Ragna Sigurðardóttir. Vetrargulrætur.

Mál og menning, 2019. 254 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2019

VetrargulræturRagna Sigurðardóttir hóf rithöfundarferil sinn með smásagnasafninu Stefnumót árið 1987 og hefur síðan einnig gefið út ljóð og skáldsögur. Nýjasta smásagnasafn hennar, Vetrargulrætur, hefur að geyma fimm langar smásögur sem tengjast á margvíslegan hátt. Myndlistin er þar áberandi umfjöllunarefni og mikil áhersla á hið myndræna en grunntónninn snýst þó um að lífið sjálft er mun meira en það sem augað sér.

Flestar sögurnar í bókinni eru spennandi lestur. Fyrsta sagan togar mann strax inn í frásögnina og viðheldur út í gegn óþoli hjá lesanda eftir lausn á þeim skelfilegu aðstæðum sem sögupersónan, myndlistarkonan Hildur, er stödd í. Alexandra, barn í hennar umsjá, týnist í um hálfan sólarhring og svo þarf hún lengi að kljást við skömmina og óöryggið sem fylgir í kjölfarið. Þessi lausn er sífellt tafin með ítarlegum upplýsingum um Hildi og umhverfi hennar, sem gefa sögunni ýmsa aðra og dýpri merkingu og kalla á fleiri en einn lestur – eins og reyndar flestar ef ekki allar sögurnar í bókinni.

Atvikið hefur mikil áhrif á Hildi, grefur undan sjálfstrausti hennar sem starfsmanns og manneskju og verður til þess að margs konar óöryggi hennar varðandi til dæmis hjónaband og fjölskyldu kemur upp á yfirborðið. Hún á jafnframt erfitt með að ráða í orð og látbragð fólksins í kringum sig þannig að erfitt verður að greina milli raunverulegra og ímyndaðra ógna. Ragna fer þá áhrifaríku leið að draga fram líkamlegar birtingarmyndir þeirra tilfinninga sem vakna hjá sögupersónum, í þessu tilviki bæði Alexöndru og Hildi, eins og upphafsorð sögunnar bera með sér:

Ljósblá augun voru uppglennt, í kringum bjarta lithimnuna var dökkur hringur, umhverfis hann skein í hvítuna. Mjúkar, ávalar barnsvarirnar voru strekktar. Litla stelpan andspænis mér var í skelfingu lostin og mér sýndist hún vera í þann mund að reka upp óp. (5)

Lýsingarnar í sögunum eru oft nákvæmar sem auðveldar lesanda að setja sig í spor sögupersóna og bókstaflega finna tilfinningar þeirra á eigin skinni. Sterkasta tilfinningin er oft skömm, hér skömm Hildar sem hún segir vera „eins og steinn í skónum“ (45) í kjölfar atviksins. Löngun hennar til að ganga í augun á Alexöndru eftir atvikið gerir það ljóst að börn geta líka komist í valdastöðu í samskiptum sínum við fullorðna. Hildur leggur sig alla fram við að vinna traust hennar og um leið endurheimta þá sjálfsmynd sína að hún sé barnagæla sem hún segir að sé henni jafnvel mikilvægari en málverkin hennar. Smám saman kemur í ljós að fleira spilar þarna inn í; hún sér sjálfa sig að einhverju leyti í Alexöndru og löngun hennar til að taka barnið „í fangið og hlýja henni, bjarga henni“ (18) er að einhverju leyti löngun hennar til að bjarga sjálfri sér. Sagan ber einmitt heitið „Ég skal bjarga þér“ og lýsir því vel hvernig atvik í hversdeginum geta kippt undan fólki fótunum og um leið afhjúpað hversu viðkvæm haldreipi þeirra eru oft í raun og veru.

Þegar lesið er lengra í bókinni kemur augljósasta tengingin milli smásagnanna fljótt í ljós. Allar sögurnar nema sú síðasta fjalla um myndlistarkonur og við færumst alltaf aftur á bak í tíma. Fyrsta sagan gerist árið 2019, sú næsta árið 1991, sú þriðja árið 1953 og þannig koll af kolli allt til ársins 1779. Sögurnar bregða þannig upp áhugaverðum og oft afar grípandi myndum af stöðu kvenna í samfélaginu og innan myndlistar á ólíkum tímabilum, en einnig af myndlistarheiminum og lögmálum hans. Þau lögmál geta meðal annars rekið flein á milli metnaðarfullra hjóna sem bæði vilja frægð og frama á þessu sviði, eins og í sögunni „Vetrargulrætur“. Ragna beinir athyglinni ekki síst að átökunum innan myndlistarheimsins – sem geta verið upp á líf og dauða á ákveðnum tímabilum en virka næstum kómísk eftir á. Þannig er átökum milli hefðar og abstraktlistar að minnsta kosti lýst í sögunni „Undirbúningur“ , sem er einnig beinskeyttasta og erfiðasta lýsing bókarinnar á því hvernig verk kvenna hafa verið hulin í opinberri listasögu.

