Í gærkvöldi sá ég túlkun leikhópsins Miðnættis á draugasögunni víðfrægu um Djáknann á Myrká. Handritið og bráðsmellna söngtexta samdi Agnes Wild í samvinnu við leikhópinn, hún leikstýrir einnig en tónlistina samdi Sigrún Harðardóttir.

Söguna þekkja auðvitað allir en hún segir frá djákna nokkrum sem vingast við vinnukonu á bæ í næstu sveit. Hann býður henni á jólagleði í sinni sveit en áður en að henni kemur brestur undan honum brú, hann drukknar og er grafinn. Hann kemur samt að sækja ástmey sína á tilsettum tíma en á leiðinni lyftist hatturinn á höfði hans og hún sér skína í bera hauskúpuna. Þegar hann ætlar að taka hana með sér ofan í gröfina verður henni til happs að hún hafði ekki tíma til að klæða sig almennilega í yfirhöfnina og hann verður að láta sér kápuna nægja (þetta atriði minnir á söguna af Sæmundi fróða í Svartaskóla). Konan bjargaðist en varð „aldrei söm og áður eftir þetta“.

Eins og leikararnir tveir, Birna Pétursdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson, benda á í upphafi er sagan um djáknann ekki löng, ekki nema þrjár blaðsíður í venjulegu broti. Það væri fljótlegt að hespa henni af á sviði. En þeim dettur margt í hug til að lengja söguna, til dæmis sýndu þau eina fjóra hugsanlega aðdraganda að kynnum þeirra djáknans og Guðrúnar. Það er nefnilega ekki einsýnt að þau kynnist yfirleitt, hann er menntaður guðfræðingur sem býr og starfar á Myrká í Hörgárdal en hún er vinnukona á Bægisá í Öxnadal. Auk stéttamunarins eru mikil vatnsföll á milli bæjanna. Það er helst dauðinn sem er ungu fólki hliðhollur því sjálfsagt er að gefa vinnufólki leyfi til að sækja jarðarfarir.

Til að þenja söguna meira út gefa þau mynd af samfélaginu í þessum sóknum, kynna til sögunnar meðal annars Ársæl bónda og brúarsmið í Saurbæ og syni hans þrjá. Ársæll brúar Hörgá með heldur nöturlegum afleiðingum en synir hans verða elskendunum nytsamir, ýmist með því að deyja (og vera jarðaðir) eða skottast með bréf á milli þeirra. Sömuleiðis kynnumst við sögusmettunum í héraðinu, systkinunum Sigurlaugu og Bergi á Þúfnavöllum, kostulegum fígúrum sem fylgjast með ferðum granna sinna gegnum kíki.

Allar þessar persónur, auk Ingibjargar vinnukonu á Bægisá og prestanna beggja á Myrká og Bægisá, annan gamlan og hruman, hinn yngri og fúllyndari, leika þau Birna og Jóhann og voru eldsnögg að skipta um gervi og rödd.

Og þau voru dillandi skemmtileg, einstaklega lipur, frá á fæti og fyndin. Einkum fannst mér Birna sýna dýrmæta hæfileika sem gamanleikkona. Munurinn á persónunum sem hún skapaði var sláandi, bæði svipur, rödd, fas og hreyfingar; hún varð hreinlega önnur manneskja á einu augabragði! Bæði Birna og Jóhann Axel eru minnisstæð úr Gallsteinum afa Gissa og söngleiknum Kabarett fyrir norðan en hér eiga þau virkilega sviðið.

Eva Björg Harðardóttir sér um leikmynd og búninga en Lárus Heiðar Sveinsson um lýsingu. Hvort tveggja var vel hugsað en einkum reyndi á þau í dramatísku atriðunum þegar djákninn ferst og þegar Guðrún berst við hann. Þetta tókst með ágætum. Sýningin er góð skemmtun og hressileg.

Silja Aðalsteinsdóttir