BólSteinunn Sigurðardóttir: Ból.

Mál og menning, 2023. 206 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar. 1. hefti 2024.

Skömmu fyrir jól ræddi Tómas Ævar Ólafsson við skáldið Sjón í útvarpsþættinum Víðsjá um leyndarmál. „Það er gaman að eiga leyndarmál og ég held að það sé nauðsynlegt manneskjunni að eiga leyndarmál,“[1] sagði Sjón í þætti sem helgaður var bókmenntaleyndarmálum. Vanalega myndi ég ekki hefja umfjöllun um íslenska skáldsögu á tilvitnun í annan íslenskan höfund en að heyra þessi orð falla af vörum Sjóns á sama tíma og ég var djúpt sokkinn í skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, Ból, fannst mér einkar viðeigandi. Leyndarmál eru manneskjunni kannski nauðsynleg en þau eru þó alls ekki öll skemmtileg og geta beinlínis verið hættuleg eins og skáldsaga Steinunnar ber vitni. En komum betur að því síðar.

Steinunn Sigurðardóttir er fyrir löngu orðin einn af hornsteinum íslenskra bókmennta og verk hennar hafa notið fádæma viðurkenningar innan sem utan landsteinanna. Um vinsældir hennar sem höfundar þarf því vart að tíunda en eitt af því sem er athyglisvert er að Steinunn er síður en svo að hægja á sér nú þegar hún er komin vel inn í síðari hálfleik ferilsins heldur virðist hún ætla að gefa í og hefur á undanförnum árum sent frá sér hverja bókina á fætur annarri sem sumar hverjar eru með hennar bestu verkum. Ból er fjórtánda útgefna skáldsaga Steinunnar og hlaut nýverið Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka.

Í Bóli segir frá bókmenntaþýðandanum Líneik Hjálmsdóttur, kölluð LínLín, sem hefur „stigið ölduna í stórsjó lífsins og stendur enn keik“, eins og segir í káputexta. Frásagnarmáti skáldsögunnar sver sig í ætt við mörg fyrri verk Steinunnar, en sagan er sögð í fyrstu persónu eintölu frá sjónarhorni Líneikar og fjallar um þemu sem Steinunn hefur fengist við allan sinn feril; ástina, sorgina, lífið og dauðann. Ból er ekki löng bók, rétt rúmar tvöhundruð síður, en hér er þó á ferðinni skáldsaga sem er bæði stærri og dýpri en síðufjöldinn gefur til kynna, sannkallað stórvirki. Maður finnur það nefnilega við lestur Bóls að hér skrifar höfundur á hátindi ferils síns, skáld sem hefur fullkomin tök á bæði stíl og uppbyggingu. Þetta er jafnframt bók sem maður les hægt, því jafnvel þótt framvindan sé spennandi þá er hver síða svo hlaðin orðkynngi og prósinn svo lifandi að lesandi verður að hægja á sér til að missa ekki þráðinn.

 

Orðkynngi Steinunnar Sigurðardóttur

Eitt af höfundareinkennum Steinunnar Sigurðardóttur er leikur hennar að tungumálinu. Í Bóli er leikurinn með mesta móti enda er sögukonan Líneik bókmenntaþýðandi og því vön að fást við tungumálið frá degi til dags. Líneik er sífellt að finna upp nýyrði með því að skeyta saman ólíkum orðum eða búa til viðurnefni á fólk og hluti, en fram kemur að hún hafi erft þennan áhuga á orðum og orðatiltækjum frá foreldrum sínum. Þessi nýyrði tengjast ýmsum hugðarefnum Líneikar á borð við ástina og sorgina og má þar nefna orð eins og sorgarfylgja, sorgardyr og jöklasorg, en einnig orð eins og núllskúr, örlagablettir, hálfbarn og hálfmóðir, framtíðarból og ýmis fleiri sem vonandi munu eignast framhaldslíf í tungumálinu.

