TugthúsiðHaukur Már Helgason: Tugthúsið.

Mál og menning 2022. 453 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2023

Hvernig á að skilgreina þessa bók? Skýrsla, kallar hún sig sjálf: Skýrsla skrifuð af Páli nokkrum Holt, fráfarandi öryggisverði Stjórnarráðsins, til að rannsaka mögulegar orsakir óþægindanna, eða reimleikanna, sem hafa gert vart við sig í fornfrægu húsinu. En óneitanlega er skýrsluramminn fremur þunnur: bókin myndi lítið breytast ef honum væri kastað fyrir róða. Heimildaskáldsaga gæti maður freistast til að kalla hana, en hún virðist eiginlega ekki skálda nógu mikið til að eiga það nafn skilið. Alþýðusagnfræði gæti komið til greina, þar sem hún fjallar um sögulega atburði en án þess að nota stíl fræðimannsins eða geta heimilda aftan- eða neðanmáls. En rithöfundurinn, Haukur Már Helgason, er of áberandi, það er of mikið fyllt í eyður skjalanna og stíllinn er of nístandi til þess að sú nafngift gangi upp heldur. Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta annað en einfaldlega það sem gerist þegar hárbeittur, pólitískur rithöfundur sökkvir sér ofan í gömul skjöl.

Frásögn bókarinnar hefst árið 1755 þegar Katla gýs og hver hörmungin eftir aðra ríður yfir landið – hafís, jarðskjálfti, uppskerubrestur, hungursneyð. Hungrað fólk ráfar um sveitir – sem var ólöglegt á Íslandi, landi vistarbandsins – og stelur mat til að lifa af. Sýslumenn elta það uppi fyrir þessa stórglæpi og handsama eða jafnvel hengja án dóms og laga. Þá kviknar hugmyndin hjá íslenskri yfirstétt að réttast væri að hætta að senda þjófa til Kaupmannahafnar, þar sem þeim var þrælað til dauða, enda kvöð á sýslumennina að fæða fangana og klæða þar til þeim var komið um borð í skip. Í staðinn ákveða Alþingismenn að senda skjal til konungs þar sem þeir biðja um að vera veittur réttur til að hengja menn upp á eigin spýtur og í massavís, og koma þannig skikk á ástand landsins.

En í Danmörku höfðu vaknað nýtískulegar hugmyndir. Upplýsingin svokallaða hafði hafið innreið sína hjá embættismönnum einveldisins og þar með trú á fánýti og jafnvel barbarisma hefðbundinna refsinga. Í staðinn hafði orðið til hugmyndin um betrandi fangelsisvist, þar sem menn skyldu vinna sér til andlegra bóta, frekar en líkamlegra óbóta, og snúa aftur til samfélagsins sem nýir menn. Því var bréfi Alþingismanna svarað með þeim hætti að það skyldi byggja Íslands fyrsta tugthús til að hýsa glæpalýð landsins. Húsinu var fundinn staður á Arnarhóli, í litla bænum sem þá, í krafti Innréttinganna, var hægt og bítandi að verða miðstöð dansks valds á Íslandi.

Tugthúsið rekur síðan, í gegnum skjöl hússins, hvernig fangar voru látnir reisa utan um sig bygginguna með þrælavinnu (og það er ekkert ýkjuyrði – þeir voru einfaldlega kallaðir þrælar í skýrslum hússins) og lifðu svo áfram innan veggjanna undir ægivaldi konungsins þjóna. Því mannúðleg var hin margrómaða Upplýsing ekki. Tugthúslimir voru bæði beittir líkamlegum refsingum og hreinlega sveltir til dauða. Fangavörður hússins beitti svokölluðum tampi á fanga sem voru til vandræða, en það var sver kaðalsvipa sem mann hreinlega sundlar af því að lesa lýsingarnar á.

Og ekki var mataræðið betra. Af örlæti sínu skammtaði konungsveldið þeim kexi og úldnum fiski og var passað vandlega upp á að karlar fengju meira að borða en konur. Upphæðin til kaupa á mat ofan í hvern fanga var föst og tók ekkert tillit til verðhækkana á matvöru á krepputímum (og það voru jafnan krepputímar). Því stráféllu fangarnir, að vísu í bylgjum, yfir allan starfstíma Tugthússins, sem lagði loks niður starfsemi árið 1816 eftir að hafa verið breytt um tíma í herskála byltingarvarðar Jörundar hundadagakonungs sumarið örlagaríka 1809. Með dauða síðasta fangans í húsinu lýkur frásögn bókarinnar, skýrslunni er skilað til forsætisráðherra með orðum sem kunnugleg eru hverjum þeim sem vinna í lengri tíma með gömul skjöl: „Nóg komið. Nóg sagt. Ég gefst upp, eins og Tugthúsið sjálft. Kemst ekki lengra, þetta er búið. Þetta er búið.“ (453)

Á leiðinni í gegnum sögu hússins er einblínt á fangana sem reistu það og bjuggu í því. Bókin er því sagnfræði að neðan sem reynir að gera grein fyrir lífi fólks af lægri stéttum og á jaðrinum, þar sem lögð er áhersla á að lýsa ítarlega þeirri kúgun sem það þurfti að sæta en jafnframt viðnáminu sem það veitti gegn henni með einum hætti eða öðrum. Þessa frásögn byggir höfundur á frumtextum og ber bókin þess mjög greinilega merki að vera afurð langrar yfirlegu yfir skjalaöskjum á lessal Þjóð- skjalasafnsins. Ekki verður annað sagt en að sú breidd skjala sem hér er notuð sé afrek. Haukur Már kreistir upplýsingar um fangana (eða kannski ætti maður bara að segja „þrælana“?) upp úr kirkjubókum, skjölum Stiftamtmanns, manntölum, bréfum, bænaskjölum og svo framvegis og svo framvegis, margt af því skrifað á 18. aldar embættisdönsku. Lesanda er þó yfirleitt hlíft við löngum tilvitnunum í frumtexta, danskan er þýdd og stafsetning færð til nútímahorfs.

