Sigurður Pálsson. Ljóðorkusvið, Ljóðorkuþörf, Ljóðorkulind.

JPV útgáfa, 2006, 2009, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

Hin dulda merking

Í heimi þar sem fólk er stöðugt að leita að hughreystingu, vill efla sig og styrkja, til dæmis með hjálp fæðubótarefna, rétts mataræðis, jóga, líkamsræktar og lífsspekirita ýmiskonar, er ekki ólíklegt að sú spurning geti vakið forvitni hvað hún eiginlega sé þessi ljóðorka sem skáldið Sigurður Pálsson heldur fram að manneskjan eigi völ á – og hafi jafnvel beinlínis þörf fyrir.

Í titlum þriggja síðustu ljóðabóka Sigurðar er vísað til þessa dularfulla krafts, en þær heita Ljóðorkusvið, Ljóðorkuþörf og Ljóðorkulind. Saman mynda þessar bækur eina heild, þriggja bóka ljóðaflokk, þann fimmta af því tagi sem skáldið hefur sent frá sér á ferlinum. Kannski er ekki hægt að segja að Sigurður skilgreini neins staðar í þessum bókum ljóðorkuna með beinum hætti, enda vafamál hvort slíkar skilgreiningar ættu heima í ljóðlist. Aftur á móti lýsir hann virkni hennar og áhrifum og við lestur ljóðanna opinberast lesandanum smám saman hvers konar töframátt skáldið er að tala um.

Ljóðorkan er – eftir því sem sá sem hér ritar fær best skilið – kraftur sem fyllir huga okkar þegar við skynjum frammi fyrir lífinu sjálfu, líkt og við værum niðursokkin í lestur góðs skáldskapar, hina dýpri merkingu hlutanna, ekki bara það sem blasir við á yfirborðinu heldur það sem leynist undir niðri. Þegar við lítum hið kunnuglega í framandi ljósi, sjáum nýjar hliðar, stærra samhengi, óvæntar tengingar, áður óþekkta möguleika. Þegar næmi okkar skyndilega eykst, doði vanans víkur og við skynjum á ferskan hátt fegurðina í lífinu og gleðina en líka tregann, harminn og hverfulleikann. Ljóðorkan streymir til okkar þegar við munum eftir því að svo margt í lífinu hefur ekki fyrirfram ákvarðað og óbreytanlegt gildi eða vægi heldur er á vissan hátt, líkt og í ljóði, hálfkláruð mynd, hálfsögð saga, margrætt tákn, eitthvað sem við sjálf, út frá okkar eigin reynslu, með skynjun okkar og túlkun gæðum merkingu.

Glíma mannshugans við að finna merkingu í tilverunni er í raun höfuðyrkisefni Ljóðorkubókanna þriggja. Að baki býr sú trú skáldsins að slík leit geti skilað árangri. Hvort sem Sigurður yrkir um tré og skóg, síðasta vetur sinn í menntaskóla sem var mikilvægur mótunartími fyrir leitandi og skrifandi ungmenni, lífsfögnuðinn eða svonefnda útrás viðskiptalífsins og áföllin í efnahagslífi þjóðarinnar á síðustu árum fela ljóð hans í sér hugleiðingar um merkingu.

Baráttan stendur um
hvert orð

Ofurlítið dæmi:

Hægt er að kalla
lánadrifna þenslu

góðæri


baráttan stendur
um hvert orð

(Ljóðorkuþörf, bls. 88).

Einstaklingurinn og hið sammannlega

Ljóðorkuþörf

Ljóðorkuþörf (2009)

Hér og þar í Ljóðorkuflokknum getur lesandinn gert sér í hugarlund að skáldið yrki beint um eigið líf, það sjálft sé persóna í ljóðinu. En á hinn bóginn er ljóðmælandinn í ljóðum Sigurðar stundum fremur skynjandi vitund en einstaklingur sem leitast við að gera upp líf sitt og fortíð. Yrkisefni skáldsins er þá glíma vitundarinnar við heiminn fremur en það yrki um einkalíf sitt, sælustundir, vonbrigði og sorgir.

