FeigðEf það er til eitt íslenskt skáldverk sem ég hefði fullyrt að ekki væri nokkur leið að skopstæla þá er það Svartfugl Gunnars Gunnarssonar. Þetta gera þó Hugleikarar núna í nýju leikverki eftir Ljóta hálfvitann Ármann Guðmundsson, Feigð, sem sýnt er í Kartöflugeymslunum ofan við Elliðaár. Ármann leikstýrir líka.

Í Skollakoti býr nirfillinn Greipur bóndi (Flosi Þorgeirsson) með fyrrum niðursetningnum Sesselju (María Björt Ármannsdóttir) sem nú er orðin kona hans. Ef hann hefði ekki gifst henni hefði hann orðið að fara að borga henni kaup og því tímir hann ekki. Ekki spillir heldur að Sesselja er undurfríð, eitthvað annað en nornin Steinvör (Sigríður Bára Steinþórsdóttir) sem Lýður bróðir hans (Ármann Snær Erlingsson) er giftur. Græðgi Greips leiðir hann til þess að leigja hluta af jörðinni og hjónin Þiðrik (Ingvar Örn Arngeirsson) og Dómhildur (Elín Lilja Jónasdóttir) flytja inn í bæinn til þeirra. Fljótlega verður Dómhildur viss um að eitthvað sé á seyði milli Sesselju og Þiðriks og hún reynist býsna nösk því um svipað leyti átta þau sig sjálf á því að þau laðast háskalega hvort að öðru. Maður sýnir því skilning því bæði eru þau ung og fríð en makarnir óttalegir durgar, Dómhildur skapill og nöldursöm og Greipur dæmalaus sóði sem elskar ekkert nema peningana sína. Elskendunum finnst nú ekkert standa í vegi fyrir eilífri hamingju annað en hinir óverðugu makar og þá er ekki annað í stöðunni en koma þeim fyrir kattarnef. Það dregur síðan óvæntan slóða á eftir sér sem endar á enn óvæntari hátt.

Ármann veit alveg nákvæmlega hvernig Hugleikrit á að vera og hvernig á að leika það. Textinn er meitlaður og smellinn, söngtextarnir hnyttnir, lögin skemmtileg – allt eins og prýðir bestu Hugleikssýningar. Framvindan í verkinu er jafnvel gróteskari en venjulega og það smitar út í leikinn sem er dásamlega ýktur. Annars vegar tjáðu þau geðillsku persóna sinna á stórkarlalegan hátt þau Flosi, Sigríður Bára, Elín Lilja og Ármann Snær, hins vegar voru María Björt og Ingvar Örn hinir blíðu og fríðu sakleysingjar. Og þarna á milli voru svo skoplegu persónurnar hreppstjórinn og presturinn sem Steinþór Jasonarson og Sigurður Björn Rúnarsson léku af list og gleði. Ein persóna er enn í verkinu, niðursetningur sem leikinn er af tveim stúlkum til skiptis og ég veit ekki hvort það var Ester Lind Gunnarsdóttir eða Sigrún Ýr Halldórsdóttir sem var á sviðinu í gærkvöldi en hún túlkaði þessa loftkenndu skuggaveru óaðfinnanlega.

Á sviðinu var líka hljómsveit sem einnig lék almenning í sveitinni og almannaróm. Þar var saman kominn hópur haltra, skakkra og blindra svo að aldrei hefur sést annað eins band og jók mjög á kætina. Í hljómsveitinni voru þau Ninna Karla Katrínardóttir, Loftur S. Loftsson, Ásta Elínardóttir, Björgúlfur Egill Pálsson og Halldór Sveinsson og léku ýmist á venjuleg hljóðfæri eða óvenjuleg.

Eins og Ármann segir í leikskrá er Feigð baðstofuleikur og kallast því á við leikritin sem Hugleikur varð fyrst þekktur fyrir. Eins og þá var gert dregur Feigð upp skopmynd af andúð okkar nútímafólks á upphafningu á gömlu sveitamenningunni. En nú hefur harka færst í leikinn í takt við nýja tíma, sakleysið „er á bak og burt og við blasir miskunnarlaus, kaldhæðinn og harður heimur“. Ekki er þó síður ástæða til að sjá Feigð fyrir því.

PS Ég hef sannfrétt að það var Sigrún Ýr sem fór með hlutverk Arnleifar niðursetnings í gærkvöldi og endurtek: Hún vann það á afar sannfærandi hátt.

Silja Aðalsteinsdóttir