Gunnar Þór Bjarnason. Þegar siðmenningin fór fjandans til: Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918.

Mál og menning, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2016

Þegar siðmenningin fór fjandans til: Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918Á okkar tímalausu tímum þegar búið er að stroka út fortíðina, sagan er horfin út í veður og vind og sjóndeildarhringurinn nær lítið út fyrir stundlegan rembihnút hins glórulausa „nú“, eru bækur eins og „Þegar siðmenningin fór fjandans til“ eftir Gunnar Þór Bjarnason hið þarfasta verk. Eins og undirtitillinn gefur til kynna – „Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918“ – er viðfangsefnið ástandið á Íslandi á stríðsárunum, viðbrögð landans við þeim hörmungaratburðum sem voru að gerast erlendis, svo og ævi og örlög manna sem voru af íslensku bergi brotnir og fylktu sér undir fána hinna stríðandi þjóða. Þetta er merkileg saga, og hefur til þessa ekki verið tekin til rækilegrar athugunar út af fyrir sig svo ég viti.

Undirtitillinn segir þó ekki nema hálfa söguna, því höfundur rekur einnig sögu heimsstyrjaldarinnar sjálfrar allt frá aðdraganda hennar til Versalasamninganna illræmdu, og eru þessar tvær hliðar verksins að vissu marki sjálfstæðar. Sagan af styrjöldinni er einkar vel sett fram og fjörlega skrifuð, og dregur höfundur þar saman nýjustu rannsóknir fræðimanna á hinum ýmsu þáttum hennar. Óhætt er að segja að þær hafi tekið mikinn fjörkipp undanfarin ár, ekki síst vegna breyttra viðhorfa, – nú er t.d. farið að leggja mun meiri áherslu á líf og dauða óbreyttra hermanna og upplifanir þeirra á vígvellinum og utan hans. Höfundur ver allmiklu rúmi í að rekja hinar ýmsu kenningar um orsakir stríðsins, hann vegur þær og metur án þess að taka neina afgerandi afstöðu, enda ekki heiglum hent, vafalaust voru að verki margir samverkandi þættir.

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að „heimsófriðurinn mikli“ hafi farið af stað fyrir hreina handvömm óhæfra leiðtoga sem sátu blýfastir í eigin fordómum, heimsku og hroka, og væri hollt fyrir stjórnmálamenn nú á dögum að hugleiða sárgrátleg dæmi þeirra. Þessir menn óðu fram í blindni, í æsingnum vissu þeir ekkert hvað þeir voru að gera, og samt er ekki hægt að fyrirgefa þeim.

En úr þessu hefði þó varla orðið þetta geigvænlega blóðbað ef ekki hefði verið jarðvegur fyrir því. Sú tilfinning að mikilvæg mál væru enn óútkljáð og yrðu varla útkljáð nema í nýrri styrjöld virðist hafa verið talsvert útbreidd í álfunni, Frakkar undu illa málalokum styrjaldarinnar við Prússa 1870 og vildu óðir og uppvægir endurheimta Elsass-Lótringen, og Englendingum stóð stuggur af uppgangi Þjóðverja, sérstaklega eftir að þeir tóku til við að efla til muna herskipaflotann – að nýlendubrölti þessara þjóða ógleymdu.

Þessi hugsunarháttur kemur víða fram og mætti ekki síst nefna þann aragrúa af sögum sem samdar voru um „stríðið í framtíðinni“ á árunum milli fransk-prússnesku styrjaldarinnar 1870 og upphafs heimsstyrjaldarinnar 1914. Slíkar sögur höfðu verið skrifaðar áður og áttu enn framtíð fyrir sér, en sennilega er þetta „bókaflóð“ á þeim tíma sem Frakkar kalla „la belle époque“, – „tímabilið fagra“ – einsdæmi í sögunni; þær birtust sem greinar, smásögur, framhaldssögur í blöðum og tímaritum, jafnvel blöðum fyrir börn og unglinga, oftsinnis myndskreyttar, og síðan í bókarformi, sumar urðu hinar mestu metsölubækur og voru þýddar um leið á önnur tungumál. Þessar sögur, sem fjallað er um í hinu merka riti „Voices Prophesying War“ eftir I.F. Clarke, eru langflestar fallnar í gleymsku, enda naumast merkilegar sem bókmenntir, og sagnfræðingum hættir til að leiða þær hjá sér, en hlutverk þeirra var mikilvægt, þær endurspegla ekki aðeins andrúmsloft tímans heldur áttu mikinn þátt í að móta það, jafnvel mætti segja að þær hafi stuðlað að því að sveigja rás sögunnar.