Þá má einnig finna í Bóli margar áhugaverðar vangaveltur um hlutverk bókmennta og þýðinga og reglulega birtast tilvitnanir í ýmsa bókmenntatexta á frummálinu svo lesendur sem eru ekki jafn vel að sér í heimstungunum og Líneik þurfa ef til vill að grípa til orðabóka ef þeir vilja átta sig fullkomlega á samhenginu. Þá bíður Steinunn lesendum einnig að taka virkan þátt í þýðingarstarfi Líneikar og setur fram dæmi um setningu sem Líneik hefur reynst ómögulegt að snara yfir á hið ástkæra ylhýra, ef til vill mun einhverjum þykja gaman að spreyta sig á því.

 

Sögukona á tímamótum

Við upphaf Bóls stendur sögukonan Líneik á tímamótum. Hún er nýlega búin að ná sér af alvarlegu krabbameini en nú ógnar náttúran sælureit hennar í lífinu, þegar eldfjallið Bálkur rumskar á einhvers staðar fyrir austan fjall í návígi við sumarhúsin tvö, Sæluból og Stjörnusel, sem foreldrar hennar byggðu og nostruðu við fram á síðasta dag. Bókin hefst á því að Líneik leggur af stað í leiðangur til að vitja Bóls og Sels, þvert á ráðleggingar almannavarna sem hafa bannað alla umferð á svæðinu eftir að hafa ráðfært sig við eldfjallafræðinginn Finn Hannesson. [2] Er Líneik leggur af stað í ferðalagið tekur hún að rifja upp ýmsa atburði úr fortíðinni sem hafa mótað hana og í ljós kemur að sögukonan hefur marga fjöruna sopið. Líneik hefur upplifað mörg áföll í lífi sínu en auk krabbameinsins syrgir hún ýmsa látna ástvini, báða foreldra sína, ömmur sínar tvær og dóttur sína Ásu sem lést í slysi aðeins 19 ára gömul. Hún syrgir líka æskuástina Hansa, fyrsta kærastann sem fór frá henni fyrir aðra stúlku, og æskuvininn Brjánsa, sem féll fyrir eigin hendi ungur að árum.

En þótt Líneik virðist standa keik og hnarreist gegn þessum áföllum verður strax ljóst að hún er ekki búin að vinna úr þeim. Hún dvelur í harminum og leyfir sorginni að móta líf sitt á sama tíma og hún horfist í augu við dauðann. Líneik er áhugaverð og vel skrifuð persóna og virkar einkar vel sem sögumaður. Steinunn byggir söguna fagmannlega upp, rödd Líneikar er einkennandi en ekki yfirþyrmandi, og á sama tíma og hún talar opinskátt um harm sinn finnur lesandi strax fyrir því að undir niðri kraumar baksaga sem drífur sögukonuna áfram í leiðangri sínum. Líneik er spennandi karakterstúdía því þótt hún sé skörungur sem býður lífinu birginn er hún svo mótuð af áföllum sínum að hún gerir sér ekki grein fyrir því hversu fullkomlega harmurinn stjórnar lífi hennar og samskiptum við annað fólk. Raunar virðist hún trúa því að það sé ekki einu sinni hægt að vinna úr áföllum:

[…] við vinnum ekki úr neinu, síst af öllu úr sorgum sem blandast og margfaldast fyrri missi og missi og missi, þetta situr sem fastast, bringuklumpur sem gerir ekki annað en að þyngjast, og þrykkir okkur að lokum alla leið niður – í langþráða endastöð úrvinda sálar og líkama. (bls. 31)

Áföllin og viðleitni Líneikar til að grafa þau í fortíðinni gerir það einnig að verkum að sem sögumaður er hún hálfóáreiðanleg og lesandi fær reglulega á tilfinninguna að ekki sé öll sagan sögð.

 

