Alltaf er ég svolítið hissa á áhuga manna á Magnúsi Hj. Magnússyni, persónu hans og skrifum – það er að segja eftir að Halldór Laxness hafði nýtt sér dagbækur hans í sitt mikla verk, Heimsljós. En auðvitað getur verið athyglisvert að skoða Magnús í ljósi Ólafs Kárasonar Ljósvíkings, íhuga muninn á frummynd og eftirmynd. Þetta er nú hægt að gera í Norðurpólnum á Seltjarnarnesi þar sem Ársæll Níelsson einleikur verkið Ljósvíkingur – Skáldið á Þröm, leikgerð sína og Elfars Loga Hannessonar á dagbókum Magnúsar undir stjórn Elfars.

Ljósvíkingur: Skáldið á Þröm

Það fyrsta sem slær áhorfanda við þessa uppsetningu er áherslan á fátækt Magnúsar og ömurleika ævi hans og kjara. Ársæll liggur í fleti með teppisgarm yfir sér þegar gengið er í salinn; þegar hann rís úr bæli sínu er hann berfættur; á gólfinu eru pappírsblöð og rusl og hið eina sem er einhvers virði í umhverfi hans eru nokkrar gamlar bækur. Hann handleikur þessar bækur, blaðar í þeim og les í þeim en skrýtið þótti mér að sjá þegar Ársæll hendir þeim á gólfið eins og til að slá takt í langri ræðu hans og gengur á þeim. Yfirleitt fannst mér uppsetningin helst til fátæk af góðum hugmyndum.

Textinn fer yfir ævi Magnúsar frá því að pabbi hans hleypur með hann – illu heilli – í nýja vist nokkurra vikna gamlan og þangað til hann, harðfullorðinn maður, er laus úr fangelsi fyrir misnotkun á fjórtán ára stúlku á bæ þar sem hann var gestkomandi. Þarna er farið ansi fljótt yfir sögu og hefði kannski verið betra að takmarka sig við styttra skeið í lífi hans og gera því nákvæmari skil. Líka hefði sýningin vel mátt vera lengri; hún var aðeins um 45 mínútur.

Textinn er á gamaldags bókmáli, laus við tilþrif að mestu, en þó koma við og við snilldarlegar setningar sem maður kannast við úr Heimsljósi. En einmitt þær færa manni heim sanninn um hve lítið Halldór þáði af Magnúsi og hve óskaplega mikið Magnús græddi á endurvinnslu Halldórs. Þar munar auðvitað mest um sjálfa persónusköpunina. Eins og Ársæll dregur skýrt fram er Magnús Hjaltason óttalega dapurleg persóna alla sína tíð, sviplítil, gleðisnauð, full af sjálfsvorkunn. Ósmótstæðilega persónutöfra Ólafs Kárasonar hefur Halldór Laxness áreiðanlega ekki úr heimildum sínum. Nokkuð bætti þó úr eymingjaskap persónunnar hve leikarinn er myndarlegur og hann lék Magnús af einlægri meðlíðun. Sérstök ánægja var svo í lokin að fá sérsamið lag og texta eftir Mugison um skáldið á Þröm, sungið af honum sjálfum.

Silja Aðalsteinsdóttir