballerínuna (Hólmgeir Gauti Agnarsson, Bjartey Elín Hauksdóttir) og Gilitrutt sem Gunnar Jónsson lék mynduglega. Loksins varð sú kerla sannfærandi á sviði!

Þarna er líf og fjör eins og sjá má af þessari hröðu yfirferð enda er þetta næstum tveggja tíma sýning og aldrei slakað á. Hljómsveitin spilar í stúkunum báðum megin við sviðið og átti það til að yfirgnæfa söngtextana þar sem ég sat en mér heyrðist það ekki gera mikið til svona efnislega. Talaður texti var hugmyndaríkur og oft bráðfyndinn. Snæfríður og Hallgrímur voru röggsöm og sjarmerandi í aðalhlutverkunum og brugðið var á leik með sum hlutverkin, til dæmis gaf Þröstur Leó úlfinum allsérstæðan talanda og prinsinn hans Odds reyndist óvænt vera ítalskur! Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru margir ævintýralega fallegir og sviðið hans Finns Arnars var fjölskrúðugt og nýttist afar vel í óteljandi króka og kima ævintýraskógarins. Það var raunar sviðið sem átta ára félagi minn varð hrifnastur af.

Ég deili ekki ótta Góa um að gömlu ævintýrin séu í hættu að gleymast, enda er ég nýlega búin að taka ár af lífi mínu í nýja þýðingu á úrvali Grimms-ævintýra. Það var eitthvert skemmtilegasta þýðingarstarf sem ég hef unnið – enda segir Gói: Í Fjarskalandi er allt sem okkur dreymir um og allt sem okkur langar í.

Silja Aðalsteinsdóttir