Vistsorg og loftslagsvá

Tengsl manns og náttúru eru þekkt stef í verkum Steinunnar Sigurðardóttir og í Bóli dvelur hún á svipuðum slóðum og í ljóðabókinni Dimmumót frá 2019 þar sem hún orti um loftslagsvá og bráðnun jökla. Drífandi forsenda leiðangursins sem Líneik heldur í við upphaf skáldsögunnar er náttúruváin sem steðjar að sælureit hennar, eldgosið sem ógnar sumarhúsunum Bóli og Seli. Hér skrifar Steinunn beint inn í íslenskan samtíma en á undanförnum þremur árum hafa átt sér stað sex eldgos á Reykjanesi sem ollu því meðal annars að allir Grindvíkingar neyddust til að flýja heimili sín og hraun flæddi yfir nokkur hús í bænum. Tímasetningin á útgáfu Bóls gæti því vart verið meira viðeigandi en bókin kom út í nóvember 2023, nokkrum mánuðum eftir að eldgosi lauk við Litla- Hrút og mánuði áður en eldgos hófst við Sundhnúkagíga. Líneik syrgir sælureitinn sinn jafnvel þótt hann sé enn ekki horfinn undir hraun, rétt eins maður syrgir ástvin sem þjáist af lífshættulegum sjúkdómi en tórir enn. Í huga Líneikar er sælureiturinn síðasta haldreipi hennar í lífinu, síðasta tenging hennar við fortíðina og æskuna, og smám saman kemur í ljós að hún ætlar sér ekki að lifa tortímingu sælureitsins eins og ýjað er að í samtali Líneikar og vinkonu hennar Þyríar:

 

Þyrí vöknar um augu og hún horfir á mig eins og sjúkling í síðustu legu. Svo segir hún allt í einu:

„Þú ferð ekki að gera neinar vitleysur, er það?“

„Bíddu. Eins og hvað?“

„Eins og að gefast upp.“

„Ég verð náttúrlega að gefast upp fyrir því að það er spurning um fáeinar vikur þangað til allt mitt yndi hverfur, mín ástæða til þess að skrimta, allt sem ég á eftir í heiminum.“ (bls. 90)

 

Samhliða því sem loftslagsvandinn hefur orðið sífellt meira aðkallandi vandamál höfum við þurft að móta sífellt fleiri hugtök til að lýsa þeim gjörbreyttu aðstæðum sem mannkynið stendur nú frammi fyrir og áhrifunum á tilfinningalíf þess. Loftslagskvíði er eitt þeirra hugtaka sem hefur verið áberandi í bæði pólitískri og samfélagslegri orðræðu síðustu ára. Það er vel hægt að hugsa sér að sögukona Bóls, Líneik, þjáist af loftslagskvíða en hugtak sem á ef til vill betur við um tilfinningalíf hennar er það sem á ensku útleggst sem ecological grief og hefur verið þýtt sem vistsorg. Líneik syrgir umhverfi sitt, sælureitinn í sveitinni, en hún syrgir líka framtíðina sem hún veit að mun einkennast af missi er viðkemur náttúrunni og vistkerfinu. Slík vistsorg kemur fram strax við upphaf skáldsögunnar er Líneik lítur í átt til Snæfellsjökuls við upphaf leiðangurs síns og skapar hugrenningatengsl við áðurnefnda ljóðabók höfundar, Dimmumót:

Eftir fáeina áratugi, kannski ekki einu sinni mannsaldur, verður þessi hvíta ljóskeila slokknuð og skuggagrjótið mun ríkja. Og manneskjurnar sem þá fæðast, eftir þá stuttu stund, munu aldrei kynnast birtuhöfðingjanum nema af afspurn. Jafnvel söknuðurinn eftir honum verður frá þeim tekinn. (bls. 11)

 

Persónur og leikendur

Auk sögukonunnar Líneikar er Ból uppfull af áhugaverðum aukapersónum sem eru misfyrirferðarmiklar. Þar má til dæmis nefna séntilmennið Skúla, æskuvin Líneikar og starfsbróður, sem þrátt fyrir að vera hennar nánasti vinur síðan í gagnfræðaskóla er svo prívat manneskja að eftir margra áratuga vináttu veit Líneik enn ekki hvort hann laðast að konum, körlum eða bara fólki yfirhöfuð. Vinkona Líneikar, Þyrí, kemur einnig við sögu en er þó ívið veigaminni en Skúli og ekki jafn áhugaverð sem persóna, ef til vill af því hún fær ekki sama pláss og hann. Á meðan Skúli birtist sem jafnoki Líneikar og eins konar spegilmynd hennar, maður sem fæst við sama starf og hún en lifir töluvert hæglátara og fágaðra lífi, virðist Þyrí einna helst þjóna þeim tilgangi í sögunni að vera eins konar burðarsúla fyrir persónuþroska Líneikar með því að aðstoða hana við að ná fram markmiðum sínum.

