Sverrir Norland: Kletturinn.

Reykjavík: JPV útgáfa 2023, 212 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2023

Sverrir Norland er greinilega með hugann við karlmennskuna þessa dagana. Undanfarin misseri hefur hann haldið fyrirlestra undir yfirskriftinni „Hinn fullkomni karlmaður“ þar sem hann fjallar um karlmennsku í samtímanum og í nýjustu bók sinni, skáldsögunni Klettinum, er karlmennskan einnig til umfjöllunar. Í þetta sinn beinir hann sjónum að vináttunni sem bindur karlmenn saman, eða jafnvel hlekkjar þá, fyrir lífstíð.

Sögumaður Klettsins er fjölskyldufaðirinn Einar, handritshöfundur um fertugt sem á þrjú börn með Emblu, framakonu í pólitík. Einar hefur svo gott sem gefið feril sinn sem handritshöfundur upp á bátinn til að annast heimilishaldið á meðan Embla klífur metorðastigann innan ónefnds stjórnmálaflokks sem hún situr á þingi fyrir. Einar er áhugaverður karakter og verðugur fulltrúi ákveðinnar menningarlegrar tilfærslu sem er að eiga sér stað hjá yngri kynslóðum. Fyrir einhverjum árum hefði það ef til vill þótt fyndið eða merki um beitta háðsádeilu að láta sögumann skáldsögu vera heimavinnandi húsföður sem straujar skyrtur eiginkonunnar áður en hún fer í sjónvarpsviðtal. Í dag er þetta þó veruleiki sem margir kannast eflaust við, þrátt fyrir að hann sé langt því frá normið. Sverrir skrifar Einar alls ekki sem fórnarlamb og það kemur skýrt fram í sögunni að hann hefur sjálfur ákveðið að vera heimavinnandi. Þó er augljóst að fjölskyldufyrirkomulagið er langt frá því sjálfsagt og strax í fyrsta kafla bókarinnar örlar á gremju hjá Einari þegar hann útskýrir fyrir barnungum sonum sínum af hverju hann sé ekki með fasta vinnu eins og pabbar vina þeirra:

„Mér finnst skrítið að þú sért ekki með alvöru vinnustarf, pabbi!“ sagði Úlfar. „Allir pabbarnir á leikskólanum nema þú eru með vinnustarf!“ Loks birtist græni karlinn og ég smalaði krökkunum pirraður yfir götuna um leið og ég sveif út úr líkamanum og fylgdist fullur vanþóknunar með sjálfum mér æpa á Úlfar: „Ég er með vinnustarf! Ég skrifa og passa ykkur, ókei?!“ (Bls. 11)

Þótt Einar sé á yfirborðinu „hinn fullkomni karlmaður“ kemur brátt í ljós að það örlar á brestum í hjónabandi þeirra Emblu, vegna glappaskots þeirrar síðarnefndu, auk þess sem það reynist krefjandi fyrir sjálfsmyndina að vera heimavinnandi húsfaðir.

Hinn bitri sannleikur var hins vegar sá að fæstir sóttust eftir hlutskipti mínu og þá allra síst aðrir karlmenn; ég sá vorkunn í augum þeirra frekar en aðdáun. Ég skammaðist mín fyrir að viðurkenna það en mér nægði alls ekki að vera einungis hinn fullkomni húsfaðir sem skipti fumlaust um bleyjur, hélt gluggakistum ryklausum og ræktaði grænkál úti í garði. (Bls. 47)

Þó er einnig ljóst að gremja Einars er djúpstæðari en bara það sem viðkemur stöðu hans innan fjölskyldunnar, því hann burðast með alvarlegt áfall sem hann hefur grafið djúpt niður í sálartetrinu undanfarin tuttugu ár. Áfallið tengist æskuvini hans, Ágústi eða Gúa, sem lést við voveiflegar aðstæður í útilegu í Hvalfirði skömmu eftir árþúsundamótin þegar þeir vinirnir voru nýútskrifaðir úr menntaskóla. Með þeim Einari og Gúa í útilegunni var sameiginlegur vinur þeirra, Brynjar, sem Einar hefur gert sitt allra besta til að útiloka úr lífi sínu. En þegar Einar rekst óvænt á Brynjar og unnustu hans, Tinu Birnu, á röltinu í almenningsgarði, og fær svo sama dag boðskort í fyrirhugað brúðkaup þeirra, ryðst fortíðin upp á yfirborðið svo hann neyðist til að horfast í augu við það sem gerðist í Hvalfirði. Það verður fljótt ljóst að á milli Einars og Brynjars er eitthvað óuppgert, sem sést skýrt á líkamlegum viðbrögðum Einars en hann hreinlega kastar upp fyrir framan börnin sín þegar hann rekst á þennan gamla félaga sinn. Það er þessi undirliggjandi spenna, fortíð Einars, sem Sverrir notfærir sér vel til að kynda undir framvindu Klettsins og skapar hin eiginlegu átök sögunnar. En áður en við snúum okkur að greiningu á dramatískri framvindu skáldsögunnar skulum við skoða persónugallerí bókarinnar.

