Þjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi leikverkið Yermu sem Simon Stone byggir á samnefndu leikriti Federico Garcia Lorca frá 1934. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir; glæsileg leikmyndin er verk Barkar Jónssonar; Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir sá um búninga en Garðar Borgþórsson um lýsingu. Mikið reyndi á þýðingu Júlíu Margrétar Einarsdóttur í hröðum, orðmörgum samtölum en hún hljómaði alltaf eðlilega og sannfærandi. Tónlist og tónlistarstjórn var á hendi Gulla Briem sem lék listir sínar á trommusett hægra megin við sviðið. Með honum léku Snorri Sigurðarson og Valdimar Olgeirsson á trompet og bassa með meiru og tóku vel undir tilfinningastorminn á sviðinu. Ásta Jónína Arnardóttir sá um myndbandshönnun en Brett Smith um hljóðhönnun.
Framaparið Jón (Björn Thors) og Hún (Nína Dögg Filippusdóttir) eru nýflutt í stórt hús í gömlu borgarhverfi sem nú er á uppleið. Í upphafi leiks eru þau tvö ein að fagna nýju heimili, drekka freyðivín og spjalla. Þau eru glöð og kát en fljótlega má sjá að Hún er örari en hann, öll á iði, hún býr yfir einhverju sem hana langar til að tala um og svo kemur það: þetta hús er svo stórt að það rúmar líka barn, jafnvel börn. Þetta er efni sem greinilega hefur ekki verið til umræðu áður en eitthvað hefur breyst. Kannski er það tilfinning hennar um líkamsklukkuna sem tifar, kannski hvað þau eru orðin vel efnuð og gengur vel í vinnu, honum í fjölþjóðlegum bisniss, henni sem ritstjóra menningarefnis og pistlahöfundi á stóru dagblaði. Hún á líka systur, Maríu (Ilmur Kristjánsdóttir), sem á börn og hefur ekkert fyrir því að verða ólétt. Þetta verður örugglega ekkert mál nú þegar þau Jón hafa ákveðið að kýla á barneignir.
En það fer á annan veg. Ár líða og við fylgjumst með vaxandi örvæntingu Hennar. Löngunin í barn verður fljótlega að þráhyggju og þráhyggjan þróast líka, bólgnar út og yfirtekur alla hugsun. Jón gerir allt sem hann getur en það er aldrei nóg. Kannski eiga ásakanir hennar í hans garð við rök að styðjast, en kannski er þetta einæði sem ekkert getur slegið á. Það er ekki fyrir aukvisa að leika þetta hlutverk en Nína Dögg er sem sköpuð fyrir það – útlitið, geðslagið, röddin, hreyfingarnar, allt sameinaðist um að birta okkur þessa konu sem smám saman verður alveg undirlögð þrá sinni og þjáningu. Eiginnafnlaus verður hún svo tákn fyrir allar konur í þessari stöðu.
Nína Dögg fékk líka mótleik við hæfi frá Birni Thors sem er einkar vel sköpuð persóna frá höfundarins hendi, hæfilega vafasamur eða varasamur karlmaður – er hann með í áætlunum hennar af heilum hug eða ekki, þar er efinn? Og efinn verður að vera til að spenna haldist og verkið verði ekki of einfalt. Ilmur er líka sannfærandi systir – og mikið lék kornabarnið vel son hennar! Aðrir aukaleikarar voru sömuleiðis fínir. Guðjón Davíð Karlsson lék gamla kærastann Viktor af hlýju sem var hæfilega blönduð ótta við þessa konu sem er orðin svo ólík þeirri sem hann þekkti forðum. Ólafía Hrönn Jónsdóttir býr til alveg nýja týpu úr móðurinni Helenu, kaldlyndan og kaldhæðinn prófessor sem aldrei hefur faðmað dætur sínar. Og Vala Kristín Eiríksdóttir er í skemmtilegu hlutverki Dídíar, samverkakonu Hennar á blaðinu og gagnrýnins aðdáanda. Öll ber sýningin leikstjóra sínum fagurt vitni.
Umgjörðin er líka sjón að sjá. Búningar eru forvitnilegir en einkum er gaman að fylgjast með búningum Hennar, hönnun þeirra styður vel við þróun persónunnar. . Heimilið tekur líka eftirtektarverðum breytingum frá upphafssenunni – til dæmis er gaman að skoða hlutina í stóra skápnum! Innskotsatriðin af blaðinu eru frumlega sett upp á einhvers konar millihæð á sviðinu. En flækinginn með kirsuberjatréð í garðinum skildi ég ekki.
Tónlistin er svo kafli út af fyrir sig, ég man ekki eftir neinu því líku í leikhúsi. Harkalegur trommuleikur markaði iðulega skil í framvindunni ásamt lýsingu þannig að áhorfendur voru rifnir upp úr sætum sínum. Það er engin leið að sofa á þessari sýningu, það þori ég að fullyrða.
Yerma Lorca og Yerma Simon Stone eiga fátt sameiginlegt en þó þetta eina: þjáninguna sem barnleysi getur valdið. Úr því efni er afskaplega vel unnið í þessari sýningu og á einstaklega áhrifaríkan hátt.
Silja Aðalsteinsdóttir