Sigurður Pálsson leggur mikla áherslu á frjálsa hugsun einstaklingsins. Hvers kyns hjarðmennska, hópsálarhegðun er honum eitur í beinum. Jafnframt hefur hann á áhrifamikinn hátt gert skil einmanaleikanum sem getur fylgt djúpri persónulegri skynjun. En hann hefur líka mikinn áhuga á hinu sammannlega. Og í mörgum ljóðum Ljóðorkubókanna hljómar rödd ljóðmælandans einmitt eins og rödd hins sammannlega, fremur en rödd tiltekins einstaklings. Í þessum ljóðum hefur persónufornafn fyrstu persónu eintölu „ég“ vikið fyrir persónufornafni fyrstu persónu fleirtölu „við“. Og svo virðist sem með orðinu „við“ sé átt við manneskjurnar í heiminum almennt. Þessi ljóð lýsa einhverju sem við mennirnir eigum sameiginlegt eða bíður okkar allra.

Þau snúast líka oft um einhvers konar lærdóm sem hægt er að draga eða skilning sem unnt er að öðlast, en kennsla og nám eru afar mikilvæg yrkisefni í ljóðlist Sigurðar. Orðasambandið „kenna mér“ eða „kenna okkur“ kemur fyrir í ýmsum myndum víða í bókum hans. Og kennararnir geta verið af afar ólíkum toga, lífverur, dauðir hlutir, eða huglæg fyrirbæri. Ljóðin eru oft nokkurs konar greinargerð um inntak dýrmæts lærdóms, en geta líka innhaldið ávarp til kennarans, bón um að fá að læra af honum, eða þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta kennslu hans. Í þessu sambandi koma upp í hugann kertið sem er beðið um leiðsögn í ljóðinu Vax í bókinni Ljóðtímaskyn og gamla skrifborðið sem er þakkað af auðmýkt í ljóðinu Tekk í bókinni Ljóðlínudans. Sem dæmi um kennara sem vísað er til í Ljóðorkuflokknum má nefna tré sem hjálpar okkur að sjá hlutina bak við hlutina, sakleysislegt orð eins og glugga sem kennir okkur að horfa út um orðin og líka að horfa inn um orðin, og sjálfa ljóðorkuna sem kennir okkur unaðinn sem fylgir því að opna augun fyrir undrunarefnum lífsins.

Lífsafstaða

Ljóðorkuflokkurinn ber mótaðri lífsafstöðu Sigurðar Pálssonar glöggt vitni. Sú afstaða einkennist af fegurðarást, lífsfögnuði, frelsisþörf, lotningu fyrir því mikilfenglega og trú á möguleika mannshugans. Engin af þessum tilfinningum hefur misst ferskleika sinn í list skáldsins í gegnum árin. Hver og ein þeirra er lifandi og frjótt en hverfult afl sem stöðugt þarf að vernda og hlúa að í heimi sem er þeim oft andsnúinn. Ljóðmælandinn í ljóðum Sigurðar þráir að skynja lífið djúpt, sækist eftir upplifunum, ævintýrum skynjunarinnar. Hann vill ekki brynja sig fyrir áreiti lífsins heldur læra að vinna úr því.

Í ljóðunum er vissulega hægt að finna reiði, hryggð og sorg en aldrei tómlæti, deyfð. Órói blóðsins, hrifningarvíma, uppljómanir, kynferðislegt aðdráttarafl, allt er þetta vegsamað í ljóðlist Sigurðar. Hann talar meira að segja um „hinn heilaga losta“. Það sem kallað er skynsemi, yfirvegun fær oft ekki háa einkunn hjá skáldinu. Löngunin til að lifa er stundum svo áköf að einna helst minnir á stemninguna í rokktónlist sjöunda áratugarins, sem vitaskuld hefur haft mótandi áhrif á skáldið. Sigurður Pálsson á í ljóðlist sinni sitthvað skylt við rokkara sem er á valdi endurleysandi og frelsandi krafts rokksins, þeirrar lífsorku sem gerði uppreisn gegn stöðnuðum hugsunarhætti og smáborgaraskap, yfirborðslegri siðavendni efnishyggjuþjóðfélagsins, þunglamalegheitum og strangleika.

