Steinunn G. Helgadóttir: Raddir úr húsi loftskeytamannsins.

JPV útgáfa, 2016.

Samfeðra.

JPV útgáfa, 2018.

Sterkasta kona í heimi.

JPV útgáfa, 2019.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020.

Raddir úr húsi loftskeytamannsins

Raddir úr húsi loftskeytamannsins (2016).

Þegar Steinunn G. Helgadóttir sendi frá sér skáldverkið Raddir úr húsi loftskeytamannsins árið 2016 varð ljóst að ný og spennandi rödd hafði kveðið sér hljóðs í íslenskum bókmenntum. Tveimur árum síðar kom bókin Samfeðra, sjálfstætt framhald fyrstu bókarinnar, og nýliðið haust sendi hún svo frá sér skáldsöguna Sterkasta kona í heimi. Með þessum þremur skáldverkum hefur Steinunn sýnt fram á að hún er meðal hugmyndaríkustu og skemmtilegustu prósahöfunda samtímans. „Veröldin er full af ónotuðum sögum,“ segir á bls. 21 í fyrstu bókinni og eru orðin lögð í munn loftskeytamannsins sem notar heimatilbúna tækni til að veiða sögur og senda þær frá sér í formi margra ólíkra radda sem berast lesendum bókarinnar. Sjálf er Steinunn söguveiðimaður af bestu gerð og kann þá list að koma feng sínum áfram til söguþyrstra lesenda.

Fyrri skáldsögurnar tvær

Í Röddum úr húsi loftskeytamannsins kynnumst við einrænum og félagsfælnum loftskeytamanni sem umgengst fátt fólk en á samskipi við fjölmarga á öldum ljósvakans. „Radíóið er [hans] leið til að taka þátt í fjölskrúðugu félagslífi án tilstandsins og óþægindanna sem fylgja líkamlegri nálægð,“ segir þar (8). En loftskeytamaðurinn er einnig rithöfundur sem hefur skrifað handrit að tveimur fullburða skáldsögum. Sú fyrri fjallar um ungan mann, Janus að nafni, sem kemst að því að hann á ellefu samfeðra hálfsystkin – öll ári eldri en hann – og hann heldur í hringferð um landið í þeim tilgangi að hafa uppi á þeim. Síðari sagan „er ástarsaga pilts og stúlku sem hittast í sumarbúðum fyrir unglinga með offituvandamál“ (12). Áður en loftskeytamaðurinn kemur skáldsögum sínum á prent koma þær út undir öðrum höfundarnöfnum. Það kemur honum að sjálfsögðu í opna skjöldu og veldur honum áfalli. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að sögunum hafi verið rænt með hugsanaflutningi og til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur ákveður hann að loka sig inni í 15 fermetra gluggalausum steinsteypukofa, „svokölluðu Faraday-búri til varnar utanaðkomandi bylgjum“ (21) og halda þar áfram skrifum sínum sumarlangt. Svo má skilja að það sé að mestu leyti afrakstur þeirrar einangrunardvalar sem birtist lesandanum í fyrstu bókinni. Í Samfeðra eru hins vegar birtar frásagnir úr fyrri skáldsögu loftskeytamannsins, eins og bókartitilinn ber vitni um, en reyndar eru nokkrar sögur úr því handriti einnig birtar í Raddir úr húsi loftskeytamannsins, sem og úr síðarnefnda handriti loftskeytamannsins, ástarsögu unglinganna sem áður var nefnd.

Samfeðra

Samfeðra (2018).

Formi þessara tveggja fyrstu skáldsagna Steinunnar mætti lýsa sem sagnasveig, hér eru frásagnir fjölmargra radda sem saman mynda hljómmikinn kór. Undir lok fyrri bókarinnar segir ein röddin: „Ég sé að ég segi óskipulega frá en við því er ekkert að gera. Enda hlýt ég að vera hafin yfir smásmugulega gagnrýni hvað varðar skipulag“ (281). Þessi orð mætti vel yfirfæra á aðferð höfundarins sem hér stýrir penna og frásagnaraðferðin gengur satt að segja mjög vel upp. Það styrkir hið brotakennda skipulag að margar sagnanna tengjast innbyrðis, við fáum jafnvel sömu söguna oftar en einu sinni frá ólíkum sjónarhornum. Frásagnir hinna ólíku radda fylgja ekki línulegum tíma, enda segir ein röddin: „Auk þess flakkar maður líka alltaf í tíma og rúmi þegar maður les eða hlustar á sögur […] Það er ekkert merkilegt við það“ (Raddir, 242).

