Leikhúsárið 2013

Eftir Silju Aðalsteinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014

Hvernig var leikhúsárið 2013 í Reykjavík? Eitthvað sérstaklega minnisstætt – fyrir hvað það var gott, merkilegt, nú, eða vont? Á einkalista mínum kemur í ljós að mér hafa þótt þrjár sýningar mjög áhrifamiklar, þrjár afspyrnuvondar og afgangurinn þar á milli, er það ekki ágæt dreifing? Hér á eftir verða rifjaðar upp, alveg ábyrgðarlaust, eftirminnilegustu sýningarnar.

Gaman

Mesta skemmtunin sem lagt var upp til á árinu var söngleikurinn um ofurbarnfóstruna Mary Poppins sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu í febrúar undir stjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Frumsýningin tókst að vísu ekki að öllu leyti vel því tæknin brást á versta tíma – þegar Gói var að ganga upp vegg í hlutverki Berts sótara. En það reyndist sannarlega fararheill því sýningin gekk og gekk fyrir fullu húsi í nærri ár.

Silja AðalsteinsdóttirÁstæðurnar fyrir velgengninni voru sjálfsagt margar en ein sú helsta var einfaldlega hversu impónerandi sýningin var: stór, mannmörg, tæknileg, litrík, fjörug – og flott. Sum dansatriðin gerðu mann alveg agndofa, til dæmis dans sótaranna á þakinu. Þar naut húsið Íslenska dansflokksins sem getur allt sem af honum er krafist, dansað, leikið og sungið. Önnur ástæða var hvað Jóhanna Vigdís Arnardóttir fór vel með aðalhlutverkið. Hún er glæsileg leikkona, átti auðvelt með að vera gustmikil í hlutverkinu eins og við á og hefur þessa skínandi hljómmiklu og fallegu rödd sem líka er nauðsynleg. Börnin í stærstu hlutverkunum voru eins og atvinnumenn, fóru vel með texta bæði í söng og tali og léku óþekktarorma Bankshjónanna af innlifun (ég sá Rán Ragnarsdóttur og Gretti Valsson en hef sannfrétt að krakkarnir sem léku á móti þeim hafi líka verið afbragðsgóðir). Minna fór fyrir öðrum leikurum en allir fóru þó prýðilega með sitt.

Í haust efndi Leikfélag Reykjavíkur til annarrar gamansýningar sem einnig gekk og gekk. Það var gamli Jeppi á Fjalli eftir Holberg sem Benedikt Erlingsson leikstýrði. Benedikt bjó til eins konar kabarettsýningu úr Jeppa og umbúðirnar urðu nægilega miklar, bæði sviðsbúnaður og tónlistin sem framleidd var af tónlistarmönnum á sviðinu, til að kæfa söguna af drykkfellda danska bóndanum sem yfirstéttin fer svo andstyggilega með. Það var ekki mikill missir. Ingvar E. Sigurðsson fékk þó að skína í aðalhlutverkinu, drekka sig út úr og sýna hörmulegar afleiðingar áfengisneyslunnar. Listilegir taktar hans í þessu áttu áreiðanlega stærsta þáttinn í velgengni sýningarinnar.

Á sviðinu í Jeppa (eftir Gretar Reynisson) var geysimikið hamsturshjól sem nýttist á ýmsa vegu í sýningunni. Þar gerðist líka eftirminnilegasta atriði sýningarinnar þegar Jeppa veslingnum var fleygt upp á hjólið og því snúið þannig að hann þeyttist um, fram og aftur, upp og niður. Mér var hreinlega orðið bumbult þegar ég fattaði loksins að þetta var ekki Ingvar, guði sé lof, heldur eftirmynd hans úr tuskum! Kostulegt atriði.

Ein fyrsta sýning ársins var á Hjartaspöðum í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Afar skemmtileg sýning hjá Skýjasmiðjunni, leikin af grímuklæddum leikurum alveg án orða undir stjórn Ágústu Skúladóttur. Sagan er sígild, snýst um eina konu og tvo karla sem elska hana og þrá, en ýmislegt varð til þess að bjarga verkinu frá klisjunum. Grímurnar gerðu sitt auðvitað en ekki síður það að verkið gerist á elliheimili og trekanturinn er vistmenn á því. Leikararnir voru allir ungir, Orri Huginn Ágústsson, Stefán Benedikt Vilhjálmsson og Aldís Davíðsdóttir sem einnig hannaði grímurnar góðu, en þau sýndu aldurinn með sannfærandi látbragði og tókst jafnvel að láta grímurnar sýna hin fjölbreyttustu svipbrigði þó að þær væru úr hörðu efni og hefðu ekki átt að birta nokkrar innri tilfinningar persónanna.