Ljóðorkusvið

Ljóðorkusvið (2006)

Það besta í ljóðlist margra skálda snýst um það sem er ekki, varð ekki eða er ekki lengur. Hið glataða, óhöndlanlega. En Sigurði er einkar lagið að yrkja á áhrifamikinn hátt um það sem er, það sem hægt er að upplifa hér og nú. Áherslan á það að njóta lífsins, fagna núinu, grípa augnablikið, verður í ljóðum Sigurðar aldrei einhvers konar innantóm og grunnfærnisleg lífsnautnastefna. Skáldið er ekki að réttlæta og fegra neinskonar græðgislega svölun sjálfhverfra hvata. Miklu frekar er skáldið að upphefja meðvitaða iðkun sem hefur yfir sér ákveðna helgi. Líkt og að með því að lofsyngja einmitt núið sé eitthvað stærra og meira vegsamað, eitthvað sem nær út fyrir hið stundlega og er tímalaust. Afstaðan sem býr að baki þránni eftir unaðssemdum lífsins minnir á andakt hins trúaða, eða að minnsta kosti lotningu þess sem hneigist til að líta svo á að til sé eitthvað æðra en hann sjálfur og hans stundlega tilvist.

Lotning af þessu tagi gerir víða vart við sig í skáldskap Sigurðar. Stundum er eins og votti fyrir einhverju trúarlegu í ljóðum hans. Í Ljóðorkubókunum er hann ekki feiminn við að nota lýsingarorðið heilagur, notar það um hið „ólýsanlega / ósnertanlega svæði innra með okkur“, unað þess að undrast yfir tilverunni og meira að segja sjálfan lostann, eins og áður var nefnt. Hann notar líka nafnorð eins og helgun, vígslustund, vígslu og paradís. Hann yrkir um lifandi vatnið, hrufluð hné eftir eindregnar bænir og opinberun Ágústínusar kirkjuföður. En þessi þáttur í ljóðlist Sigurðar er óræður og blandinn dulúð og minnir einna helst á einhvers konar dulhyggju fremur en hreinan trúarkveðskap. Þó ber svo við í ljóðinu Dýrð lífsins í bókinni Ljóðorkusvið að einhver æðri máttur – að því er virðist guðdómurinn – er ávarpaður beint:

Ég þakka þér fyrir að sýna mér dýrðina…

Ekki dýrð HEIMSINS heldur dýrð LÍFSINS.

(Ljóðorkusvið, bls. 101).

Þetta hreinskilnislega ávarp hefur sérstöðu í ljóðum Sigurðar. Kannski er hvergi annars staðar í ljóðum hans að finna jafn skýrt dæmi um hugsunarhátt trúaðs manns.

Um leið og Sigurður Pálsson er skáld lífsins sem er hér og nú er í ljóðum hans einnig sterk tilfinning fyrir mikilvægi þess að sjá framtíðina í augnablikinu, skynja að augnablikið getur einmitt öðlast vægi af því sem síðar getur orðið. Sjá tréð sem býr í fræinu, veruleikann sem getur orðið til úr áforminu. Þessi þáttur hugsunar hans er mjög áberandi í Ljóðorkubókunum, sérstaklega þeirri síðustu, og kemur fram í hugleiðingum um tré og skóga og vöxt.

