Allt sem rennurBergþóra Snæbjörnsdóttir, Allt sem rennur.

Benedikt, 2022. 158 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2023

 

Ljóðsögur, þar sem röð stuttra ljóða rekja tiltekna sögu eða samtengdar sögur, hafa verið nokkuð vinsæl bókmenntategund á undanförnum árum. Bergþóra Snæbjörnsdóttir er meðal þeirra skálda sem hafa náð sterkum tökum á þessu formi, og hún notar það til að kanna innstu myrkur sálarinnar og hráar hliðar mannlífsins. Í Flórída (2017) segir hún í ljóðum samtengdar sögur tveggja kvenna sem upplifa sig á jaðri samfélagsins, og í Allt sem rennur leitar hún aftur í ljóðsöguformið til að gefa innsýn í sögur kvenna sem uppfylla ekki væntingar samfélagsins um móðurhlutverkið og bregðast börnum sínum á einn eða annan hátt. Í millitíðinni gaf hún út skáldsöguna Svínshöfuð (2019), þar sem sjónum er beint að sársaukafullum fjölskyldumynstrum og samfélagslegri útskúfun. Allt sem rennur hlaut Maístjörnuna sem ljóðabók ársins 2022 en fyrir fyrri verk sín hefur Bergþóra þegar hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna.

Ljóðin í bókinni Allt sem rennur segja sögu, eða réttara sagt tengdar sögur um hringrásir vanrækslu og ofbeldis, sem eiga sér rætur í tengslaleysi mæðra og barna. Bergþóra heldur þar með áfram því verkefni sínu að draga upp á yfirborðið bældar og nöturlegar hliðar hins daglega veruleika allt í kringum okkur. Sjálf hefur hún sagt að hún sé alltaf með einum eða öðrum hætti að fjalla um það hversu óbærilegt sé að búa í samfélagi þar sem þeir sem mest þurfa á hjálp að halda njóti ekki verndar og þar sem ofbeldi er leyft að þrífast. [1] Eins og Gauti Kristmannsson hefur bent á þarf að lesa þessa ljóðabók oftar en einu sinni til að átta sig á því hvernig „tengingar persónanna læðast að innan um hrollvekjandi lýsingar á tilveru þeirra“, og hann lýsir því svo að við séum „jafnvel að fá eitthvert form félagslegs raunsæis í þessum þróttmiklu lýsingum á erfiðum aðstæðum þar sem persónurnar fá ekki ráðið við það verk að lifa“.[2] Það er þó ekki svo að með endurlestri verði auðvelt að raða ljóðunum í huganum niður í heildstæða línulega eða hringlaga frásögn. Bergþóra notar ljóðformið til að gefa sögunum þann eiginleika að smjúga jafnharðan úr greipum þeirra sem vilja ná á þeim föstu taki. Söguþráður verður þannig hluti af öllu því sem rennur, flýtur um, leysist upp og sekkur í þessum ljóðum.

Kaflar ljóðabókarinnar bera nöfn er vísa til þriggja kvenpersóna: Fjöru, hinnar fyrirlitlegu og stelpunnar sem breytti sér í fjall. En upphafs- og endaljóð bókarinnar leiða okkur á vit stærra samhengis án skynjanlegra takmarkana; þess sem franski rithöfundurinn Romain Rolland kallaði „úthafsdjúpa kennd“ (fr. sentiment océanique) og mætti lýsa sem tilfinningunni eða þránni eftir því sem er meira en maður sjálfur. Í huga Rollands tengdi þessi kennd okkur eilífðinni, og nú á tímum vistrýni virðist liggja beint við að tengja hana því sem er kallað hið meira en mennska. Í bók Bergþóru fer sú tenging fram í gegnum „allt sem rennur“ (50, 93, 158), eins konar „vatnafyrirbærafræði“3 þar sem líkaminn er skynjaður sem vatn og sjálfið er flæðandi fyrirbæri í gegnsósa heimi.

 

Móðirin og hafið

Fyrstu orð bókarinnar, „sú sem / fær vængi í söltu vatni“ (7), vekja upp hugarmyndir af sjósniglum á borð við sjóengla eða sjófiðrildi sem svífa um höfin fyrir tilstilli eins konar vængja og skilja að lokum leifar kuðunga sinna eftir á hafsbotni. Við fáum ekki að vita hver þessi „hún“ er, aðeins að „hún dó ung, var kreist eins og appelsína“ (8), en „líkami hennar er gagnsær“ líkt og líkami áðurnefndra sjósnigla, og eftir að hún „lendir í ánni“ fellur hún „til botns eins og kuðungur / skelin úr stáli og ryðguðu járni“ (7). Eins og kafari, manngerður kafbátur eða sjófiðrildi dregur þessi „hún“ okkur þannig með sér ofan í dýpið, til móts við árþúsundagömul jarðlög, á vit þess sem er meira en við sjálf.