Og af því Gaflaraleikhúsið er til umræðu má ég til með að nefna (þó að þar hafi ekki verið atvinnuleikarar að verki) að unglingar og þeirra líf var líka til umræðu þar í fantagóðu stykki eftir tvo ekta unglinga, Arnar Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson, leikið af þeim sjálfum undir stjórn móður annars þeirra, Bjarkar Jakobsdóttur leikkonu.

Gaman var líka að sýningu Nemendaleikhússins á Draumi á Jónsmessunótt eftir Shakespeare sem Stefán Jónsson stýrði. Þetta er eitt þeirra verka sem maður verður aldrei leiður á, hversu oft sem það er sett upp. En sérstaklega er gaman að sjá það í meðförum ungs fólks eins og í þetta sinn; það er svo fullt af ungri orku, ást og ástarþrá, hrekkjum, bulli og djöfulskap!

Síðla árs sýndi Þjóðleikhúsið í Kassanum Pollock eftir Stephen Sachs þar sem Hilmir Snær Guðnason stýrði Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og Pálma Gestssyni í alveg prýðilegri sýningu um Maude sem býr í hjólhýsi en hefur kannski glæpst á að kaupa málverk eftir Jackson Pollock. Þess vegna hóar hún í listfræðinginn Lionel og biður hann að skera úr um málið. Það var augljóst hvað þau Ólafía og Pálmi nutu þess að leika þennan bitastæða texta í slíku návígi við áhorfendur og þau slógu heldur hvergi af, hvorki í rifrildum sínum né áflogum. Við fáum aldrei beinar upplýsingar um að málverkið sem allt snýst um sé eftir Jackson Pollock. Mér fannst fyrst á eftir að listfræðingurinn hefði játað það óbeint með því að hindra Maude í að skera málverkið í ræmur, en auðvitað þarf það ekki að vera. Það nægir að hann sé í vafa.

Jólasýning Þjóðleikhússins var um það bil tvö þúsund og fimmhundruð ára gamanleikur, Þingkonurnar eftir Aristofanes. Maður skildi nú alveg eftir sýninguna hvers vegna þessi leikur er ekki sífellt á leiksviðum heimsins, hann er eiginlega einþáttungur, rennur út í sandinn eftir góðan upptakt. En það var margt geysiskemmtilega gert í uppsetningu Benedikts Erlingssonar og þýðing Kristjáns Árnasonar var alveg dásamleg.

Þrjár fínar barnasýningar eiga líka heima meðal gamanleikja þótt efni þeirra allra sé blanda af gamni og alvöru. Barnastórsýning Þjóðleikhússins var á Óvitum, rúmlega þrítugu leikriti Guðrúnar Helgadóttur um Finn sem strýkur að heiman og fær að fela sig hjá Guðmundi skólabróður sínum. Gunnar Helgason setti upp skrautlega og stílfærða útgáfu af þessum gamalkunna leik sem börnin kunnu vel að meta.

Í Þjóðleikhúskjallaranum sýndi leikhópurinn Soðið svið leikritið Hættuför í Huliðsdal eftir Sölku Guðmundsdóttur undir stjórn Hörpu Arnardóttur, fyndið og fjörugt leikrit um stúlkuna Eyju sem þarf að bjarga afa sínum úr klóm illrar álfadrottningar. Sviðslistamennirnir gerðu algert kraftaverk í þessu litla rými, bjuggu til sannkallaða ævintýraveröld. Og leikararnir létu sig ekki muna um að leika mörg hlutverk til að ævintýrapersónurnar kæmust allar til skila. Salka er fjarskalega orðheppinn og fyndinn höfundur eins og þeir vita sem sáu Súldarsker í Tjarnarbíói fyrir þremur árum. Það kom sömuleiðis vel fram í hennar hluta af Núna í Borgarleikhúsinu, einþáttungnum Svona er það þá að vera þögnin í hópnum, þó að efni hans væri vissulega ekkert hlægilegt.