Sögurnar um „stríðið í framtíðinni“ voru nákvæmlega í takt við stjórnmálaástandið í Evrópu á ritunartíma sínum og sviptingar þess, þær fjalla um styrjaldir við þá sem voru erkióvinirnir hverju sinni, en það gat verið breytilegt. Það er því athyglisvert að þeim fór fjölgandi upp úr 1890 og urðu jafnframt harkalegri, þjóðernisbrjálæðið fór út í hysteríu. Höfundarnir voru margir hverjir herforingjar eða menn í nánum tengslum við her og flota og settu fram hugmyndir sem voru á sveimi í þeim krikum, eða hugmyndir sem þeir vildu koma á framfæri, en einnig lögðu rithöfundar gjörva hönd á plóginn og er þeirra framlag merkast. Segja má að þessi blekiðja skiptist í tvennt, annars vegar sögur um innrás og ósigur, og voru þær gerðar til að hrista menn upp úr andvaraleysinu, fá þá til að hækka útgjöld til hermála ennþá meir, en hins vegar sögur um sigursælar styrjaldir, þær hefjast á svikulu undirferli og lúalegum bellibrögðum óvinarins og þeim lyktar með því að hann bíður endanlegt afhroð.

Í Frakklandi fjölluðu sögurnar einkum um hefnd gegn Þjóðverjum, styrjaldir sem sneru við ósigrinum 1870, þar endurheimta Frakkar allt sem þeir höfðu misst og létu Þjóðverja þola allt sem þeir höfðu sjálfir mátt þola og gengu svo frá þeim að ekki væri lengur nein hætta úr þeirri átt, kannske var Þýskalandi skipt upp í meinlaus smáríki þannig að klukkunni var seinkað til tímans áður en Járnkanslarinn komst til valda eða enn lengur aftur í tímann. En þegar sem mestar viðsjár voru með Frökkum og Englendingum snerust sögurnar einnig um það hvernig Frakkar ganga milli bols og höfuðs á óvininum handan Ermarsunds, og kemur þá í ljós að þótt Þjóðverjar væru aðalfjendurnir var hatrið á Englendingum miklum mun sterkara. Um það ber vitni saga eins og „Ekkert England framar“ (1887), sem prentuð var sex sinnum á útgáfuárinu og lyktar með því að Englendingar eru dæmdir til eilífrar innilokunar á því sem þeir halda eftir af sinni eyju, þeir missa allar sínar nýlendur en Frakkar fá í sinn hlut Dover, Ermarsundseyjar, Gíbraltar, Möltu, Vestur-Afríku, Vestur-Indíur, Tasmaníu, Nýja-Sjáland og flestar eyjar Englendinga í Kyrrahafi; Englendingar verða meira að segja að láta af hendi egypskar fornminjar sem þeir stálu af Frökkum og geyma nú í British Museum. Eftir þetta sjá Þjóðverjar sér vænst að skila Elsass og Lótringen, og heimsbyggðin er endurskipulögð í samræmi við hagsmuni Frakka. Aðrar sögur af svipuðu tagi voru „Hörmungar Jóns Bola“ og „Fjörbrot Albion“.

