PrinsinnÞjóðleikhúsið endurfrumsýndi um helgina leiksýningu Kára Viðarssonar og Maríu Reyndal Prinsinn á Litla sviðinu í samstarfi við Frystiklefann á Rifi. Þar var verkið einmitt heimsfrumsýnt síðastliðið vor og síðan hefur það ferðast um landið. Það er gott til þess að vita að margir hafi fengið tækifæri til að sjá það því að þetta er þörf leiksýning og bráðskemmtileg.

Kára sautján ára (Kári Viðarsson) er þó ekki skemmt þegar Tinna sextán ára (Birna Pétursdóttir) segir honum að hún sé ólétt og hann sé pabbinn. Getur það verið – eftir bara eitt skipti og hann notaði smokk?? Eða voru skiptin kannski fleiri og hvernig var þetta með smokkinn, var hann kannski bara hvít lygi fyrir mömmu (Sólveig Guðmundsdóttir)? Og hvað með tímann? Getur stúlka vitað um óléttu eftir aðeins þrjár vikur? Eða eru það kannski þrír mánuðir? Þetta er allt ansi ruglingslegt í huga Kára. Og ekki skánar það þegar sá kvittur kemur upp í þorpinu að andstyggðin hann Rúnar Breki (Sverrir Þór Sverrisson) hafi líka sofið hjá Tinnu. Sannleiki sögunnar breytist eftir því hver segir hana og það er fyrst núna, tuttugu árum síðar, sem hún kemst til skila frá öllum sjónarhornum.

Sagan rifjast upp fyrir Kára núna af því að hann á von á barni á nýjan leik. Allur vandræðagangurinn í gamla daga, sársaukinn, sektarkenndin og aumingjaskapurinn vellur fram eins og þetta hafi gerst í gær. Samtölin við vininn Bjögga (Sverrir Þór), flókin samskiptin við mæðurnar – ekki er minnst á feður. Mæðurnar eru af ólíku tagi; móðir Kára virðuleg, borgaraleg frú í þorpinu, móðir Tinnu fjallhress skvísa í Vestmannaeyjum. Sólveig leikur þær báðar og líka Söndru, samverkakonu Tinnu í Prinsinum, bestu sjoppunni undir Jökli, þar sem allt gerist, ýmist fyrir eða eftir lokun … Sólveig skiptir léttilega og skýrt milli þessara þriggja ólíku kvenpersóna og þar hjálpa líka til sniðugir aukahlutir Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur búningameistara. Sama má segja um Sverri Þór (Sveppa) sem skipti lipurlega milli sinna gerólíku hlutverka. Bæði voru til mikillar skemmtunar, hvaða gervi sem þau tóku á sig.

Kári er vitanlega í sögumiðju og fer afskaplega vel með sjálfan sig tuttugu árum yngri, einlægur en pínulítið fjarlægur, eins og hann trúi þessu aldrei alveg en vilji þó trúa því. Birna Pétursdóttir var einlæg alveg inn úr í hlutverki Tinnu og skapaði sannfærandi manneskju, bæði sextán ára stelpuna og hálffertugu konuna. Söngur hennar fyrir litla soninn var fallegasta atriði kvöldsins.

Leikmynd Guðnýjar Hrundar og Egils Ingibergssonar er hráslagaleg en kallar fram ekta stemningu sem tónlistin hans Úlfs Eldjárn og hljóðhönnun þeirra Ástu Jónínu Arnardóttur ýtir vandlega undir og lýsing Jóhanns Friðriks Ágústssonar styður líka vel við. Margar sviðslausnir voru eftirminnilega snjallar og rósamálið hrikalega fyndið. Þetta er sýning sem allt fólk milli tólf ára og tvítugs ætti að sjá og hinir eldri líka og ég lofa því að engum leiðist!

 

Silja Aðalsteinsdóttir