Ytri tími flestra sagnanna er þó afmarkaður, þær gerast um miðjan áttunda áratuginn, nánar tiltekið 1974 sem er árið sem Janus heldur í ferðalagið um Ísland til að kynnast hálfsystkinum sínum. Með því að staðsetja sögurnar þannig í nýliðinni fortíð, fyrir tíma tölvuvæðingar og internets, og að auki að mestu leyti úti á landsbyggðinni, tekst Steinunni að skapa heim sem ekki er oft lýst í íslenskum samtímabókmenntum og er í senn kunnuglegur og framandi. Þar að auki dvelja sögupersónurnar langflestar á jaðri samfélagsins; þær tilheyra lægri lögum þess, eru ófélagslyndar, gjarnan einmana og jafnvel einkennilegar eða eiga sér sérkennileg áhugamál. Við þetta má bæta að sumar frásagnanna eru lagðar í munn framliðnum og jafnvel dýrum. Stíll Steinunnar er blæbrigðaríkur og myndrænn og leikið er á allt litróf tilfinninganna. Þótt þunglyndi svífi yfir vötnum í heimi margra sagnanna er húmorinn yfirleitt ekki langt undan og tekst höfundi mjög vel að draga upp bráðfyndnar smámyndir. Hér má til dæmis nefna hina skemmtilegu persónu Bigga tönn „sem vissi ekki einu sinni sjálfur hvenær hann sagði satt og hvenær ekki“ (Raddir, 73). Kostulegur lygaspuni hans gefur sögum baróns Munkhausens ekkert eftir.

 

Sterkasta kona heims

Sterkasta kona í heimi

Sterkasta kona í heimi (2019).

Í nýjustu skáldsögu sinni beitir Steinunn hefðbundnari frásagnartækni að því leyti að sagan snýst að mestu leyti um eina fjölskyldu, samskipti og samskiptaleysi fjölskyldumeðlima; móður sem á við geðhvörf að stríða, föður sem er ábyrgðarlaus og drykkfelldur og systkinin tvö, Eið og Gunnhildi. Eiður er eldri og heimilisaðstæðurnar hafa gert hann kvíðinn og áhyggjufullan. Honum er í mun að falla inn í hópinn og það lærir hann í skólanum: „Ég lærði að herma eftir því hvernig krakkarnir í kringum mig hugsuðu, töluðu og hegðuðu sér og áður en langt um leið heyrði ég þeirra orð koma úr munninum á mér. Til varð Eiður, strákurinn sem gat verið hver sem var“ (35).

Titill bókarinnar vísar til systurinnar, Gunnhildar. Hún er fædd með líkamlega ofurkrafta en flíkar þeim hæfileikum sínum ekki, þótt þeir komi að góðu gagni einstaka sinnum þegar hún er barn. Hún hefur gaman af förðun og kvikmyndum og hennar bestu stundir eru þegar hún fær að mála móður sína og þegar hún horfir á vídeóspólur með Eiði eða ein þegar hann er í skólanum: „við sjónvarpið sigldi hún inn í hvern sýndarveruleikann af öðrum með vinum sínum teiknimyndahetjunum og töframanninum“ (36). Töframaðurinn er Harry Houdini, „sem hún gat horft á endalaust um leið og hún reyndi að herma eftir“ honum (36). Bókin hefst á því þegar Gunnhildur, fullorðin, lætur fjötra sig og hlekkja og læsa inni í rammgerðum fangaklefa. Þaðan ætlar hún að gera tilraun til að losna af sjálfsdáðum – fremja undankomuatriði á borð við þau sem áðurnefndur töframaður var frægur fyrir. Gjörningur Gunnhildar er gerður í þágu ákveðins málstaðs og er áheitasöfnun. Hvort henni tekst ætlunarverkið eða ekki fær lesandinn ekki að vita fyrr en í bókarlok.

Líkt og oft vill verða í fjölskyldum þar sem börnin geta ekki reitt sig á foreldrana verða systkinin samrýnd og það verður þeim áfall þegar þau eru aðskilin við andlát móðurinnar. Gunnhildur kennir sjálfri sér um – stundum hafði hún óskað móður sinni dauða.

