VeislaÖll eigum við frá blautu barnsbeini og fram á þennan dag minningar um veislur, góðar og slæmar og allt þar á milli. Það er jafnmikill unaður að vakna morguninn eftir virkilega vel heppnaða veislu, hvort sem er á manns eigin vegum eða annarra, og það er ööömurlegt að vakna eftir misheppnaða veislu og neyðast til að horfast í augu við gjörðir sínar og annarra. En þá er að muna að það sem ekki drepur mann gerir mann bara sterkari. Hópurinn sem stendur að hinni nýfrumsýndu Veislu í Borgarleikhúsinu rýnir í hreint allar hliðar á fyrirbærinu með háðið og hláturinn að vopni og ég játa að ég hló mig hálf-rænulausa á köflum.

Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri heldur utan um ærslaganginn og hans góðu áhrif eru greinileg. Áhrif tímans eru líka bersýnileg. Hópurinn hefur haft ár til undirbúnings og ótal sinnum hefur frumsýningu verið frestað en þau hafa notað tímann til að ydda og fága, bæta við söngvum (kannski aðeins of mörgum?) undir stjórn Davíðs Berndsen og æfa danssporin hennar Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur. Það var þrautþjálfað lið sem lék listir sínar á stóra sviðinu hennar Evu Signýjar Berger í gærkvöldi í búningum sem voru bæði fallegir og þénugir og voru eftir hana líka.

Verkið var kallað „áramótaskaup með þema“ í mín eyru og það er ekki svo galið. Þarna eru tekin fyrir nokkur skýr dæmi um klassískar veislur eins og brúðkaupsveislur og fermingarveislur, ættarmót og týpísk partý, afmælisveislur, vinnustaðapartý og svo fyrirbærið sem kætti mig allra mest: kórpartý! Þar gengu meinlegheitin lengst í alveg hryllilega fyndnum atriðum. Auk þess voru tekin fyrir nokkur tengd  fyrirbæri, dásamlegt var til dæmis atriðið um heita brauðréttinn (en kannski ívið of langt), og líðanina morguninn eftir í söngnum um djammviskubitið sem Björn Stefánsson flutti af innilegri sjálfsmeðaumkun.

Höfundar voru líka leikarar enda lifðu þau sig léttilega inn í sín mörgu og fjölbreyttu hlutverk. Saga Garðarsdóttir kemur manni til að hlæja með því einu að ganga fram á sviðið og hún fór líka afar vel með allar vandræðalegu persónurnar sem hún fékk í sinn hlut, til dæmis óhamingjusömu brúðina sem skilur ekki af hverju þarf að bjóða 250 manns sem hún þekkir ekki í brúðkaupsveisluna hennar. Katla Margrét Þorgeirsdóttir var í því að vera óþægileg en einmitt það getur hún svo vel, til dæmis sem móðir fermingardrengsins. Og sönn anti-list var hvernig hún myrti Vegbúann hans KK! Halldór Gylfason vakti innilega samúð sem sá sem ekki var boðið. Sigrún Edda Björnsdóttir var ógeðslega fyndin sem dónalega ræðukonan en verður kannski oftar minnst í hlutverki móður Björns í sving-partýinu …! Loks var Sigurður Þór hreinn gulldrengur í hverju atriðinu á fætur öðru, sem ólukkulegi makinn í kórpartýinu, sem fermingardrengurinn í mútum, sem veisluspillir með lög sem enginn kann en heita nöfnum laga sem allir kunna! Fyrst og fremst var það þó geggjaður flutningur hans á áróðurslagi fyrir makalaus vinnustaðapartý sem mun lengi verða rifjað upp. Það lag var eftir Snorra Helgason en tónlistin var annars að mestu eftir Davíð Berndsen – fyrir utan fína lagið eftir Prins Póló um heita brauðréttinn.

Sem sagt: Nú er lag að skemmta sér, góðir borgarbúar, og það duglega!

 

Silja Aðalsteinsdóttir