Framúrskarandi vinkonaNapolí-fjórleikur Elenu Ferrante opnar lesanda sýn inn í líf tveggja stúlkna sem eru fæddar undir lok seinna stríðs í fátækrahverfi í Napolí á suður Ítalíu og um leið á umhverfi þeirra, „hverfið“, borgina og smám saman landið allt, söguna, pólitíkina og ekki síst kvennapólitíkina, eftir því sem þær stöllur vaxa úr grasi. Þessari sýn reyna April de Angelis, höfundur leikgerðar (sem Salka Guðmundsdóttir þýðir ágætlega), Yaël Farber leikstjóri og úrvalslið leikara og annarra fagmanna að skila á stóra sviði Þjóðleikhússins á fjórum klukkutímum í sýningunni Framúrskarandi vinkona. Eins og eðlilegt er þarf að velja úr viðburðum og persónum en samkvæmt tilfinningu minni fyrir bókunum hefur það tekist vel og stundum áttaði ég mig betur á mikilvægum atriðum þegar hlutirnir voru eimaðir svona niður.

Áherslan er á vinkonurnar tvær, Lenú Greco (Unnur Ösp Stefánsdóttir) og Lilu Cerullo (Vigdís Hrefna Pálsdóttir), sérkennilegt samband ástar, öfundar, beiskju og jafnvel haturs sem tengir þær. Eins og heiti sýningarinnar (og fyrsta bindis bókaflokksins) ber með sér er önnur í aðalhlutverki – Lenú, hún segir söguna – en hún á þessa framúrskarandi kláru og gáfuðu vinkonu – Lilu – sem allt getur lært, gert og skapað og þar á ofan tryllt alla karlmenn án þess að hafa fyrir því eða jafnvel vilja það. Lenú öfundar Lilu af öllum þessum hæfileikum en Lila öfundar Lenú líka vegna þess að þó að báðar séu frá fátækum heimilum er sá munur á að faðir Lenú (Sigurður Sigurjónsson) er ekki frábitinn því að dóttir hans fái að halda áfram í skóla eftir skylduna en því er faðir Lilu (Þröstur Leó Gunnarsson) algerlega mótfallinn. Og til að sleppa að heiman giftist Lila sextán ára gömul Stefano Caracci, syni gamla okurlánarans Don Achille (Stefán Hallur Stefánsson leikur báða). Mæðurnar hafa minna vægi en feðurnir en móðir Lilu (Arndís Hrönn Egilsdóttir) virðist sýnu skaplegri en fúrían móðir Lenú sem Harpa Arnardóttir lék af miklum krafti. Yfir hverfinu vokir Solara-fjölskyldan með móðurina Manuelu (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir) í öndvegi, og aldrei hef ég orðið vitni að magnaðri orðlausum leik.

Árunum sem þær vinkonurnar ólust upp í „hverfinu“ sínu eyddi ég á Eyrinni á Akureyri og þó að þar væri ekki sami hrikalegi mannfjöldinn, kannski ekki sama sára fátæktin og ekki þungur skuggi okurlánara yfir mannlífinu, þá var barnalífið ekki ósvipað: endalausir leikir í frelsi frá boðum og bönnum svo fremi maður kæmi heim í mat á nokkurn veginn réttum tíma. Um sviðið iða krakkarnir, skólabörnin, freku strákarnir, brjálaða konan (Valgerður Guðnadóttir), slúðrandi húsmæðurnar, eiturtungur af báðum kynjum … Þessi svipur áranna fyrir sjónvarpsgláp með ys, fjöri og róstum götulífs fannst mér nást ótrúlega vel í sýningunni og munaði þar mest um hinn mikla fjölda leikara sem fyllti sviðið og gaf glettilega góða hugmynd um stórborg. Hópsenurnar voru hraðar, fjörugar og spennandi. Blokkirnar hennar Ilmar Stefánsdóttur, blakkar af mengun og skít, færðust til á hringsviðinu, snerust um sjálfar sig og studdu við hugmyndina um þétta byggð, fátækt, ömurleika, en líka visst öryggi. Þrátt fyrir allt laðar „hverfið“ marga þeirra aftur að sér sem fara burt.