Uppi á efsta lofti í Þjóðleikhúsinu var líka leikið fyrir börnin. Þar hefur Bernd Ogrodnik brúðuleikstjóri sest að og frumsýndi í haust leikgerð sína af sögunni um Aladdín og töfralampann. Sýningin var svo falleg að maður fékk ofbirtu í augun og mátti ekki á milli sjá hvorir voru hrifnari, hinir fullorðnu eða börnin.

Harmsögur

Leikhúsgrímurnar eru tvær, önnur hlæjandi, hin með skeifu, og harmsögur voru nokkrar sagðar á sviðinu á árinu. Ein sýningin hét meira að segja Harmsaga, tvíleikur eftir Mikael Torfason sem var sýndur í Kassanum. Leikararnir voru bráðungir, Snorri Engilbertsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir sem útskrifaðist úr LHÍ sl. vor. Leikritið segir einfalda sögu um ung hjón sem geta ekki fundið færa leið saman í lífinu og hún endar á versta veg. Textinn var þjáll en mjög stuttur, varla nema hálftímalangur eða svo ef vel hefði verið haldið á spöðunum. En úr þessari einföldu sögu og stutta texta gerði Una Þorleifsdóttir leikstjóri áhrifamikla sýningu í fullri lengd (þó án hlés) með góðri aðstoð sviðshönnuðarins Evu Signýjar Berger og annarra listamanna sem komu að uppsetningunni. Sýningin varð sterk heild þar sem list leikhússins skapaði þann undirtexta sem ekki var augljós í textanum.

Karma fyrir fugla eftir Kristínu Eiríksdóttur og Kari Ósk Grétudóttur sem Kristín Jóhannesdóttir setti upp í Kassa Þjóðleikhússins var nöturleg saga um kjör kvenna og stúlkna í veröldinni. Sýningin var litrík og smart þótt efnið væri harmþrungið og þar fékk Þórunn Arna Kristjánsdóttir hlutverk sem verulega reyndi á hana. En helst verður Karma fyrir fugla nú minnst fyrir það að vera síðasta sýningin sem Herdís Þorvaldsdóttir tók þátt í, þessi dáða listakona sem hafði þá heillað íslenska leikhúsgesti í Iðnó og Þjóðleikhúsinu í yfir sjötíu ár.

Það er gaman að ungar konur eins og Kristín og Kari Ósk skuli fá tækifæri á fjölum sjálfs Þjóðleikhússins. Í því sambandi má líka minna aftur á sýninguna Núna á litla sviði Borgarleikhússins þar sem Kristín Eysteinsdóttir setti upp einleiki eftir tvo unga höfunda auk Sölku Guðmundsdóttur, Kristínu Eiríksdóttur og Tyrfing Tyrfingsson. Öll eru þau efnileg og sýningin var stórskemmtileg, aldrei dauður punktur.

Gaman og alvara vógust á í Hundalógík eftir Christopher Johnson sem leikhópurinn Fullt hús sýndi í Þjóðleikhúskjallaranum. Undir stjórn Bjartmars Þórðarsonar lifnuðu ófáir hundar á þröngu sviðinu og sögðu sögur af sínu hundalífi sem sumar urðu ansi áhrifamiklar og harmrænar.

Nærgöngulli var harmurinn í Hvörfum sem Rúnar Guðbrandsson leikstjóri og fleiri unnu upp úr málskjölum Guðmundar- og Geirfinnsmálsins og Lab-Loki leikhópurinn sýndi í gamla hæstaréttarsalnum við Lindargötu. Það er borin von að þessi ljóti blettur verði nokkurn tíma þveginn af íslensku réttarkerfi en einmitt þess vegna er brýnt að rifja hann reglulega upp. Skynsamleg aðferð höfundanna var að sýna ólíkar aðferðir lögreglumanna við yfirheyrslur eftir því hvaða fólk þeir eru að yfirheyra – hvort það á eitthvað undir sér eða ekki.