Sigurður hefur með réttu verið kallaður borgarskáld. Hann hefur ort mikið um Reykjavík, þar sem hann hefur átt heima undanfarna áratugi, og svo Parísarborg, þar sem hann var mörg ár við nám. En eins og hann fjallar um í bók sinni Bernskubók ólst hann upp í sveit, á Skinnastað í Axarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Nánasta umhverfi æskuslóðanna, einkum hin einstaka gróðurvin Ásbyrgi, er honum hugleikið í Ljóðorkuflokknum. Líklega hefur Sigurður aldrei ort af eins mikilli innlifun um náttúruna og gróður jarðar og þar. Ljóð hans um tré og skóga bera vott um aðdáun hans á þolgæði, þolinmæði og þrautseigju. Þau vitna um lotningu hans fyrir styrk þess lífs sem kann á tilteknu augnabliki að virka viðkvæmt og varnarlaust, en getur þolað erfiðan biðtíma, staðið af sér myrkur og kulda. Vangaveltur hans um leyndardóma vaxtarins eru lýsandi fyrir áhuga hans á hinum duldu möguleikum tilverunnar, því stórfenglega sem ekki blasir við á yfirborðinu.

Hugleiðingar Sigurðar um gróður og vöxt tengjast líka trú hans á endurnýjunarmáttinn í lífinu, trú hans á að frjó og óþvinguð hugsun geti fært okkur frelsi og gert okkur kleift að hefja okkur upp yfir aðstæður okkar, skorður og takmarkanir. Að hægt sé að byrja að nýju, slíta fjötrana, komast upp úr farinu, endurmeta og endurskapa. Í ljóðinu Verk í vinnslu í bókinni Ljóðorkulind talar skáldið um að okkur hafi ekki verið ætlað að vera heldur verða og að svo lengi sem við séum á lífi séum við aldrei lokagerðin af okkur sjálfum heldur uppdráttur, drög, verk í vinnslu.

Þótt lífsafstaða Sigurðar Pálssonar og gildismat skíni í gegnum skáldskap hans er ljóðlist hans engu að síður vitaskuld fyrst og fremst ljóðlist. Hún er ekki neins konar lífsspeki, kenningakerfi, hugmyndafræði þar sem innra samræmis gætir. Góð ljóðlist er í eðli sínu einhvers konar viðbrögð við því sem leitar á skáldið hverju sinni, háð stað og stund. Þess vegna rúmar hún andstæðar kenndir, öfgar í ólíkar áttir rétt eins og sálarlíf manneskjunnar.

Skilaboð

Í ljóðinu Brotasýn í bókinni Ljóðorkusvið notar Sigurður orðið skilaboð um skáldskap sinn og það er vel við hæfi. Það fer nefnilega ekki dult að hann á brýnt erindi við lesandann. Segja má að Sigurður sé ófeiminn við ákveðna boðun í verkum sínum. Sá þáttur er nokkuð áberandi í Ljóðorkubókunum. Skáldið vill miðla visku, sýn, lærdómi, skilningi. Á bak við ögun listamannsins finnur maður fyrir tilfinningahita og ákafa þess sem liggur eitthvað á hjarta, er mikið niðri fyrir. En skilaboð Sigurðar eru langt frá því að vera einhvers konar áróður, innræting eða mötun. Hann er ekki að hamra á neinum viðurkenndum sannindum. Innihald skilaboðanna er frekar eitthvað sem kalla má ögrun, brýningu, hvatningu.

Sigurður er nefnilega í raun andófsmaður. Skilaboð hans fela í sér andóf gegn ýmsum viðhorfum og sjónarmiðum sem eiga upp á pallborðið nú á tímum. Andóf gegn þeim hugsunarhætti að tómhyggja, virðingarleysi og bölsýni séu nánast dyggðir, votti um skarpskyggni og hugrekki. Lífsfögnuðurinn aftur á móti vitni um einfeldni, barnalega óskhyggju. Slíkan hugsunarhátt hefur Sigurður Pálsson kallað afhelgunarskylduna. Skáldskapur hans er uppreisn gegn afhelgunarskyldunni:

Að finna fyrir gleði
í hverjum andardrætti

Það er eina alvarlega skyldan
í lífinu
(um dauðann fullyrði ég ekkert)

Endurtek þessa helgun
á tímanum
í miðri afhelgunarskyldunni

(Ljóðorkusvið, bls. 23).