Lenú sleppur um sinn, kemst í háskóla í Pisa á námsstyrk. Hún verður vinsæll rithöfundur, giftist háskólamanni (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og eignast börn – en hún missir aldrei sambandið við Lilu sem skilur við mann sinn og verður verkakona. Eitt tákn sérkennilegs „sambands“ þeirra vinkvennanna er æskuvinurinn Nino Sarratore (Atli Rafn Sigurðarson) sem Lenú elskar frá unga aldri en Lila nær frá henni með léttum leik þegar hún kýs. Nino er sérkennilega sköpuð persóna frá hendi Ferrante, karlmaður með sambandsáráttu, virðist vilja giftast, búa með og barna allar konur sem hann girnist – í einu! Hann verður örlagavaldur í lífi beggja vinkvenna áður en þær losa sig við hann. En nokkrum árum síðar verður hörmulegur atburður sem skilur þær vinkonurnar loks að þótt aldrei slitni taugin alveg milli þeirra. Þegar Lila hverfur sporlaust verður syni hennar fyrst fyrir að leita aðstoðar Lenú.

Utan um alla þessa fjölþættu atburðasögu og persónufjölda heldur sögumaðurinn, elsta Lenú, sem Guðrún Gísladóttir leikur af öryggi, hlýju og húmor. Án hennar hygg ég að óhugsandi væri að fylgja sögunni nema maður sé nýlesinn í henni. Samt er hún aldrei uppáþrengjandi, hún horfir bara á framvinduna og tengir þegar þörf krefur. Þessari persónu fékk leikstjórinn að bæta við upprunalegu leikgerðina, samkvæmt viðtali í leikskrá, og það var gæfuspor.

 

Unnur Ösp og Vigdís Hrefna sköpuðu heilar, sannfærandi persónur úr Lenú og Lilu, Lenú hikandi, óframfærin en fylgin sér þegar mikið ríður á, Lila tætt sundur milli ósamstærða langana en sterk í grunninn. Stúlkurnar sem léku þær litlar, Eldey Erla Hauksdóttir og Eva Jáuregui í sýningunni í gær, voru yndislegar, einkum var ljósmyndasenan milli Lenú og Tinu, dóttur Lilu sem Eva lék líka, falleg og áleitin.

Í sýningu sem byggir svona mikið á tilfinningu fyrir fjölda fólks og mergð sögulegra atburða er erfitt að láta einstaklinginn njóta sín – fyrir utan aðalpersónurnar. En mörgum tókst að búa til sterkar svipmyndir sem sitja í minninu. Til dæmis vísuðu Sigurbjartur Sturla Atlason og Lára Jóhanna Jónsdóttir til stórra atburða sem byltingarpar í örstuttu atriði, og Bjarni Snæbjörnsson var nístandi viðkvæmt framandi blómstur í hlutverki Alfonso Caracci. Birgitta Birgisdóttir bjó til aumkunarverða persónu úr Gigliolu sem þolir stöðugt ofbeldi frá manni sínum Michele Solara (Snorri Engilbertsson). Samfarasenur voru margar og furðu fjölbreyttar (!). Átakamest var brúðkaupsnótt Lilu og Stefanos, vemmilegust strandsenan milli Donatos Sarratore (Pálmi Gestsson) og Lenú.

Heill her leikhúsfagmanna kemur að þessari sýningu. Áður er minnst á snilldarlega sviðsmynd Ilmar Stefánsdóttur. Búningar Filippíu Elísdóttur eru legíó og allir vel hugsaðir. Hljóðmynd Valgeirs Sigurðssonar, Arons Þórs Arnarssonar og Valgerðar Guðnadóttur er einstaklega fjölbreytt og skemmtileg. Emily Terndrup og Conor Doyle mótuðu sviðshreyfingar sem settu sterkan svip á sýninguna. En lýsingin hans Björns Bergsteins Guðmundssonar minnti sjaldan á sólskinslandið Ítalíu; það var mikið myrkur yfir sviðinu en eflaust var það með ráðum gert.

Þessa stórvirkis hefur lengi verið beðið og það er vel biðarinnar virði.

Silja Aðalsteinsdóttir