Lab-Loki frumsýndi líka afar forvitnilegt stykki í Tjarnarbíó undir lok árs, Stóru börnin eftir Lilju Sigurðardóttur sem fjallar um infantílisma – það fyrirbæri þegar fullorðið fólk vill láta fara með sig eins og lítil börn, jafnvel ungbörn. Ég játa fúslega að mér fannst efni verksins ógeðfellt og það tók mig þó nokkurn tíma að komast yfir fordómana. En smám saman hefur eftirbragðið af þessari sýningu orðið býsna gott, hún sat í mér og hélt áfram að trufla mig lengi á eftir. Það reyndi öðruvísi á leikarana en ég ímynda mér að þeir hafi upplifað áður þótt margreyndir séu og leikurinn var minnilega góður hjá þeim öllum, Lilju Guðrúnu Þorvaldsdóttur sem lék „mömmu“ og Árna Pétri Guðjónssyni, Stefáni Halli Stefánssyni og Birnu Hafstein sem léku „börnin“ hennar. Þó er freistandi að taka Árna Pétur út úr rétt sem snöggvast, hann var alveg óborganlegur smásnáði og náði líka að sýna það flókna fyrirbrigði sem svona fíkill er. Þar er ekkert einfalt, get ég sagt ykkur.

Magnús Geir ræður yfir stóru húsi inni í Kringlumýri en fór samt í útrás á árinu sem leið og frumsýndi í október í Gamla bíói við Ingólfsstræti umdeilda sýningu á Húsi Bernhörðu Alba eftir Lorca sem Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði. Það er ekki eins gott að sitja í Gamla bíói og Borgarleikhúsinu en sýningin var rosalega flott, svið (Brynja Björnsdóttir) og búningar (Þórunn María Jónsdóttir) afar glæsileg, og loftið hreinlega titraði af bældri kynferðislegri þrá. Ég held að deilurnar hafi ekki aðallega snúist um að Kristín valdi að hafa karl í aðalhlutverkinu, Bernhörðu sjálfri, hana lék Þröstur Leó Gunnarsson, heldur um innskot úr raunheimi í sýninguna – Simone de Beauvoir, Pussy Riot og fleiri litu inn á sviðið. En tilfellið er að þessi innskot urðu fljótlega óljós í minningunni. Það sem situr er verkið sjálft, kúgunin sem dætur Bernhörðu verða fyrir þegar heimilisfaðirinn deyr. Engrar gleði skulu þær njóta fyrr en sorgarárin átta eru liðin.

Fimmstjörnusýningarnar

Englar alheimsins björguðu miklu í hörðu ári á stóra sviði Þjóðleikhússins. Aðrar sýningar fyrir fullorðna þar voru viss vonbrigði þótt þær hefðu þær sína kosti, Fyrirheitna landið og Maður að mínu skapi, og þær gengu ekki vel. Englana hans Einars Más Guðmundssonar þekkja „allir“, ýmist á bók eða bíó eða hvort tveggja, en leikgerð Þorleifs Arnarssonar og Símonar Birgissonar og uppsetning Þorleifs var nægilega óvænt, fersk og heillandi til að lokka þúsundir í leikhús til að upplifa verkið einu sinni enn. Atli Rafn Sigurðarson var meira að segja látinn tala við bæði bókina og bíómyndina í leiksýningunni í hlutverki Páls Ólafssonar. Eins og Páll hefði þurft að þola það lengi að fá ekki að vera í friði fyrir fólki sem vildi endilega segja sögu hans. Það kom afar vel út og flækti mann enn rækilegar inn í hugarheim þessa þekktasta geðsjúklings íslenskra bókmennta.

Þegar þessi grein birtist hefur sýningum væntanlega verið hætt þannig að nú má segja það sem ekki mátti segja í umsögn á sínum tíma, en það atriði í sýningunni sem logar í höfðinu á mér enn er þegar Páll fékk allan salinn til að standa á fætur og syngja þjóðsönginn. Sjaldan hef ég orðið eins hissa, hrifin og uppnumin í leikhúsi. Það jaðrar kannski við bilun að finnast Guðvorslansinn æðislegt lag sem óendanlega gaman er að syngja og eflaust jók það áhrifin í mínum huga en það má vera tilfinningabældur áhorfandi sem ekki varð fyrir áhrifum, hvort sem hann söng með eða ekki.