En fagnandi vitund hefur afar sterka sorgarvitund, eins og skáldið minnist á. Sigurður yrkir eins og sá sem gerir sér fulla grein fyrir takmörkuðu hlutskipti mannsins hér á jörðinni, að allt fölnar, missir ljóma sinn, orkan víkur fyrir þreytu, vaninn sljóvgar, flest er ófullkomleikanum ofurselt. En frá sjónarhóli skáldsins breytir það ekki því að okkur stendur til boða hinn stundlegi fögnuður, hin ljómandi augnablik, hverfular stundir upplifunar og skynjunar, þegar ljóðorkan streymir til okkar. Þökk sé hinum lofsverðu eiginleikum mannshugans innsæinu, sköpunargáfunni, túlkunarmættinum og minninu.

Ljóð Sigurðar Pálssonar hafa annan tilgang en að afhjúpa, berstrípa, afhelga. Þau smætta ekki tilveruna og einfalda hana. Þau miklu frekar stækka hana og jafnvel helga á nýjan og ferskan hátt. En Sigurður Pálsson er enginn blindur fegurðardýrkandi, langt því frá. Hann er fegurðarunnandi. Það er allt annað. Í ljóðlist hans er skýr munur á hörmungum heimsins og dýrð lífsins og hann fjallar af næmi um hvort tveggja. Skáldið flýr ekki ljótleikann. Það einfaldlega snýst gegn honum.

Ljóðorkulind

Ljóðorkulind (2012)

Snilldarleg eru ljóðin í Ljóðorkulind þar sem skáldið lætur æðstu táknmyndir veraldlegs ríkidæmis, æðstu táknmyndir efnislegrar en dauðrar fegurðar taka til máls og mótmæla. Demantarnir hafa fengið nóg af ójöfnuði og óréttlæti mannanna sem birtist í því að þeir skreyta alltaf sama fólkið, hóp fárra útvalinna. Þeir hafa ákveðið að hætta að sýna hörku, linast og leka niður á jörðina. Gullstangir heimsins eru búnar að fá sig fullsaddar af því að liggja í lokuðum, myrkvuðum kjöllurum. Þær vilja komast út í sólskinið til fólksins og vekja gleði þess og hrifningu. Því jafnvel þeim er ljóst að fólkið sjálft og gleði þess er margfalt verðmætara en þær.

Sigurður Pálsson er eins og fram hefur komið ófeiminn við að láta í ljós aðdáun sína. En hann leynir heldur ekki andúð sinni. Í fyrsta ljóðaflokki sínum Ljóðvegabókunum beindi hann stundum óvæginni gagnrýni að hugsunarhætti og gildismati í samfélaginu sem honum féll ekki við og talaði þá af töluverðum skaphita. Nefna má hlutann Á hringvegi ljóðsins í bókinni Ljóð vega menn þar sem skáldið hefur upp raust sína gegn smáborgaraskap og andlegum doða, talar um „helvíti neysluskyldunnar“, „sljóleika margtuggunnar“ og „feita mærð hinna efalausu“. Einnig má nefna hlutann Enn skín sólin þrjósk í sömu bók þar sem skáldið hvetur til andstöðu við vitringa auðsins og valdsins.