Á sama tíma sömdu Englendingar keimlíkar sögur um stríð við Frakka, einkum hættuna af fyrirvaralausri innrás þeirra, og náðu þau ritstörf hámarki kringum 1882, þegar uppi voru hugmyndir um að grafa göng undir Ermarsund; hver sagan eftir aðra sagði frá því hvernig svikulir Fransmenn laumast eftir göngunum að næturlagi og eru komnir til London áður en nokkurn varir. Dæmi um slíkar bókmenntir eru „Taka Ermarsundsganganna“ og „Hvernig Jón Boli tapaði London“. Eftir að hætt var í bili við slík áform um neðansjávargöng birtust enn sögur af sama tagi, en nú um það að Frakkar væru sjálfir vel á veg komnir að grafa leynigöng undir Ermarsund fyrir væntanlega innrás, og munu ýmsir reyndar hafa haft það fyrir satt. Einnig sömdu Englendingar sögur sem eru nákvæm spegilmynd af samsetningi Frakka, í einni þeirra, „Sjóræningjafélagið mikla“ (1899) tryggir nýtt leynivopn Engilsöxum endanlegan sigur yfir heimsbyggðinni, í lokin er svo komið að öll viðskipti erlendra þjóða á höfum úti eru úr sögunni, enginn hefur lengur bolmagn til að keppa við hin voldugu og ríku fyrirtæki Engilsaxa.

Eftir sáttmála Englendinga og Frakka 1904 sneru skriffinnar beggja þjóða sér alfarið að því að semja sögur um styrjöldina væntanlegu við Þjóðverja, og flæddu þá úr enskum pennum bækur eins og „Þegar hrægammurinn steypir sér“, „Meðan England svaf“ og „Innrásin sem tókst ekki“. Í slíkum sögum ber mjög á þýskum njósnurum sem sagðir eru hafa komið sér fyrir þúsundum ef ekki tugþúsundum saman um allt England, sumir þeirra áttu að vera þjálfaðir hermenn reiðubúnir að styðja innrásarherinn og með sérstaka hnappa svo fljótlegra væri að finna þá og virkja til þjónustu. Um þetta sannfærðust margir. En Þjóðverjar sem höfðu fram að því látið sér nægja að þýða slíkar sögur úr erlendum málum tóku til við að svara í sömu mynt, og sömdu sögur eins og „Heimsstyrjöldin í loftinu“ (1909) og „Endalok Englands árið 19??“ (1912).

Öll „þessi bókmenntastarfsemi“, ef svo er hægt að kalla hana, markaði stór spor á sínum tíma, því hún kom fram á sviðið þegar blaðaútgáfa var mjög að eflast og farin að ná til hins breiða fjölda. Þess vegna lék hún stórt hlutverk í þróun hugarfarsins á þeim rúmlega fjörutíu árum sem liðu frá einni styrjöld til annarrar, og má nefna til þess tvær ástæður sem voru reyndar samvirkandi. Annars vegar stuðluðu sögurnar að því að venja menn á að líta á ákveðnar þjóðir sem nánast eðlilega, jafnvel „náttúrulega“ óvini sem yrði að heyja stríð gegn fyrr eða síðar, því þær hefðu skítlegt eðli og væru ógnun við siðmenninguna. Til að sýna fram á nauðsyn þess var Darwin stundum kvaddur til þjónustu, og teiknarar lágu ekki á liði sínu við að gera þessa andskota sem ljótasta. En þannig hafði fyrri heimsstyrjöldin semsé verið háð og útkljáð margsinnis á prenti áður en hún skall á í raun og veru.

Hins vegar kom til sögunnar undarleg gloppa í þessum ritsmíðum, mikill skortur á ímyndunarafli: þótt hugarflugið væri stundum nóg til að lýsa nýjum og áður óþekktum vopnum framtíðarinnar, gat varla nokkur höfundur ímyndað sér þær ógnir og skelfingar sem kynnu að bíða manna í „stríðinu í framtíðinni“, og enginn þeirra sem dunduðu sér við að teikna nýju vopnin til að myndskreyta sögurnar gat það heldur; enginn sá fyrir allar þær hörmungar sem kynnu að vera í vændum, heilar þjóðir undir stríðsfánum, skotgrafahernað í leðju og kulda, kafbátahernað sem hlífði ekki venjulegum farþegaskipum fullum af óbreyttum borgurum, ný vopn eins og skriðdreka og langdrægar byssur að verki í raunveruleika vígvallanna, mannfórnir til einskis, endalausar skrár yfir fallna menn og gjöreyðing víðáttumikilla landsvæða. Enginn sá fyrir það sem kvikmyndahöfundur sýndi að stríðinu loknu í upphafi myndarinnar „Skothríðin“ (sem gerð var eftir samnefndri sögu Henris Barbusse): hóp ungra og glæsilegra manna sem standa í hermannaklæðum í fylkingu á víðum velli, og strax á eftir sama völlinn þakinn hvítum trékrossum.