Tvær barnungar persónur marka upphaf og lok bókar; stúlkunni sem týnist í fyrstu sögunni er lýst sem viðkvæmri og blindur unglingur í síðustu sögunni finnur sárt fyrir því hvað hann er berskjaldaður gagnvart öðrum. Allar sögur bókarinnar snúast að einhverju leyti um viðkvæma stöðu hinna ýmsu sögupersóna, og um (raunveruleg eða möguleg) svik þeirra sem standa þeim næst. Það verður hvað átakanlegast í sögunni „Undirbúningur“ þar sem aðalpersónan þarf að horfast í augu við að hún og eiginmaðurinn eru ekki álitin jafningjar í listinni, eins og hún hafði gert ráð fyrir að þau væru þegar þau lærðu bæði málaralist í París, þaðan sem þau flúðu heimsstyrjöldina síðari. Næstum ósjálfrátt hefur hún gengið inn í eiginkonuhlutverk sjötta áratugarins og er ekki lengur tekin alvarlega, hvorki skoðanir hennar á myndlist né myndlistin sjálf. Verstu svikin eru þó frá manninum sem hún elskar en sem samþykkir þessa skipan mála sem sjálfsagða. Í „Vetrargulrótum“ reynist einnig grunnt á því góða milli elskenda á tíunda áratug síðustu aldar, því hugsanleg velgengni annars verður eins og áminning um verri árangur hins. Átök, svik og valdabarátta eru þannig sterkt þema í þessu smásagnasafni og í nokkrum sögum er reyndar raunverulegt stríð í bakgrunni. Í fyrstu sögunni ferðast eiginmaður Hildar um Líbanon á sjúkrabíl „að veita sýrlenskum flóttamönnum læknishjálp“ (9) og í sögunni „Fræ í mold“ erum við óþyrmilega minnt á hlutverk okkar Íslendinga í ofsóknum gegn gyðingum í síðari heimsstyrjöldin, sem og hræsnisfullar tilraunir til að mála okkur upp sem saklaus í því samhengi.

Vongóður endir þeirrar sögu er skelfilega írónískur og víðar, til dæmis í lok „Vetrargulróta“, hlýtur lesandinn að eiga erfitt með að samþykkja þá niðurstöðu að allt sé „eins og best verður á kosið“ (100) þótt sögupersónur reyni almennt að sætta sig við örlög sín. Sem heild dregur bókin þó upp bjartari mynd af ástríðufullri viðleitni sem á endanum ber ávöxt þótt allt virðist vonlaust um stund. Titilsaga smásagnasafnsins gerist í Hollandi þar sem hægt er að láta gulrætur geymast í moldu yfir vetur þar sem þær halda áfram að stækka og dafna þótt grösin sölni og allt virðist dautt á yfirborðinu. Gulrótin hefur tvöfalda merkingu í þessari sögu; annars vegar vísar hún til þess að við getum þurft á einhvers konar gulrót að halda til að halda okkur gangandi, ekki síst í listsköpun, en einnig vísar hún til þessa dulda gómsætis sem lúrir undir vetrarakri og felur í sér loforð „um að á eftir vetri kæmi vor, sumar og loks ný uppskera“ (91). Sú saga kvenna innan myndlistar sem rekja má aftur á bak í gegnum smásögur Rögnu einblínir fyrst og fremst á þetta loforð, þessa von um að uppskera að lokum og í slíkum lestri markar síðasta sagan, „Ávöxtur hafgolunnar“, sterkan upphafspunkt þótt þar sé enga myndlistarkonu að finna, aðeins blindan unglingspilt sem þarf að horfast í augu við að hann muni alltaf vera sveitarómagi en aldrei eignast konu eins og vinur hans.

Í takt við öfuga tímaröð bókarinnar tekst piltinum að komast yfir ávöxt og borðar hann en stefnir að því að sá síðan fræi sem hann vonar að verði að ávaxtatré. Hér, eins og annars staðar, er það fyrst og síðast viðhorfið sem skiptir máli. Ef við getum ekki séð fyrir okkur „raðirnar af gulrótum í moldinni“ felur „vetrarkyrrðin ekki lengur […] í sér fullvissuna um að senn komi vor, heldur býr í henni eftirsjá eftir liðnum sumardögum“ (97). Því þótt persónur séu viðkvæmar eru þær margt meira. Alexandra er til dæmis líka kröfuhörð, ofsafengin, áköf, einbeitt og ástríðufull – eins og Hildur sjálf þótt hún hafi misst fótanna um stund. Það sama má segja um blinda unglingspiltinn, sem kemst í gegnum tilveruna á hugrekkinu: „Það er fyrir öllu að vera ekki hræddur,“ segir hann (233); til í að leggja allt í sölurnar til að upplifa eitthvað nýtt og er fær um að láta þá upplifun gefa tilveru sinni merkingu eftir að hafa upplifað sárustu örvæntingu.

Helsti kostur smásagnasafnsins Vetrargulrætur er að hver saga segir afmarkaða sögu sem Rögnu Sigurðardóttur tekst að gera áhugaverða og áhrifamikla í sjálfu sér, þótt söguþráðurinn sé yfirleitt ekki flókinn, en felur jafnframt í sér marga túlkunarmöguleika, ekki síst ef hún er lesin í samhengi við hinar sögurnar. Í heildina lýsir bókin flóknum samskiptum og viðbrögðum, þar sem ekkert er einfalt eða svart-hvítt. Menn geta elskað og svikið í senn, sigrað og tapað, ógnað og hjálpað – og margt liggur milli línanna. Síðasta sagan, „Ávöxtur hafgolunnar“, verður í því samhengi viðeigandi endapunktur á þessu verki þar sem hið myndræna og litir eru í fyrirrúmi, en hún er sögð frá sjónarhorni blinda unglingsins sem veit ekki hvað litir eru og skynjar heiminn út frá öllum öðrum skynfærum en sjóninni.

 

Auður Aðalsteinsdóttir