Það var mikið hrópað og klappað í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi að lokinni þriggja tíma maraþonsýningu á Vesalingunum. Enda var ástæða til. Leikhúsið hafði tjaldað til mörgum sínum allrabestu söngkröftum, svið Finns Arnars Arnarsonar var óvænt og áhrifamikið, Tónlistin kom ekki úr hátölurum heldur beint upp úr gryfjunni undir styrkri stjórn Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar, búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru vel hugsaðir og fleiri en tölu varð á komið og lýsing Lárusar Björnssonar og Ólafs Ágústs Stefánssonar var í góðum takti við stemninguna í músíkinni.

Saga Victors Hugo sem liggur til grundvallar söngleik þeirra Boublils og Schönbergs er löng og flókin og vel til fundið að hafa efnisútdrátt í leikskrá til að líma i eyðurnar sem óhjákvæmilega verða í skilningi okkar á framvindunni. Jean Valjean (Þór Breiðfjörð), hjartagott heljarmenni, er látinn laus til reynslu úr fangelsi eftir 19 ára þrældóm fyrir litlar sakir en fangelsisstjórinn Javert (Egill Ólafsson), sem af einhverjum ástæðum hatar Valjean af ástríðu, er ákveðinn í að ná honum aftur. Honum hefur næstum því tekist það þegarValjean stelur borðsilfrinu frá biskupnum af Digne (Eggert Þorleifsson) en biskupinn reynist göfugmenni og þar lærir Valjean lífslexíu sína: maður á að vera góður. Gæsku sína sýnir hann ótal sinnum næstu ár, vinum og vandalausum. Hann kemur undir sig fótunum fjárhagslega og tekur að sér munaðarlausa stúlku, Cosette (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) eftir að Fantine móðir hennar deyr (Valgerður Guðnadóttir). Hann tekur þátt í stúdentauppreisn í París 1832 og fær þar óvænt vald yfir sínum forna fjanda, Javert, sem nú er orðinn lögreglustjóri í borginni. Manngæska Valjeans nær hámarki þegar hann gefur Javert líf og minnisstæðasta atriði söngleiksins er tilvistarkröm lögreglustjórans sem ekki veit hvað hann á að gera við það líf sem hann hefur fengið gefins óverðskuldað. Uppreisnin mistekst herfilega og glaðbeittur flokkur uppreisnarmanna undir glæsilegri forystu Enjolras (Jóhannes Haukur Jóhannesson) fellur nær allur, en Valjean bjargar unga manninum Maríusi (Eyþór Ingi Gunnlaugsson) sem Cosette ann. Þá er allt tilbúið fyrir góðan endi á söguna.

Vesalingarnir

Inn í þetta mikla drama fléttar Hugo alls konar grótesku gríni þar sem hann sýnir okkur „vesalingana“ í París síns tíma, meðal annars hóp háværra vændiskvenna og rustalega kúnna þeirra – sem um leið umvefja grátleg endalok Fantine – og kráareigendurna Thénardier og konu hans (Laddi og Margrét Vilhjálmsdóttir) sem eru hrikaleg í útliti, andstyggilega gráðug, þjófótt og illa innrætt en eiga þó dótturina Éponine (Arnbjörg Hlíf Valsdóttir) hjartahlýja og fórnfúsa stúlku þótt hún sé vasaþjófur.

Þór Breiðfjörð kom, sá og sigraði í hlutverki Jeans Valjean. Hann hefur ekki áður sungið á íslensku leiksviði svo ég viti en talsvert í Englandi, Þýskalandi og á Norðurlöndum. Hann hefur mikla og fallega rödd sem passar vel í hlutverkið, hvort sem hann brýndi hana valdsmannslega eða söng veikt í geðshræringu. Egill Ólafsson var verðugur andstæðingur hans bæði í leik og söng. Kvenhlutverkin voru prýðilega sungin eins og vænta mátti af þeim Valgerði, Vigdísi Hrefnu og Arnbjörgu Hlíf.

Ungu mennirnir voru ágætir, Jóhannes Haukur bestur en Eyþór Ingi, Bjarni Snæbjörnsson, Ævar Þór Benediktsson og fleiri fylgdu honum fast á eftir. Lag uppreisnarmannanna, „Syngdu nýjan þjóðarsöng“, var geysilega sterkt í flutningi stúdentahópsins undir blaktandi rauðum fánum. Laddi og Margrét voru hrikaleg; ég treysti því að Margrét eyðileggi ekki röddina sína með óhljóðunum sem madame Thénardier gefur frá sér. Það eina sem mætti finna að söngstíl var tilhneiging til að fara áttund upp í lok söngva, það er áhrifamikið þegar vel tekst til en heppnaðist ekki alltaf. Það gat að vísu vel stafað af frumsýningarþreytu.

Allur texti er sunginn í Vesalingunum og þýðandanum er vandi á höndum að koma hversdagslegri orðræðu í bundið mál. Erfitt var að greina orðaskil í fjöldasöng en einsöngvarar komu textanum vel til skila og þar virtist mér þýðandanum Friðrik Erlingssyni takast alveg þokkalega. Að vísu var innihaldsrýra rímorðið hér (til að ríma móti er, fer, mér og þér) ansi áberandi en ástæðulaust er að taka það nærri sér.

Sýningin rennur vel, framan af stundum helst til hratt kannski, en Selma Björnsdóttir leikstjóri hefur góðan skilning á því sem skiptir máli í verkinu og áhrifamestu kaflar þess, upptakturinn að uppreisninni, senurnar á götuvíginu og sorgin eftir mannfallið, voru í hárréttum hraða. Hin tilfinningasömu endalok voru hæfilega teygð.

Það þarf víst ekki að hvetja fólk til að sjá þessa sýningu, þegar er búið að selja tugi þúsunda aðgöngumiða. En auðvitað er gott að geta sagt með góðri samvisku: Skemmtið ykkur vel!

Silja Aðalsteinsdóttir