eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2020

 

Ég bankaði uppá hjá honum og hann bauð mér í kaffi. Ég hafði misst mömmu mína árið á undan og hann hafði misst mömmu sína fyrir tæpum tveimur árum, það voru nokkrir dagar í tveggja ára dánarafmæli hennar en það hafði ég ekki hugmynd um fyrr en hann sagði mér það yfir kaffibollanum. Ég fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki gefið sér tíma til að syrgja en verið á kafi í vinnu en nú sagðist hann hafa verið að þrífa bókasafn móður sinnar sem hann hélt að teldi fjögur þúsund bækur og fara yfir það allt, hann var í lopapeysu því honum væri alltaf kalt. Þá skyndilega laust þeirri hugmynd í kollinn á mér að hann ætti að brenna bókasafnið og orna sér við það. Ég nefndi þó ekki hugmyndina, hann sagði mér að lopapeysan væri af konu, ekki hans eigin konu tók hann fram, og færi ekki úr henni, spurði hvað væri að frétta og mér var fyrirmunað að segja allt gott svo ég sagði honum frá því að ég væri að skrifa um föður minn látinn en væri stopp í skrifunum því ég virtist þurfa að fyrirgefa honum til að halda áfram.

Hann hitaði kaffi og bauð mér að velja bækur úr bókaskápnum sínum af handahófi og ég valdi bleika bók sem innihélt leikrit á ensku og sjálfur valdi hann svo tvær bækur handa mér sem höfðu báðar með minnið að gera, önnur hét Ég man en hin hét Ljóð muna rödd.

Og nú var komið ágúströkkur og ég þarna í heimsókn hjá honum, hafði ekki hugmynd hversvegna, hann var heillandi og sætur en það var ekki næg ástæða, hann gæti ruglað mig, það var ekki næg ástæða, svo ég drakk kaffið mitt og þetta hafði gerst svo mikið af sjálfu sér að ég var farin að halda að við myndum vakna upp við það að við hefðum endað saman í rúminu, ástæðan fyrir komu minni var sú að hundurinn hafði gert stykkin sín fyrir utan dyrnar hans og ég bankað uppá til að biðja um poka.

Mamma hans hafði verið veik af krabbameini og kannski var annar sjúkdómur í spilinu sem mátti ekki nefna en það að nefna nafn hlutanna hefur löngum leyst eðli þeirra úr læðingi svo hægt sé að ráða niðurlögum þeirra ef með þarf. Og hver veit nema mamma mín hafi dáið úr sömu sjúkdómum.

Þegar ég hafði setið við borðið og handleikið bækurnar og komist á svo mikið flug að hann sagði: Ég fylgi þér ekki alveg, og ég held það hafi verið um svipað leyti sem hann einsog óvart strauk hendinni um öxlina á sér svo skyrtan fór niður af öxlinni, ég veit ekki hvort þetta var með ráðum gert en mér fannst að ef ég hefði ekki verið á svona miklu flugi þá hefði ég getað sagt: Ertu til í að stoppa þarna?

En af því ég gerði mitt besta til að loka hann út úr höfðinu tók það mig fimm daga að ná skilaboðunum: Að honum var kalt og dauðinn er kaldur og hugsanlega vildi hann fara á eftir mömmu sinni, eða þóknast henni sem fullorðin börn vilja oft gera, honum fannst hann þurfa að deyja en vildi það ekki og skildi það ekki.

Og ef ég á að reyna ljúka þessu ljóði einhvernveginn þá myndi ég leggja móður hans þessi orð í munn: Þótt öll heimsins bókasöfn brenni þá myndi eldurinn af þeim ekki duga til að lýsa ást minni til þín, því ástin mín til þín er eldurinn sem í hjarta mínu brennur.

 

 

Elísabet Jökulsdóttir

Elísabet Jökulsdóttir