Það er engu logið á uppsetningu Íslensku óperunnar á Il trovatore Verdis í Eldborgarsal Hörpu. Hljómsveitin leikur skínandi vel undir stjórn Carol I. Crawford, einsöngvararnir syngja hver öðrum betur og kórinn er flottur undir stjórn Halldórs E. Laxness. En eiginlega fannst mér sviðið hans Gretars Reynissonar stela senunni hvað eftir annað í göldróttri lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar. Einkum varð þetta áleitið í lokin þegar maður átti að harma örlög allra aðalpersónanna, bæði þeirra sem létu lífið og þeirrar sem eftir var, en gleymdi sér við að góna á skuggana sem hinir miklu flekar sviðsmyndarinnar vörpuðu á allan salinn – eins og verið væri að loka okkur niðri í gröf …

Il trovatoreSagan í verkinu minnir pínulítið á Bláskjá sem var mikil eftirlætisbók mín sem barns. Sígaunakona er talin hafa hneppt greifason í álög og þegar hún er dæmd á bálið fyrir vikið rænir dóttir hennar Azucena (Alina Dubik) drengnum. Og þegar sú gamla er brunnin til ösku finnast líka ummerki um barnslík í öskunni. Allir halda að þar hafi greifasonurinn brunnið með norninni en það var í rauninni sonur Azucenu sem brann en greifasonurinn hefur alist upp sem sonur hennar, trúbadúrinn Manrico (Jóhann Friðgeir Valdimarsson). Þessir atburðir eru löngu liðnir þegar óperan hefst en Ferrandi liðsforingi (Viðar Gunnarsson) segir liðsmönnum sínum og lagsmeyjum þeirra þessa sögu í byrjun verksins meðan þeir bíða eftir Luna greifa (Anooshah Golesorkhi), yfirmanni sínum. Luna er bróðir drengsins sem rænt var forðum og hefur auðvitað ekki hugmynd um að sá Manrico sem keppir við hann um hylli hirðmeyjarinnar Leonoru (Hulda Björk Garðarsdóttir) er í rauninni enginn sígaunavesalingur heldur albróðir hans.

Leonora elskar bara Manrico og lítur ekki við greifanum sem verður sífellt heiftúðugri út í parið, hún vill frekar ganga í klaustur en verða kona hans. Greifinn bregst því feginn við þegar menn hans ná Azucenu á sitt vald og þekkja í henni dóttur nornarinnar. Hann dæmir dótturina á bálið og þegar Manrico fréttir það yfirgefur hann samstundis sína heittelskuðu, stundu fyrir hjónavígsluna, til að reyna að bjarga móður sinni. Leonora lofast greifanum til að bjarga lífi Manricos en tekur inn eitur til að þurfa ekki að standa við loforð sitt. Þegar greifinn kemst að því skýtur hann Manrico í bræði. “Hann var bróðir þinn,” segir Azucena þá, af þórðargleði, og finnst nú loksins að móður hennar sé að fullu hefnt.

Það er auðséð á þessari stuttaralegu endursögn að við erum stödd í all-fjarlægri fortíð og það er alveg áreiðanlega röng ákvörðun að setja hana upp eins og sagan gerist á okkar tímum. En það er líka fáránlegt að ergja sig svo yfir nútímalegum búningum og hríðskotabyssum að það skyggi á þá fögru list sem framin er á sviðinu. Mér þótti leiðinlegra hvað Jóhann Friðgeir átti erfitt með að sýna í leik hvað Manrico er yfir sig ástfanginn af Leonoru – og það þó að Hulda Björk fyrir sitt leyti túlkaði vel með öllu fasi sínu ástríðufullar tilfinningar Leonoru til hans. Jóhann söng samt verulega vel og kraftmikil túlkun hans á Di quella pira verður minnisstæð. Manrico virtist hændari að móður sinni en ástmey og atriðin milli Jóhanns og Alinu (sem söng Azucenu á sýningunni í gærkvöldi afar vel) voru verulega falleg og áhrifarík.

Hulda naut sín langbest í atriðum þar sem  hún var ein og að öðrum ólöstuðum þótti mér hún bera af í söng. Hún söng satt að segja alveg svakalega vel og snart strengi djúpt í í sál manns með túlkun sinni á aríunni fallegu D’amor sull’ali rosee. Hápunktur verksins – þegar elskendurnir syngjast á, hún nær og hann fjær, og munkakórinn syngur miskunnarbæn á milli, var alveg gríðarlega fagur. Sjaldan hefur Verdi tekist betur upp.

Silja Aðalsteinsdóttir