Sigmund Freud vildi á sínum tíma skýra úthafsdjúpu kenndina sem Rolland velti vöngum yfir sem þrá eftir að renna aftur saman við móðurina, hverfa aftur til frumbernskunnar áður en sjálfið áttaði sig á því að það væri aðskilið móðurinni. [4] Sögur persónanna í Allt sem rennur má lesa slíkum sálfræðilegum lestri; þær þjást af trámatískum skorti á nánd. Stelpan sem breytti sér í fjall man lítið af bernsku sinni annað en tilfinninguna „að horfa niður stiga og heyra, öskur“ (117). Mamma hennar „gafst ekki upp á áfenginu“ (120) og litla systir hennar er tekin af þeim. Eins og með kartöflurnar sem mamma hennar ræktar er ljóst að „það vantaði næringu í jarðveginn“ (119) og munnur stelpunnar verður „dökkur klefi / sem þurfti að fylla“ (118). Hennar eigin dóttir er seinna tekin af henni á fæðingardeildinni og hún er send heim „með brjóstin full af mjólk / og gegnblautt bindi í netanærbuxum“ (130). Dóttir hennar, Fjara, á svo sem fullorðin í erfiðleikum með að takast á við móðurhlutverkið og í draumum finnur hún yngri son sinn „líflausan á botni sundlaugar“ þar sem hann „hefur sokkið til botns / eins og kuðungur“ (17). Þegar hún vaknar er hann hins vegar „skraufþurr“ (29), eins og hann sé að skrælna, á meðan sá eldri fer í gegnum lífið á hnefanum. Þriðja kvenpersónan, sú fyrirlitlega, er svo tilfinningalega svelt að græðgi hennar eru engin takmörk sett. Sonur hennar dregst inn í ofbeldi undirheima og heldur svo dauðahaldi í kærustu sína því hann „veit að hann mun bráðna án hennar“ (90).

Þessi sálfræðilegi skortur sem rennur frá móður til barna er hins vegar settur í stærra samhengi lífs og dauða í upphafsog lokaljóðunum. Sándor Ferenczi, einn af lærisveinum Freuds, útvíkkaði hugmyndina um þrána eftir að hverfa aftur í móðurkvið með hliðsjón af þróun tegundanna og heimfærði á mannkynið þrá eftir sjávarlífinu sem maðurinn spratt upp af, [5] þrá eftir að renna aftur inn í frumdjúpið þaðan sem við þróuðumst sem tegund. Og ef til vill er það einhvers konar erfðafræðileg meðvitund um þetta upphaf og þennan endi sem vísað er til þegar ljóðmælandi segir um sögupersónurnar í lokalínunum:

það er eins og hann viti
það er eins og hún viti
það er eins og þau viti
þau sem höfðu eitt sinn líkama en runnu
þar til þau sukku
samanhnipraður vefur í blárri skel
allt sem rennur

 

Kvenlegt flæði

Það er löng hefð fyrir því að líta á vökva og flæði sem kvenlegt afl og kvenlíkamann sem svæði symbíósu og flæðis sem endurskapa má í texta. Frægur er kaflinn um Molly Bloom í Ulysses eftir James Joyce, þar sem vitundarstreymi fer saman við flæði blóðs og þvags frá líkama hennar. Einnig má nefna hugmyndir franskra femínista um écriture feminine, þar sem hugmyndir um flæði kvenlíkamans eru yfirfærðar á skrif og stíl kvenna sem eins konar uppreisnarafl gegn hinu karllæga lögmáli. Slíkar kenningar má gagnrýna fyrir eðlishyggju og fyrir að leggja til grundvallar hefðbundna samsömun feðraveldisins milli líkama kvenna og (óvirkra) náttúrufyrirbæra. Astrida Neimanis bendir hins vegar á þá eiginleika vökva og flæðis að umbreytast og bera með sér eitthvað nýtt. Í því ljósi henta vísanir til vatns illa sem verkfæri kúgandi eðlishyggju. [6]