 

Fulltrúar ólíkra stétta

Eins og áður sagði fjallar Kletturinn að miklu leyti um karlmennsku og vinasambönd karlmanna. Karlmennirnir þrír sem sagan hverfist um, Einar, Brynjar og Gúi, tákna hver um sig ákveðna týpu af karlmanni og eru einnig fulltrúar ólíkra stétta. Einar er fulltrúi lágstéttar; alinn upp í blokk í Breiðholti af fátækum foreldrum, Gúi er fulltrúi efri-millistéttar; kúltúrbarn menningarsinnaðra foreldra, alinn upp í einbýlishúsi í miðbænum, og Brynjar er fulltrúi hástéttar; forréttindabarn nýríkra foreldra, alinn upp í villu á Seltjarnarnesi. [1] Eða eins og sögumaður orðar það sjálfur:

Brynjar var sjálfsöruggi íþróttagaurinn (að minnsta kosti út á við), vinsæll og stefndi alltaf að því að verða „inspector scholae“ – forseti Skólafélagsins. Ágúst var í senn málóður og dulur og djúpskyggn, eins undarlega og það hljómar, en hann hafði engu að síður þægilega nærveru og fólk sóttist eftir félagsskap hans. Ég hagnaðist bæði félagslega og námslega á vináttu okkar þriggja en átti á sínum tíma erfiðara með að meta hvað dró þá að mér. Skil það þó betur í endursýn: ég var sá listræni. (Bls. 95)

Þá er áhugavert að sjá hvernig staða strákanna þriggja endurspeglast í feðrum þeirra sem þrátt fyrir að vera ekki stórar persónur í bókinni skína í gegn sem eins konar erkitýpur. Torfi, faðir Einars, er hinn klassíski íslenski braskari sem reynir árangurslaust að klífa metorðastigann með hverri misheppnaðri viðskiptahugmyndinni á fætur annarri. Arnar, faðir Gúa, er snobbaður háskólaprófessor sem telur það mikilvægasta í lífinu vera „Kynlíf, ferðalög, bókmenntir“ (bls. 57). Finnur, faðir Brynjars, er ríkur fjárfestir, fullur af lífskrafti, sem ver frítíma sínum í útivist með fjölskyldunni og neyðir fólk nánast til að brosa og hlæja.

Vinirnir tjá karlmennskuna hver með sínum hætti en það er þó ekki jafn auðvelt að flokka þá í erkitýpur eins og feðurna. Einar er að sumu leyti hinn „fullkomni nútímamaður“ sem telur ekki eftir sér að annast börnin á meðan eiginkonan fær rými til að fylgja sínum eigin draumum. En Einar er einnig þjakaður af ýmsum meinsemdum eitraðrar karlmennsku, svo sem að geta ekki talað um tilfinningar sínar og bera harm sinn í hljóði eins og „alvöru“ karlmaður af gamla skólanum. Auk þess litast sambönd hans við karlmennina í lífi sínu, svo sem föður hans og Brynjar, af ýmsum óheilbrigðum samskiptamynstrum.

Brynjar er á yfirborðinu fulltrúi hins hefðbundna fyrirmyndarmanns; jákvæður og sjálfsöruggur, og bæði myndarlegur og góður í íþróttum. Eins konar íslensk útgáfa af hinum „All American boy“ eða jock-erkitýpunni úr amerískri dægurmenningu. Síðar kemur þó í ljós að Brynjar er alls ekki hinn stereótýpíski sjomli heldur er hann að mörgu leyti tilfinningalega þroskaðri en æskuvinurinn Einar. Gúa mætti flokka sem hipsterinn í hópnum, dularfullur og listrænn ungur maður sem er félagslega opinn en býr yfir tilfinningalegri dýpt sem hann sýnir aðeins útvöldum. Gúi birtist lesendum þó aðeins í endurliti enda er hann látinn þegar sagan hefst og persóna hans litast því auðsjáanlega af þeirri sögulegu endurskoðun sem hinir látnu ganga gjarnan í gegnum. Það er til marks um góða persónusköpun höfundar að sögupersónur falla ekki beint inn í fyrrnefndar staðalmyndir vestrænnar dægurmenningar heldur brjóta skemmtilega upp á væntingar lesendans.