Blam! er náttúrlega ekki „íslensk“ leiksýning en hún er sköpunarverk Íslendingsins Kristjáns Ingimarssonar sem hefur heillað Dani og fleiri grannþjóðir okkar með trúðslátum sínum árum saman. Það var einkar vel til fundið hjá forsvarsmönnum Borgarleikhússins að bjóða honum og hóp hans til Íslands og sýningin spurðist svo vel út að hún kemur aftur núna í vor. Þá ættir þú, lesandi minn, að drífa þig ef þú ert ekki búinn að sjá hana – og jafnvel þótt þú sért búinn að því!

Þetta er „barnaleikur“ þar sem fjórir skrifstofugaurar bregða á leik með ritföngin sín og skrifstofudótið, post-it-miðana gulu, heftarana, gatarana, möppurnar, blýantana, borðlampana, vatnskútana, pottaplönturnar. Í leiðindum sínum í vinnunni eru þeir að leika atriði úr uppáhaldshasarmyndunum sínum og atriðin verða æ æsilegri uns öll sviðsmyndin er komin á hreyfingu.

Árinu lauk á sýningu leikhópsins Aldrei óstelandi á Lúkasi eftir Guðmund Steinsson. Þetta er nærri fjörutíu ára gamalt leikrit en ég var búsett erlendis þegar það var sýnt fyrst og sá það ekki þá. Kannski hefði ég ekkert séð það þótt ég hefði verið heima því það fékk orð á sig fyrir að vera býsna leiðinlegt. En það var síður en svo nokkuð leiðinlegt við uppsetningu Mörtu Nordal á verkinu í Kassa Þjóðleikhússins. Þvert á móti.

Ég las í Bókmenntasögu Máls og menningar (V. bindi bls. 248) að hjónin sem gefa Lúkasi að borða séu gömul. Kannski gerði gæfumuninn að Marta hirti ekki um þau fyrirmæli en valdi yngri leikara í hlutverk hjónanna. Spennan milli þeirra og Lúkasar verður mun margslungnari og meira spennandi en ef þau væru gömul og átakanlegra að sjá þau sóa lífi sínu. Alltént var sýningin einstaklega áhrifamikil, hélt manni á sætisbrúninni allan tímann. Stefán Hallur Stefánsson var ógnvekjandi í hlutverki Lúkasar, óhugnanlegur bæði þegar hann elskar, hrósar og tyftar, og Edda Björg Eyjólfsdóttir og Friðrik Friðriksson voru bæði brjóstumkennanleg og pirrandi í sínum hlutverkum. Aldrei óstelandi er hópur sem ástæða er til að hafa vakandi auga með. Uppsetning þeirra á Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar er ógleymanleg.

Lokaorð

Eins og sjá má á þessari yfirferð voru íslensk verk, bæði gömul og ný, í sviðsljósinu á árinu. Sextán af þeim tuttugu og níu verkum sem ég sá voru eftir íslenska höfunda. Klassíkin var ekki áberandi, bara ein sýning á verki eftir Shakespeare (Draumur á Jónsmessunótt), en minna má á að báðum megin við árið voru framúrskarandi sýningar á tveimur af hans helstu verkum, Macbeth í Þjóðleikhúsinu um jólin 2012 og Hamlet í Borgarleikhúsinu í ársbyrjun 2014.

Er þá hægt að draga einhverjar ályktanir af þessu um hvað best sé að setja upp til að fá hrós gagnrýnenda og draga að áhorfendur? Ég held ekki. Bæði ný og gömul verk eru meðal þeirra sem þóttu best og fengu mesta aðsókn. Það er áberandi tíska núna í leikhúsunum að pota meira eða minna í gamla og þekkta leikritatexta, einkum þýðingar, jafnvel búa til eitthvað allt annað úr þeim en leikritið sem höfundur sá fyrir sér í öndverðu (sbr. Jeppa á Fjalli). En um það á við eins og fleira að veldur hver á heldur og kannski mikilvægast að áhorfandinn sé tilbúinn til að láta koma sér á óvart. Affarasælast er að vera vandvirkur en þó ferskur, hugsa eldri verk upp á nýtt en sýna þeim þó virðingu, vera hugmyndaríkur en láta ekki ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur.

-Silja Aðalsteinsdóttir