Í Allt sem rennur er kvenlíkaminn vettvangur flæðis (blóðs, útferðar, legvatns, brjóstamjólkur, tára), og þótt konurnar virðist litla stjórn hafa á því streymi verður ljóst að synirnir hafa það ekki heldur. Þvert á móti eru þeir á valdi kvennanna í lífi sínu og ofbeldið sem þeir grípa til breytir litlu um það. Stelpan sem breytti sér í fjall verður reyndar eins og fullkomið „landslag, náttúruafl“ (136) í kjölfar þess að hún missir barnið sitt frá sér. Jörðin sem við búum á er of stór til að við sjáum hana í raun og veru og á sama hátt hefur stelpan „hlaðið vegg úr holdi til að sjást ekki“ (105), hún vill vera „nægilega stór til að hverfa“ (112). Mistökin sem fólk í kringum hana gerir er að „gleyma að stelpan sé manneskja“ (136), að gera ráð fyrir að þetta náttúruafl sé óvirkt, stöðugt, eins og „formlaus, andlaus pollur“ (109). Líffræðingar og annað fræðafólk er í auknum mæli farið að líta svo á að allt efni hafi atbeina, að líffræðilegir ferlar séu skapandi afl og vistkerfi búi yfir vitsmunum (þekkingu, reynslu, ákvarðanatöku) og séu þannig fær um eins konar hugsun.7 Og jafnvel eftir að stelpan í ljóðinu hefur breytt sér í landslag „iðar hún af lífi“ undir niðri og „flæðir eins og vatnið“ (135). Þegar minnst varir getur hún látið til skarar skríða og þá ræður enginn við hana, ekki einu sinni „hermaður“ (139). Hún er „of stór“ (142).

 

Líkaminn sem vatn

Hermaðurinn sem verður fyrir óvæntri gagnárás stelpunnar er sonur þeirrar fyrirlitlegu og reynir að komast af með því að vera „vöðvastrákur“, „líkami hans, hver einasta eind / full af járni / blóðrauða frá ómunatíð“. Slíkur „hermaður“ sem og járnið, sem er unnið úr jörðu og notað í vopn sem drepa, eru erkióvinir jarðargyðjunnar í hefðbundnum vistfemínískum útópíum. [8] En þótt hans frumefni sé hið karlmannlega járn, sem við tengjum jafnan við hart og stöðugt efni, er það í samhengi ljóðsins hluti af öllu því sem rennur. Járn er eitt af algengustu frumefnum alheimsins, ekki aðeins er Jörðin að stórum hluta úr járni heldur er það nauðsynlegt lífverum. Með því að minna okkur á að mannverur eru samsettar úr ólífrænum efnum sem eiga sér mun lengri sögu en við draga ljóðin upp pósthúmaníska heimsmynd sem ögrar hefðbundnum skilningi á hinu mannlega [9] og þar sem áhersla er á flæði milli hins lífræna og ólífræna, milli hinna ýmsu lífsforma og einnig milli náttúru og menningar, umhverfis og sálarlífs.

Að mati Rachel Carson er fjöruborðið, þar sem grillir í frumupphaf okkar og „höfuðskepnurnar jörð og vatn mætast“, hinn fullkomni staður til að skynja hrynjandi slíkra „málamiðlana og átaka og eilífra breytinga“. [10] Stelpan sem breytti sér í fjall nefnir dóttur sína einmitt Fjöru og verður hún þannig eina nafngreinda sögupersónan í þessum ljóðum. Ólíkt frumaflinu móður sinni, sem var „villt kona sem gat ekki annast aðra“ (145) og lokaði sig á endanum af inni í sjálfri sér, skapar Fjara þrátt fyrir allt einhvers konar tengingu milli genginna og komandi kynslóða: „já, hérna liggur hann / afi ykkar”, segir hún við strákana sína við leiði fósturföður síns. Eins og til að staðfesta það að líkamleg tilvera okkar á þessari jörð er aðeins pása eða frestun flæðisins og hvert og eitt okkar því ætíð „þröskuldur bæði fortíðar og framtíðar“. [11]