Veröldin var komin á hvolf. Mamma búin að klippa sig út úr tilverunni eins og dúkkulísu og ekkert nema tómið innan við útlínurnar. Ekki einu sinni myrkur og þetta var mér að kenna. Refsingin lét ekki á sér standa.

Eiður var tekinn frá mér.

Ég var tekin frá Eiði. (51)

Gunnhildur fer á sveitaheimili þar sem búa feðgin, föðurbróðir hennar og dóttir hans. Þar er „skrítið heimilishald en [hún] bjó með höfðingjum sem spöruðu ekkert nema orðin og blíðuhótin“ (75). Eiður býr hjá ömmu þeirra sem er orðin gleymin og „var eins og viðhengi við sjónvarpið“ og segir honum endalaust sömu hrakningasögurnar. Lýsingin á þeim er hrikalega fyndin og kjarnar frábærlega þessa séríslensku gerð frásagna (78–79). Síðar flytur Eiður til pabba þeirra þar sem tilvera hans snýst enn og aftur um sjónvarpsgláp og er helst trufluð af kærustum pabbans sem koma og fara.

Gunnhildur og Eiður vaxa því upp fjarri hvort öðru og lifa gjörólíku ólíku lífi; hún í sveitinni, hann í Reykjavík. Samband þeirra er stopult en þau taka upp þráðinn þegar Gunnhildur flytur til Reykjavíkur og eignast soninn Dag, sem hún elur upp ein. Síðar kynnist hún Kristni, lögreglumanni sem flytur inn á heimilið í óþökk Dags sem er vanur að hafa mömmu sína út af fyrir sig. Gunnhildur og Eiður ná aldrei að endurskapa sambandið sem þau áttu þegar þau voru börn. Eða eins og Gunnhildur segir við sambýlismann sinn: „Kannski frusum við bæði í ljósgeislanum þegar við fórum að heiman, og höfum paufast hvort sín megin við veginn síðan“ (247).

Þótt hér að framan hafi verið bent á að Steinunn beiti hefðbundnari frásagnartækni í Sterkustu konu í heimi en fyrri sögum er raunin reyndar sú að lesendur bókarinnar fá mun meira fyrir sinn snúð en sögu einnar fjölskyldu. Á fullorðinsárum sínum starfar Gunnhildur sem líksnyrtir og – líkt og í fyrri bókum Steinunnar – kemur dauðinn ekki í veg fyrir að fólk geti tjáð sig. Gunnhildur rabbar því við hina framliðnu og fær að heyra sögur þeirra á meðan hún vinnur að líksnyrtingunni. Og aðstandendur hinna dánu koma einnig við sögu. Sögur hinna framliðnu fleyga meginfrásögnina reglulega og virka sem bragðmikið krydd fyrir heildina. Þannig er þessi þriðja skáldsaga Steinunnar í raun ekkert síður fjölradda en fyrri bækurnar tvær. Þá er efniviður Sterkustu konu í heimi sömuleiðis sóttur í fjölbreytilega reynslu; Eiður og kærasta hans, Bergþóra, eru aðgerðasinnar sem taka þátt í mótmælum gegn virkjunarframkvæmdum í þágu álvers úti á landi og ferðast alla leið til Lesbos til að taka þátt í hjálparstarfi. Eiður er framúrskarandi kokkur sem lærði að matbúa úr því sundurleita hráefni sem sótt var í ruslagáma stórverslana. Hann rekur veitingastað og gefur út vinsælar matreiðslubækur. Þannig tengist söguþráðurinn oft því sem efst er á baugi í samtímanum. Síðasta aðgerðarverkefni Eiðs og Bergþóru snýst um að bjarga ísbirni sem villst hefur til landsins og reynist afdrifaríkt. Gjörningur Gunnhildar tengist einnig því verkefni.

Í viðtökum við bókum Steinunnar G. Helgadóttur hefur verið lögð áhersla á hversu góð hún er í því að segja sögur og hvernig frásagnargleðin einkennir texta hennar. Hér skal tekið undir það og bætt við að sögur Steinunnar eru mjög vel skrifaðar, textinn rennur fram áreynslulaust, söguefnin spanna alla flóru mannlegra tilfinninga og eru ætíð áhugaverð. Þá tekst henni ævinlega að vekja samúð lesandans með persónum og leikur jöfnum höndum á strengi harms og húmors. Þeir sem unna góðri sagnalist ættu ekki að láta bækur þessa höfundar fram hjá sér fara.

 

Soffía Auður Birgisdóttir