 

Karlar í krísu

Karlar í krísu eru klassískt viðfangsefni bókmennta og mætti færa rök fyrir því að mörg af þekktustu bókmenntaverkum okkar Íslendinga fjalli um þetta efni, svo sem Njála, Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness, 101 Reykjavík Hallgríms Helgasonar, Ör Auðar Övu og fjölmörg verk Gyrðis Elíassonar, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Yngri skáldsagnahöfundar hafa ekki farið varhluta af karlmennskunni og þeim breytingum sem hún hefur gengið í gegnum á 21. öldinni. Má þar nefna verk eins og Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson, Ólyfjan eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur, Stol eftir Björn Halldórsson, Stóru bókina um sjálfsvorkunn eftir Ingólf Eiríksson og Bróður eftir Halldór Armand. Síðast nefnda bókin er lykilverk í þessu samhengi því það mætti nánast segja að Kletturinn sé bróðurverk Bróður. Bæði fjalla þau um karlmenn á milli þrítugs og fertugs sem burðast með mikið áfall og, án þess að gefa of mikið upp, leyndarmál sem tengist mannsláti sem sögumennirnir urðu vitni að sem ungir menn. Bæði verk gerast á tveimur tímaplönum, annars vegar í nútímanum og hins vegar í upphafi hins nýja árþúsunds, og vísa þannig til þeirra stórstígu breytinga sem hafa orðið á íslensku samfélagi undanfarin tuttugu ár með góðæri, hruni og endurreisn. Bæði verk fjalla líka að miklu leyti um fjölskyldu- og vinasambönd karlmanna og það hvernig tilfinningalíf þeirra mótast af samfélaginu sem krefur þá um að vera duglegir og harka af sér en líka um að sýna mildi og tilfinninganæmi.

 

Spenna sem fjarar út

Kletturinn er mjög spennandi bók fyrstu tvo þriðju hluta framvindunnar. Sverrir setur sviðið fagmannlega upp, kynnir persónur og aðstæður til leiks og húkkar lesendur með spennandi forsendu; harmleiknum í útilegunni við Gúaklett, klettinn í Hvalfirði þar sem hinn ungi Ágúst hrapaði til bana. Sagan fer fram og aftur í tíma og á milli þess sem Einar reynir að takast á við hversdagslífið með fjölskyldu sinni fáum við endurlit til menntaskólaáranna sem varpa ljósi á vináttu hans við þá Brynjar og Gúa. Spennan nær hápunkti um miðbik bókar þegar Einar tekur hvatvísa ákvörðun, er fortíðin ryðst inn í líf hans, og brunar í Hvalfjörð til að leita uppi slóðir áfallsins í staðinn fyrir að sækja börnin sín í leikskólann, eiginkonunni til mikillar mæðu.

Þarna skrúfar Sverrir verulega upp í dramatíkinni og viðbúið er að lesendur gleypi í sig bókina til að komast að því hvað gerðist í útilegunni og hvert ætlunarverk Einars í Hvalfirði sé. En þótt risið sé spennandi þá er það ekki nógu vel til lykta leitt og það er eins og Sverri fatist örlítið flugið er kemur að hinu stóra uppgjöri Einars. Eftir að hulunni er svipt af því sem raunverulega átti sér stað á milli vinanna þriggja í Hvalfirði eru enn um 30 blaðsíður eftir af bókinni og jafnvel þótt þar komi fram mikilvægar upplýsingar sem setja sögupersónurnar í nýtt samhengi, þá virka þær eins og viðauki við söguna frekar en nauðsynlegur lokahnykkur. Lokakaflarnir eru því óneitanlega ákveðið spennufall eftir grípandi uppbygginguna sem á undan fer. Endirinn er svo nokkuð klisjukenndur og skilur lesanda eftir með „Allt er gott sem endar vel“-keim í munni sem stingur í stúf við dramatíska dýpt skáldsögunnar fram að því.