Í næstu ljóðabókaþrennum fer minna fyrir slíkri samfélagsgagnrýni. Í Ljóðorkubókunum er hún á ný orðin áberandi. Þar ræðst skáldið gegn hvers kyns svarthvítri lífssýn og heimssýn, kreddufestu, heimóttarskap, þjóðrembu, þröngsýni, niðurnjörvandi einföldun á lífi manneskjunnar. Öllu því sem vill útiloka margbreytileikann, hið leyndardómsfulla í lífinu. Líklega hefur Sigurður aldrei ort með eins beinum hætti um þjóðfélagsástand í samtímanum og í annarri bók Ljóðorkuflokksins, Ljóðorkuþörf. Þar er samfélagsgagnrýnin beitt. Ekki fer á milli mála að efnahagserfiðleikar þjóðarinnar og sjálfsmyndarkreppa í kjölfar hrunsins eru tilefni þessara ljóða og hér er ekki bara ort um hugarfar og gildismat heldur nýliðna atburði. Skáldið beitir orðlist sinni gegn löstum eins og græðgi og hroka, sem það minnir á að eru ekki að ástæðulausu tvær af dauðasyndunum sjö, og skáldið er hvassyrt.

Ljóðmál

Ljóðstíll Sigurðar er oft mjög skemmtilega myndrænn. Stundum er fyrst brugðið upp skýrri afmarkaðri mynd og henni leyft að standa sjálfstætt. Því næst er lagt út af myndinni.

Hraðskreiður ljóslaus bíll
á fullri ferð um götur borgarinnar

(þannig líður mér
æði oft)

(Ljóðorkusvið, bls. 58).

Sumum ljóðunum mætti lýsa sem svipmyndum úr mannlífinu. Ort er um manneskjur í tilteknum aðstæðum. Ljóðin eru nokkurs konar sviðsetningar, segja stundum sögu. Dæmi um slík ljóð eru Innan við opinn gluggann úr Ljóðorkusviði þar sem ljóðmælandi er að velta fyrir sér nakinni konu í húsinu á móti og Litir IV úr Ljóðorkuþörf þar sem elskendur gefa sig á vald unaði atlota og samveru.

Sigurður beitir persónugervingu af miklum frumleika í Ljóðorkuflokknum. Alls kyns fyrirbæri tilverunnar lifna við og láta til sín taka. Sólin sest í hásæti, Reykjavíkurgrágrýtið laumar trompunum sínum út, jörðin birtist okkur sem óseðjandi átvagl, og eins og áður var vikið að senda demantar heimsins frá sér yfirlýsingu og Alþjóðasamband gullstanganna gerir slíkt hið sama. Þetta getur gert ljóðheim Sigurðar skemmtilega ævintýralegan. Af svipuðum toga er það stílbragð, sem lengi hefur verið í miklum metum hjá skáldinu, að gefa ýmsum þáttum tilverunnar nýstárleg en lýsandi heiti með frumlegum samsetningum nafnorða. Ýmis skemmtileg dæmi um slíkt er að finna í Ljóðorkubókunum. Þar er talað um „eldsneyti minnisins“, „fagnaðaróp vorsins“ og „afhelgunarskylduna“, og þegar vikið er að gönguferð sem farin er til að íhuga eða láta hugann reika er talað um að „viðra hugsanahundinn“.

En það stílbragð sem einna helst einkennir ljóðlist Sigurðar er endurtekningin. Listileg beiting hennar skapar hið sérstaka hljómfall í ljóðum hans. Yfirleitt miðar hún að því að gera mynd sem þegar hefur verið dregin upp skýrari. Fyrst er eitthvert fyrirbæri nefnt og svo er það nefnt aftur með aðeins nákvæmari hætti. Mýmörg dæmi um slíkt má finna í ljóðabókum Sigurðar og hér að neðan eru tilfærð nokkur úr Ljóðorkubókunum.

sprettur beint út
úr klettinum
mosagrónum klettinum

(Ljóðorkulind, bls. 7).

Niður í kuðungi
veikur niður í kuðungi

(Ljóðorkuþörf, bls. 53).

Alla leið í höfn
Alla leið í heila höfn

(Ljóðorkusvið, bls. 77).

