MormónabókinNemendur í Flensborg frumsýndu í gærkvöldi söngleikinn Mormónabókina eftir Trey Parker, Robert Lopez og Matt Stone í Gaflaraleikhúsinu. Þýðandi og leikstjóri með meiru er Björk Jakobsdóttir, Þórunn Lárusdóttir stjórnaði söng, tónlistarstjóri er Hallur Ingólfsson en Óli Gunnar Gunnarsson sá um dansatriðin. Þetta er nýlegur söngleikur, frumsýndur á Broadway 2011, vel þekktur og verðlaunaður en hafði einhvern veginn farið gersamlega framhjá mér.

Sagan segir frá tveim ungum karlmönnum, Jóni (Kolbeinn Sveinsson) og Þorláki (Sindri Blær), sem útskrifast saman úr þjálfunarbúðum mormóna í Bandaríkjunum. Þeir eru síðan paraðir saman, Þorláki til mikillar gleði en Jóni ekki, og sendir til Úganda til að boða mormónatrú. Þar hitta þeir trúboðana sem fyrir eru og kynnast fjörmiklum þorpsbúum, einnig rekast þeir á hershöfðingjann (Viktor Breki) sem kúgar þorpsbúa miskunnarlaust. Jóni verður illa við þegar hershöfðinginn skýtur mann sem er með eitthvað múður og ætlar að flýja sem snarast heim til Ameríku. Það virðist líka ástæðulaust að dvelja í Úganda því þar hefur ekki nokkur maður áhuga á boðskap mormóna. Það á við þangað til Þorlákur fer að blanda hann ýmsum litríkum atriðum úr vinsælum kvikmyndum og eigin hugmyndaheimi. Þá verður trúboðið svo árangursríkt að trúfélagið ætlar að verðlauna þá félaga. Verðlaunaveitingin ferst þó fyrir þegar öldungarnir komast að því hvers konar samsetningi þorpsbúar hafa verið fóðraðir á.

Sagan kemur mér fyrir sjónir sem furðu mikil vitleysa miðað við frægð og upphefð söngleiksins en tónlistin er sannarlega skemmtileg og leikur, söngur og danslist krakkanna á sviðinu var heillandi. Kolbeinn og Sindri Blær bjuggu til dásamlega ólíkar persónur – Jón er afskaplega sjálfsupptekinn, stífur og þver. Þorlákur hefur lifandi ímyndunarafl sem stundum tekur völdin af honum en er einlægur og indæll strákur sem öllum vill vel. Kringum þá dansar svo hópurinn með afbragðsgóða krafta og má sérstaklega nefna Sonju Björk og Tinnu Lind sem léku mæðgurnar Mafala Hatimbi og Napalunga, Diljá Pétursdóttur, Carlos Garðar og Sóleyju Dís. Söngatriðin voru undantekningarlaust prýðilega útfærð en sérstaklega verður að nefna upphafs- og lokasönginn og þó sér í lagi síðasta atriðið fyrir hlé þegar Þorlákur tekur málin í sínar hendur að Jóni flúnum. Rakin snilld!

Silja Aðalsteinsdóttir