Þú ert hér://Dagleiðin langa inn í hrun

Dagleiðin langa inn í hrun

Jónsmessunóttin sem nýtt leikrit Hávars Sigurjónssonar tekur heiti sitt af er raunar aldrei nefnd beinlínis í verkinu svo ég tæki eftir á frumsýningunni í kvöld. En á Jónsmessunótt fara alls kyns vættir á kreik, að minnsta kosti hjá Shakespeare, og vel gæti Hávar verið að vísa í það með titlinum. Alltént er enginn hörgull á djöflum og gömlum draugum sem lifna í samskiptum fólksins sem tekst á á sviðinu.

JónsmessunóttJónsmessunótt er sýnd í Kassa Þjóðleikhússins og þar hefur Finnur Arnar Arnarson leikmyndahönnuður skapað listaverk sem minnir lítt á sumarbústaðinn þar sem fjölskyldan hefur safnast saman en útfærir á táknrænan hátt stöðuna sem hún er í. Nettir mjóir pallar mynda hringi og sveigi sem minna á hvernig allt gengur í hringi og endurtekur sig og engin leið er út. Það verður vægast sagt óhugnanleg tilhugsun þegar á líður að samtölin og atvikin sem gerast í verkinu eigi eftir að endurtaka sig en engu að síður er það býsna sennilegt. Líklega ad nauseam.

Við erum sem sagt stödd í sumarbústað þar sem Kristján (Arnar Jónsson) og Stefanía (Kristbjörg Kjeld) halda upp á gullbrúðkaup sitt. Hjá þeim um helgina eru synirnir tveir, leikarinn Friðrik (Þorsteinn Bachmann) og Gunnar fasteignasali (Atli Rafn Sigurðarson), kona Friðriks, kennarinn Guðný (Edda Arnljótsdóttir), splunkuný kærasta Gunnars, þerapistinn Aðalbjörg (Maríanna Clara Lúthersdóttir) og dóttir Gunnars af fyrra sambandi (einu af fjölmörgum), rithöfundurinn Sigga (Þórunn Arna Kristjánsdóttir).

Kristján er stoltur og glaður fjölskyldufaðir og heldur ræðu í upphafi leiks þar sem hann rifjar upp fyrstu kynni þeirra Stefaníu fyrir rúmum fimmtíu árum þegar hún uppvartaði í Fornahvammi í Norðurárdal og hann var í hópi stúdenta á ferðalagi og heillaðist svo af þessari fallegu stúlku að vestan að hann sór að eignast hana en enga ella. Þetta er falleg ástarsaga en gallinn sá að Stefanía kannast ekki við hana og liggur ekki á þeirri vitneskju. Smám saman koma brotalamirnar betur og betur í ljós, bæði á sambandi hjónanna innbyrðis og bræðranna, sambandi feðgina, sambýlisfólks og mágafólks.

Þetta er vissulega kunnuglegt efni. Við erum meira að segja nýlega búin að horfa – á þessu sama sviði – á Dagleiðina löngu eftir Eugene O’Neill með sterkum föður, óánægðri móður og tveimur sonum. Enda kemur í ljós þegar á líður að Hávar er að spila með þennan arf, leika sér að honum og fer að lokum með hann inn í nýlegan íslenskan veruleika. Honum tekst þetta skínandi vel. Textinn er afar vel skrifaður, þéttur, markviss og fyndinn, og framvindan vel hugsuð.

Harpa Arnardóttir fékk það öfundsverða hlutverk að stýra flottum hópi leikara í frumuppfærslu Jónsmessunætur og láta sýninguna ramba á mörkum raunsæis og fáránleika, í frábæru samspili við leikmyndina. Allar persónurnar opinberuðu smám saman tvöfalt eðli sitt. Arnari Jónssyni tókst að koma alveg á óvart með afhjúpun sinni á Kristjáni fyrrverandi ritstjóra. Kristbjörg Kjeld átti auðvelt með konuna sem reyndist hafa feikað bæði hjónabandssælu og fáfræði í áratugi. Edda Arnljótsdóttir var í senn fyndin, grimm og aumkunarverð í hlutverki vonsvikinnar eiginkonu og ástkonu. Þorsteinn og Atli Rafn voru sannfærandi í hlutverkum brotinna karlmanna sem verða aftur eins og tíu ára strákar að metast í stjórnlausri samkeppni heima hjá pabba og mömmu. Sigga litla var – þegar að var gáð – ekki sá ljósgeisli sem barnabörn eiga að vera og Þórunn Arna fór óþægilega létt með að sýna það. Maríanna Clara fékk það skemmtilega og þakkláta hlutverk að vera nýliðinn í fjölskyldunni, sú sem ekkert veit um þetta fólk en kemur með opin augu og huga og munninn fullan af sálfræðiklisjum og létti hvað eftir annað á stemningunni. Hörkulið – og verk sem gott er að sjá. Ekki síst til að átta sig á hvað manns eigin fjölskylda er nú blessunarlega fúnksjónal!

Silja Aðalsteinsdóttir

2019-06-19T11:35:10+00:0012. október 2012|