Það er meðal annars í samskiptum Líneikar við vini sína sem skapgerðarbrestir hennar koma í ljós og þráhyggja hennar fyrir því að stjórna því hvaða upplýsingum hún deilir með hverjum. Eins og áður sagði hefur Líneik mátt upplifa mörg áföll og það er greinilegt að hún hefur vanist því að bera harm sinn í hljóði eins og sönnum Íslendingi sæmir. Ef til vill á þetta rætur sínar að rekja til fyrsta stóra áfallsins í lífi Líneikar, dauða vinar hennar Brjánsa, sem fyrirfór sér vegna alvarlegra andlegra veikinda er þau vinirnir voru í menntaskóla. „Og dauði hans þvílíkt högg á óreyndar sálir okkar vinanna að við nefndum hann ekki á nafn. Sögðum HANN þá sjaldan það kom glufa á sorgardyrnar. Ekki Brjánsi.“ (bls. 108)

 

Óheillavænleg bjargráð

Bjargráð Líneikar frá unga aldri er sumsé það að ræða ekki áföll sín heldur læsa þau niðri í skúffu bæði í táknrænum og bókstaflegum skilningi en fram kemur að hún hafi læst sjálfsvígsbréf Brjánsa niður í svartri smákistu ásamt dagbókarfærslu sem hún skrifaði um samband sitt og æskuástarinnar Hansa. Líneik heldur sorgum sínum einnig frá fjölskyldunni og læsir leyndarmálin djúpt niðri í skúmaskotum sálarinnar. Tvískinnungurinn birtist skýrt þegar hún hneykslast á vinkonu sinni Þyrí fyrir að hafa ekki sagt sér frá þungunarrofi sem hún gekkst undir jafnvel þótt Líneik hafi sjálf ekki sagt Þyrí, og raunar ekki nokkurri sálu, frá þungunarrofi sem hún gekkst sjálf undir og kostaði hana hjónabandið.

Leynidýr getum við verið. Núna segir hún mér þetta, eftir öll okkar samtöl, allan okkar trúnað. Ég hefði haldið að það gæti varla verið eitt atriði í hennar lífi sem máli skipti og ég vissi ekki um. Þarna sérðu, hefði mamma sagt. En hún fær ekki að frétta um mína fóstureyðingu og afleiðingarnar. Og enginn annar fær að frétta það. (bls. 96–97)

Svo virðist sem Líneik telji sig hafa rétt á því að vita allt um tilfinningalíf vina sinna og vandamanna en telji þau ekki þess verðug að vita neitt um hennar innra líf. Þetta er furðuleg hræsni sem ef til vill verður aðeins útskýrð með djúpri sálgreiningu. Líneik virðist líta á sig sem eins konar hliðarvörð leyndarmála og sem slíkur hafi hún fullt vald til að skilgreina og vernda, ekki aðeins sín eigin áföll, heldur einnig áföll fólksins í kringum hana. Höfundur hefur skilið eftir skemmtilega táknmynd fyrir þennan skapgerðarbrest Líneikar í formi skiltis sem sögukonan reisti upp við afleggjarann að sælureitnum sem á stendur „Private. No trespassing.“ og gæti allt eins átt við um veggina sem Líneik hefur reist í kringum sálarlíf sitt.

 

Lífshættuleg leyndarmál

Áhugaverðasta samband Bóls er án efa samband Líneikar við þríhyrninginn sem samanstendur af móður hennar, föður hennar, og fjölskylduvininum Eyjólfi. Uppgjör Líneikar við fortíðina og minningu foreldra sinna sem á sér stað um miðbik bókar er einn sterkasti hluti frásagnarinnar en erfitt er að fara nánar út í það án þess að spilla söguþræðinum. Í seinni hluta Bóls eru tvö djúpstæð áföll úr baksögu Líneikar afhjúpuð og gerir höfundur það einkar smekklega þannig að í stað þess að þau séu meðhöndluð sem eins konar söguflétta (e. plot twist) þá er afhjúpunin til þess fallin að draga enn betur fram í dagsljósið harm Líneikar og áhrif hans á persónu hennar. Lýsingarnar á því hvernig Líneik reynir að þurrka út verksummerki sorgarinnar og leyndarmálanna með því að farga munum Ásu dóttur sinnar (bls. 74) og tæta í sundur ljósmynd frá pabba sínum (bls. 129) eru sérstaklega sláandi.