Skúli Skúlason fullyrðir að „sú heimsmynd þar sem veröldin er hugsuð sem samfelldur ferill, veiti mun meira rými fyrir hinn sífellt skapandi veruleika lífsins, tilurð merkingar og gilda“. [12] Slík „ferlahugsun“ felur meðal annars í sér að líta á endalok og dauða (einstaklinga, tegunda, heima) sem eðlilegan (og jafnvel skapandi) hluta af eilífri hreyfingu alls sem er. Sem leiðir okkur aftur að áðurnefndri vatnafyrirbærafræði. Vatn þekur um 70% af yfirborði Jarðar og um 70% mannslíkamans er líka vatn en Neimanis bendir á að hugmyndin um vatnskennda (e. watery) líkama ögri samt sem áður hefðbundnum vestrænum skilningi á líkömum. Sem vatnskennd upplifum við okkur minna sem einangruð fyrirbæri og frekar sem úthafsókyrrð:

Ég er kraftmikill hvirfill sem leysist upp í flókinni, flæðandi hringrás. Bilið milli okkar og annarra er í senn jafn fjarlægt og frumhafið og nær en okkar eigin húð – leifar þessa sömu úthafsdjúpu byrjana hringsóla enn í gegnum okkur, doka tímabundið við sem þessi líkamlegi hlutur sem við köllum „minn“. Vatn er […] á undan okkur og handan okkar, en um leið þessi líkami hér og nú. [13]

Flæði er forsenda lífsins og lífið sjálft er flæði, en bókin Allt sem rennur sýnir hið stanslausa flæði barna úr mæðrum, flæði kynslóða, tegunda, frumefna ekki í neinu upphöfnu ljósi. Ljóðin flétta saman sögur af samfélagslegum og sálfræðilegum áföllum og arfi en gildi þeirra og uppreisn felst ekki síst í því að þau teygja sig um leið mun lengra og víðar. Meðal annars yfir í hið meira en mennska samhengi sem við munum aldrei ná að skilja þótt við teljum okkur stundum skynja það, til dæmis fyrir tilstilli listarinnar.

 

Auður Aðalsteinsdóttir

 

Tilvísanir

 1. „Óbærilegt að búa í samfélagi þar sem ofbeldi þrífst“, viðtal Egils Helgasonar við Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Kiljan, RÚV, 8. desember 2022, sótt af https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2022–12-08-obaerilegt-ad-bua-i-samfelagi-thar-semofbeldi-thrifst.
 2. Gauti Kristmannsson, „Harmur sem sum okkar eru svo heppin að sleppa við“, ritdómur um Allt sem rennur eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Víðsjá, Rás 1, 15. nóvember 2022, sótt af https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2022–11-15-harmur-sem-sum-okkar-eru-svo-heppin-adsleppa-vid.
 3. Hér leita ég í smiðju Idu Theilgaard og Tobias Skiveren sem tala um vatnsfyrirbærafræði í ljóðum frá áttunda áratug síðustu aldar, í greininni „Kropsmodernismen genbesögt. En nymaterialistisk revurdering af firserpoesien hos Henrik S. Holck og Pia Tafdrup“, Danske studier, 2021, bls. 170–192.
 4. Sigmund Freud, Das Unbehagen in der Kultur, Vín: Psychoanalytischer Verlag, 1930.
 5. Sándor Ferenczi, Thalassa. Versuch einer Genitaltheorie, Berlín: Internationaler Psychoanalytischer Verlag, 1924.
 6. Astrida Neimanis, „Hydrofeminism. Or, On Becoming a Body of Water“, Undutiful Daughters. Mobilizing Future Concepts, Bodies and Subjectivities in Feminist Thought and Practice, ritstj. Henriette Gunkel, Chrysanthi Nigianni og Fanny Söderbäck, New York: Palgrave Macmillan, 2012, bls. 96–115, hér bls. 101.
 7. Sbr. Skúla Skúlason, „Er syndin náttúruleg? Um mikilvægi heimsmynda og uppsprettu gilda“, Ritið 3/2020, bls. 141–178, hér bls. 162.
 8. Sbr. Val Plumwood, Feminism and the Mastery of Nature, Routledge, 1993, bls. 7.
 9. Sbr. Serpil Oppermann, „From Material to Posthuman Ecocriticism. Hybridity, Stories, Natures“, Handbook of Ecocriticism and Cultural Ecology, ritstj. Hubert Zapf, De Gruyter, 2016, bls. 273–294, hér bls. 275.
 10. Rachel Carson, The Edge of the Sea, Boston og New York: Houghton Miffin Company, 1998.
 11. Astrida Neimanis, „Hydrofeminism“, bls. 104.
 12. Skúli Skúlason, „Er syndin náttúruleg?“, bls. 162 og 158.
 13. Astrida Neimanis, „Hydrofeminism“, bls. 96.