Menn gerðu ráð fyrir því sem sjálfsögðum hlut að næsta styrjöld hlyti að verða háð eins og þær styrjaldir sem menn þekktu – eða kannske eins og þær hugmyndir sem menn gerðu sér um þá atburði – stríðsaðilar héldu á vissan hátt aftur af sér, sýndu riddaramennsku, óbreyttum borgurum og þeirra byggðum yrði hlíft, og annað eftir því. Þegar Conan Doyle birti smásögu þar sem hann lýsti ótakmörkuðum kafbátahernaði líkt því sem gerðist síðan í raun og veru risu menn upp hvarvetna, ekki síst í hernum, og sögðu: Þetta getur ekki gerst, enginn herforingi myndi gefa slíkar fyrirskipanir. Enda var lítið mark tekið á sögunni. Flestir töldu líka að vegna nýjunga í vopnasmíðum hlyti framtíðarstríðið að verða stutt, það yrði kannske útkljáð í einni eða tveimur stórorustum. Auk þess trúðu margir því að sú mikla siðfágun sem orðið hefði á síðustu tímum myndi einnig móta hermennskuna. Í flestum stríðssögunum var aðaláhersla lögð á fórnfýsi og hetjudáðir einstaklinga og rómantíska herfrægð, eins og í sögum af styrjöldum fyrri tíma, og myndskreytingarnar lögðu áherslu á þá hlið hermennskunnar. Einn þeirra sárafáu sem gerði sér nokkra grein fyrir því hvað kynni að vera í vændum var H.G. Wells í sögum eins og „Stríðið í loftinu“. Hann gekk reyndar lengra, svo það virkar jafnvel óhugnanlega. Í sögunni „The World Set Free“, sem kom út 1914, ímyndar hann sér kjarnorkustyrjöld, sem hann lætur gerast árið 1959, og býr þá til nýyrði í enskri tungu sem reyndist eiga nokkra framtíð fyrir sér: „the atomic bomb“. En hann var rödd hrópandans í eyðimörkinni.

Þetta hafði mikil áhrif á andrúmsloftið í Vesturálfu; þótt menn byggjust kannske við styrjöld í nálægri framtíð óttuðust þeir hana ekki svo mjög, kannske vildu þeir að hún léti ekki bíða of lengi eftir sér. Sumir voru reyndar sannfærðir um að Evrópuþjóðirnar væru nú komnar á svo hátt menningarstig að stríð milli þeirra væri framvegis óhugsandi. Svo voru haldnar „friðarráðstefnur“ og bundu ýmsir vonir sínar við þær, en það er til marks um óheilindin að fyrir þeim stóð einkum og sér í lagi Rússakeisari, og fyrir honum vakti það eitt að tefja vígbúnað annarra þjóða; leit hann svo að Rússar væru farnir að dragast aftur úr á þessu sviði og vildi fá svigrúm til að jafna metin. Þetta undirferli var í rauninni illur forboði þess sem átti eftir að gerast sumarið 1914.

Það hugarfar sem spratt upp af lestri þessa bókaflóðs afsakar þó engan veginn hin örlagaríku axarsköft ráðamanna sumarið 1914, sá kostur var jafnan fyrir hendi að slökkva neistann áður en hann yrði að óviðráðanlegum skógareldi, og svo má heldur ekki gleyma því að það skiptir miklu máli, bæði fyrir nálæga og fjarlægari framtíð, hvenær styrjöld skellur á og í hvaða stöðu.