Þegar baksaga Líneikar er skoðuð kemur í ljós að með því að dvelja í harminum hefur hún að vissu leyti staðnað í þroska, hún er til dæmis með þráhyggju gagnvart ástarsambandi sem hún átti í sem unglingur, eitthvað sem margir myndu kannski líta á sem bernskubrek, en Líneik lítur ennþá á sem OFURÁSTINA í lífi sínu. Þá gerir leynimakkið sem hún stundar það að verkum að hún fær aldrei annað sjónarhorn á harm sinn heldur er ævinlega föst með ekkann í brjóstinu án þess að hleypa honum út. Eins og við þekkjum úr sálfræðinni þá eiga áföll sem grafin hafa verið niður það til að leita upp á yfirborðið, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Líneik upplifir þetta á eigin skinni þegar hún lendir óvænt í því að kjafta leyndarmáli sem hún hafði ætlað að taka með sér í gröfina í Eyjólf. Samtali Líneikar og Eyjó er dreift yfir bókina og mætti lýsa sem uppgjöri sögukonunnar við fortíðina. Á einum stað hittir Eyjó naglann á höfuðið og kjarnar á vissan hátt bæði óskrifaðar lífsreglur Líneikar og boðskap skáldsögunnar.

Að leyndarmál sem fólk veit ekki um geti gert útaf við það, valdið sjúkdómum, valdið óáran. Að við séum alla tíð börn eins og börnin, skynjum allt og skiljum ekkert. Okkur fer svo miklu meira á milli en augað nemur meðvitað, eyrað, míkróskilaboð, svipbrigði, jú við erum sérfræðingar í að leyna, en fullkomnun náum við engan veginn í því, það er í rauninni ekki hægt að leyna, og þeir sem eru okkur nánir, og jafnvel fleiri, þeir nema það sem er á bak við látæðið. Þótt þeir gætu með engu móti komið uppgötvun sinni í orð. Og vitneskjan mallar í vitundinni, svo djúpt að hún er óínáanleg, og veldur órekjanlegum hervirkjum á sál og líkama. (bls. 166–167)

Jafnvel þótt Líneik öðlist annað sjónarhorn eftir að hafa deilt leyndarmálinu með Eyjó og viðurkenni meira að segja að „sum leyndarmál geta þjarmað þannig að manneskjunni að þau drepi hana“ (bls. 185), verður henni ekki hnikað svo auðveldlega. Það þarf nánast guðlega íhlutun til að fá Líneik til að breyta um stefnu og í lok skáldsögunnar er enn ekki ljóst hvort hún mun öðlast þann skilning sem hún þarf til að geta losað sig við byrðina. Ból Steinunnar Sigurðardóttur er mögnuð og harmþrungin lýsing á því hvernig óuppgerð áföll og leyndarmál geta eitrað út frá sér og umvafið heilu æviskeiðin og heilu kynslóðirnar. Líneik Hjálmsdóttir er sannarlega áhugaverð og vel skrifuð sögupersóna sem er heillandi í þversögnum sínum og margbreytileika. Þrátt fyrir að Ból fjalli á yfirborðinu um leyndarmál þá fjallar hún þegar allt kemur til alls um sannleikann sem við sjáum ekki, eða neitum að sjá, jafnvel þótt hann blasi við okkur, því eins og Líneik segir undir lok bókar þá er það einmitt í eðli svo margra leyndarmála að þau „leynast ekki gramm“.

 

Þorvaldur S. Helgason

 

 

Tilvísanir

1 Tómas Ævar Ólafsson, „Bókmenntaleyndarmál“, Víðsjá, Rás 1, frumflutt 20.12.2023, sótt 26.12.2023.
2 Ef til vill er Finnur Hannesson vísun í Hannes Finnsson Skálholtsbiskup (1739–1796) sem skrifaði ritið Mannfækkun af hallærum hvar segir frá áhrifum hallæra á afkomu íslensku þjóðarinnar. Ritið var skrifað í kjölfar móðuharðindanna og hefur að geyma ýmsar frásagnir höfundar af náttúruhamförum, eldgosum og hungursneyðum allt frá landnámi til 18. aldar.