 

Óraunveruleiki annarra

Það sem Sverri tekst best í Klettinum er að skapa eftirminnilegar og áhugaverðar persónur og er samband drengjanna þriggja, Einars, Brynjars og Ágústs, það sem stendur upp úr í skáldsögunni. Af þeim er Einar flóknasti karakterinn. Jafnvel þótt hann sé sögumaðurinn og tilfinningalíf hans því í forgrunni er persóna hans samt ákveðin ráðgáta. Einar þjáist nefnilega af djúpum sálrænum kvillum sem hafa mótað hann sem einstakling. Auk þess að glíma við loddaralíðan á háu stigi upplifir hann sig aftengdan heiminum og fyllist á stundum óraunveruleikatilfinningu og óþoli gagnvart öðru fólki og umhverfinu í kringum sig.

Satt að segja leið mér oft eins og ég væri ekki alveg venjulegur. Eða eins og ég væri, nánar tiltekið, ekki fyllilega raunverulegur. Ég á erfitt með að lýsa þessu. Það sem ég get hins vegar vel útskýrt er sú einfalda staðreynd að ég bjó í höfðinu á mér. Þar leið mér best. Mikil samskipti við umheiminn fylltu mig „óraunveruleikatilfinningu“, eins mótsagnakennt og það kann að hljóma. Þá þurfti ég frið og ró með sjálfum mér til að endurheimta jarðtenginguna. Aðeins með því að hörfa inn í heiminn í höfðinu á mér tókst mér að gera heiminn í kringum mig raunverulegan. (Bls. 86–87)

Höfundur útskýrir aldrei fyllilega af hverju þessi upplifun Einars stafar en ljóst er að þetta hefur mikil áhrif á líf hans og litar öll samskipti hans við annað fólk. Það eina sem Einar upplifir fullkomlega raunverulegt er hans eigið innra líf sem gerir það að verkum að honum líður eins og annað fólk og hinn ytri heimur séu ekki fyllilega raunveruleg. [2] Eins og stundum vill verða er það sem við óttumst mest einnig það sem við þörfnumst mest, enda er það í gegnum tengsl Einars við annað fólk sem sálfræðileg endurreisn hans á sér stað. Í uppgjöri þeirra Brynjars undir lok bókarinnar horfist Einar loksins í augu við áfallið sem hefur markað hálfa ævi hans og leyfir sínum gamla vini að umvefja sig.

Hann tók utan um mig, hélt mér þéttingsfast. Eftir tuttugu ára fjarveru voru það fyrstu samskipti okkar: orðalaust faðmlag eins og þegar Gúi hvíldi með handleggina utan um mig í bílnum á leið í útileguna. Fyrst streittist ég á móti en svo fjaraði öll mótstaða út og ég grúfði andlitið upp að bringunni á þessum gamla vini mínum. Ég sendi frá mér kæfð hljóð með rödd sem ég þekkti varla. Hann var svo raunverulegur. (Bls. 172)

Þrátt fyrir dramatíska endurfundi er Einar þó greinilega ekki tilbúinn til að hleypa Brynjari aftur inn í líf sitt og þeir  halda hvor í sína áttina. Sverrir forðast þannig að sigla inn í algjöran Hollywood-endi og segir okkur þar með að jafnvel þótt sögumaðurinn neyðist til að gera upp við fortíðina og bresti sína, þá breytist hann ekki svo auðveldlega. Það er kannski einmitt þess vegna sem lokakafli bókarinnar, þar sem Einar strokar út söguna sem lesandinn hefur eytt síðustu tvö hundruð blaðsíðum í að lesa í viðleitni til að „halda áfram að lifa“ (bls. 208), virkar ekki fullkomlega sannfærandi. Því við sem lesendur vitum að Einar getur ekki þurrkað út fortíðina eins auðveldlega og maður þurrkar út textaskjal í tölvu.

Fortíðin lifir með okkur og mótar okkur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. En ef til vill er það viðleitnin sem gildir, viðleitnin til að hlúa að sjálfum sér og „[l]ýsa upp myrkrið innra með [s]ér“ (bls. 211).

 

Þorvaldur S. Helgason

 

 

Tilvísanir

  1. Hafa ber í huga að þar sem Einar er sögumaður skáldsögunnar eru lýsingarnar á hinum persónum bókarinnar frá honum komnar og litaðar af tilfinningum hans til þeirra.
  2. Það væri án efa áhugavert að greina persónu Einars út frá hugtökum sálfræðinnar og heimspekinnar en ég læt það þó eftir fróðara fræðafólki.