Þótt menn byggjust við því að stríðið yrði stutt, gerðu glöggir menn sér grein fyrir því að nú voru þáttaskil í sögu álfunnar. Dæmi um það er kvæðið „Litli bíllinn“ eftir Guillaume Apollinaire, sem mun hafa verið ort áður en skáldið gekk í herinn, í apríl 1915. Þar segir meðal annars (og er rétt að geta þess að dagsetningin í byrjun er vitlaus, hún á að vera 31. júlí; hafa margar kynslóðir bókmenntafræðinga gengið sér til húðar í glímunni við þessa gátu, án árangurs hingað til):

31. dag ágústmánaðar 1914
lagði ég af stað frá Deauville skömmu fyrir miðnætti
í litla bílnum hans Rouveyre (…)

við kvöddum heilt tímabil
óðir risar hófu sig yfir Evrópu
gráðugir fiskar risu upp úr djúpunum
þjóðirnar komu hlaupandi til að kynnast út í æsar
hinir dauðu skulfu af ótta í sínum myrku vistarverum (…)

Og þegar við komum til Parísar (…)
um leið og festar voru upp tilkynningar um herútboð
þá skildum við félagi minn og ég
að litli bíllinn hafði borið okkur inn í nýtt tímabil
og þótt við værum báðir fullþroska menn
vorum við samt nýfæddir.

Kannske finnst mönnum íslenski þáttur verksins fróðlegastur, enda er hann að verulegu leyti óplægður akur. Þar kennir margra grasa, og fannst mér ekki síst markvert að lesa um tillögur Sveins Björnssonar um „almenna dýrtíðarhjálp“ á alþingi 1915 og deilurnar kringum þær (bls. 199–203). Hugmyndin var sú að veita hverri fimm manna fjölskyldu sem á hjálp þyrfti að halda einar 80 krónur og fjármagna þessar greiðslur með útflutningsgjaldi á kjöt, ull og fisk og fleiri vörur. En þessi tillaga olli miklu fjaðrafoki í þingsölum, þingmenn bænda risu upp og mótmæltu harðlega, einn þeirra hvatti þéttbýlisbúa einfaldlega til að spara og kaupa ódýrar vörur og bætti við: „Það er fallegri og mennilegri aðferð, en að fara í vasa annarra og lifa af þeim.“ Hann sagði að sá hugsunarháttur virtist búa að baki tillögunni „að best sé að ala hér upp ósjálfbjarga ómenni“.

Annar þingmaður, og prestur að auki, bætti um betur og sagði að ef hlaupið yrði undir bagga með kaupstaðarbúum ykist enn meir aðstreymið í þéttbýlið, þar sem „aðgerðarleysið drottnar“, síðan lýsti hann því sem gerast myndi með svofelldum orðum: „Menn myndu hugsa sem svo: Við skulum fara til Reykjavíkur eða Akureyrar, þá fáum við svo eða svo mikið ókeypis, og þurfum ekkert fyrir lífinu að hafa.“ Affarasælast sé „að hver bjargi sér sem hann er maður til, án þess að þiggja beinar gjafir“, ella drægi úr „siðferðisþreki“ þjóðarinnar og „sjálfsbjörgunarfýsn“.

Afskaplega hljómar þetta nú kunnuglega á vorri frjálshyggjuöld. Voru þarna á ferð gamlir bændafordómar eða var þetta fagnaðarerindi „auðfræðinnar“? Sennilega hvort tveggja. En mér varð hugsað til ömmu minnar, bláfátækrar verkamannskonu í stöðugum skugga atvinnuleysisins, sem var svo heppin að systir hennar var gift bónda í Þingeyjarsýslu, því gat hún sent yngstu dóttur sína þangað til að létta á ómegðinni.

Þessi íslenski þáttur verksins er ekki síður fjörlega skrifaður en hinn erlendi, en stundum sækir að lesandanum sú hugsun að hann vildi fá meira að heyra, kannske meira efni úr bréfum íslenskra hermanna á vígvellinum, viðbætur við þetta hljómmikla „Whiss-bang, whissbang, whiss-bang“ sem einn þeirra heyrði svo skýrt. Og svo saknaði ég þess mjög að ekki skyldi meira fjallað um hinn stórmerka kvæðabálk „Vígslóða“ eftir Stephan G. og deilurnar kringum hann. Ekki væri vanþörf á að gefa hann út aftur, helst með ítarlegum formála og skýringum, því margt er um hann að segja. Mér hefur t.d. dottið í hug að heiti upphafskvæðisins „Ræfladans“ sé þýðing Stephans á „ragtime“; ef sú tilgáta er rétt kynni það að varpa nokkru ljósi á kvæðið. En það er önnur saga. Þökkum Gunnari Þór Bjarnasyni fyrir ágætt verk.

Einar Már Jónsson