Þessar endurtekningar ljá ljóðmáli Sigurðar oft ákveðinn dramatískan þunga, hátíðleika, reisn.

Í Ljóðorkubókunum má segja að Sigurður tjái viðhorf sín til eigin ritstarfa, hlutverks skáldsins og ljóðlistarinnar með persónulegri og beinni hætti en oft áður. Þar er að finna skýrt orðaðar yfirlýsingar í ætt við stefnuskrá og áhrifamikla málsvörn fyrir vegsömun fegurðar og dýrðar lífsins. Hann gefur jafnframt innsýn í vinnubrögð sín. Hann útlistar mikilvægi hinnar huglægu leitar og leggur áherslu á nauðsyn þess að hætta sér út í óvissuna og þora að villast til að geta uppgötvað eitthvað einstakt og óvænt.

Töframáttur skynjunarinnar

Ljóðorkan, þessi einstaki töframáttur, er eftirsóknarverð fyrir mannshugann. En hún hlýðir ekki fyrirmælum. Það er ekki hægt að kalla hana fram með skipunum. Aftur á móti er hægt að gera sig móttækilegan fyrir henni, opna hugann. Og að því markmiði er lestur góðrar ljóðlistar rétta leiðin. Það geta vitaskuld verið margar ástæður fyrir því afhverju fólk les ljóð. Nefna má áhuga á þeirri sérstöku og oft meitluðu málbeitingu sem finna má í hinu knappa formi, unun af braglist, hagmælsku eða tónlist tungumálsins. En til viðbótar þessu er kannski eitt það mest heillandi við ljóðlistina það tækifæri sem hún veitir okkur til að hverfa inn í vitund annarrar manneskju, máta okkur við hugsanir, tilfinningar og upplifanir án þess að meginatriðið sé frásögn af atburðum og samskiptum fólks líkt og í sagnaskáldskap. Sökum þess að ljóðlistin er gjarnan list hins óræða og hálfsagða er kannski enginn lestur jafn skapandi og lestur ljóða. Sigurði Pálssyni er skapandi hlutverk lesandans mjög hugleikið. Og hann hefur á ferli sínum ort á magnaðan hátt um lestrarnautnina. Í Ljóðorkuflokknum lýsir hann til dæmis því í ljóðinu Í skógarjaðrinum IV hvernig ljóðabók Þorsteins frá Hamri Lángnætti á Kaldadal reyndist honum öflugur andlegur bakhjarl síðasta vetur hans í menntaskóla og hann vottar virðingu sína ýmsum ljóðskáldum sem hafa haft áhrif á hann.

Skáldskapur Sigurðar Pálssonar er á margan hátt lofgjörð um þann skapandi undramátt sem getur búið í skynjun, upplifun og íhugun. Hann er hylling andlegs lífs, þess unaðar sem frjó og skörp hugsun getur veitt. Í Ljóðorkuflokknum finnur lesandinn hvatningu til að dýpka innsæi sitt, leggja sig fram um að reyna að sjá það sem skiptir máli. Þar er talað um hvernig hægt sé að horfa þannig að svarthvítar myndir öðlist lit, teikning hreyfist af sjálfu sér. Kannski sprettur innilegasta gleðin yfir fegurðinni af því að sjá undrunarefnin þar sem síst mætti ætla að þeirra væri von, koma auga á hið dularfulla í hinu augljósa. Í hinum áhrifamiklu þakkarorðum sem skáldið beinir að æðri máttarvöldum og vísað er í hér að framan er á yfirborðinu ekki þakkað fyrir neinn beinan árangur, ávinning eða sigur, heldur aðeins það að hafa fengið að sjá og skynja. Skáldið segir hreinlega: þakka þér fyrir að sýna mér dýrðina … En kannski er einmitt það að veitast slík sýn og vera fær um að meta hana að verðleikum einn mesti ávinningurinn, stærsti sigurinn.

 

Kristján Þórður Hrafnsson