Hins vegar er sama hversu mikið maður kreistir úr skjölunum, það eru óhjákvæmilegar holur í þeim, hlutir sem við getum ekki fundið neinar heimildir fyrir. Haukur Már tekur þá við með ímyndunaraflinu og fyllir í eyðurnar með skarpri frásögn í röddu Páls Holt skýrsluhöfundar, sem veltir upp möguleikum, setur á svið senur og leggur fólki orð í munn, oft með auðmjúkum afsökunarbeiðnum fyrir að yfirgefa um stund grundvöll skjalanna. En þrátt fyrir allar eyðufyllingar ráða skjölin för og sést það einna best þegar stjórn Tugthússins, á miklum krísutíma þegar fangar drápust í hrönnum, hætti skyndilega að nenna að skrifa hinar hefðbundnu færslur í gerðabókina. Í staðinn voru páraðir uppgjafarspíralar yfir síðurnar, spíralar sem Haukur Már kýs að endurbirta í Tugthúsinu, blaðsíðu eftir blaðsíðu. Varla er hægt að halda meiri tryggð við heimildirnar: síðurnar fyllast upp af dauða og hörmungum sem svo skyndilega gufa upp í spíral, rétt eins og ráðamenn Tugthússins á átjándu öld og Páll Holt á þeirri tuttugustu og fyrstu hafi báðir gefist upp á skelfilegum raunveruleikanum og skrásetningu hans, hinir fyrrnefndu af leti og valdhroka, hinn síðarnefndi úrvinda af réttlátri reiði.

Því slík reiði er undirliggjandi í bókinni. Skýrslan er langt frá því að vera hlutlaus, heldur eru geggjaðar aðstæður gamla stjórnarfarsins settar fram af ólgandi réttlætiskennd. Jafnvel í verstu hungursneyðum var það hefð að bestu nautunum skyldi safnað saman – stundum tekin með valdi – frá öllu landinu, þau send til Reykjavíkur, þeim slátrað og kjöt þeirra laugað í hunangi og mjólk, allt til að fóðra fálka konungs sem voru gómaðir hérlendis og áttu að vera í góðum holdum þegar til Kaupmannahafnar var komið. Á meðan átu Tugthúsþrælarnir þurrt kex og drápust undir tampi. Valdaafstæðurnar milli hálf-eða-aldönskumælandi yfirstéttar með púður og parruk sem hugsaði um fálka og hunang og svo almúgans sem hugsaði um hvernig hann gæti lifað af daginn vekja upp sterkar tilfinningar og hafa lengi gert.

Klassísku frásögnina af hinu yfirgengilega óréttlæti sem blasti við á Íslandi árnýaldar er að sjálfsögðu að finna í Íslandsklukkunni eftir Laxness og eru ýmsir þræðir milli hennar og Tugthússins. En Laxness notaði óréttlætið til þess að magna upp þjóðerniskennd – og raunar á köflum hreinræktaða þjóðrembu – þar sem yfirstéttin var ill því hún var dönsk, og alþýðan hetjuleg því hún var íslensk. Í Tugthúsinu finnst manni frekar bera á því að yfirstéttin sé ill því hún er yfirstétt og skiptir minna máli hvers lensk hún sé, þótt bókin dragi ekki neina dul á þá kúgun sem danska konungsveldið beitti þegna sína og þræla. Það er til dæmis hressandi hvernig Haukur Már talar skýrt og greinilega um Ísland sem nýlendu í bókinni, en meðal íslenskra sagnfræðinga eru ýmsir sem harðneita að taka þá skilgreiningu á landinu í mál. Það væri óskandi að sagnfræðingar skrifuðu eitthvað um þá spurningu sem væri ekki innilokað í heimi fræðanna heldur horfði út á við á sama hátt og Tugthúsið gerir – bók sem mér þykir til fyrirmyndar þegar kemur að því að breiða út sagnfræði á aðgengilegan hátt.

En eins og áður var á minnst er kúgunin bara annar hluti þess sem sagnfræði að neðan reynir að greina. Hinn hlutinn, sem á það til að verða veigaminni í fræðunum, enda síður skrásettur í skjölum, snýst um viðnám eða andóf gegn þeirri kúgun, þar sem áhersla er á atbeina (e. agency) hinna kúguðu, hvernig þeir fundu sér rými í gloppum kúgunarinnar til þess að lifa á eigin forsendum, stundum á lúmskan hátt. Haukur Már bendir á þá ógn sem embættismennirnir sjálfir virtust hafa fundið fyrir frá föngunum, ótta þeirra við fangauppreisnir og beiðnir þeirra um hervernd gegn slíku. Þannig bjó Tugthúsið til ógn við yfirstéttina í stað þess að kæfa hana niður: glæpamenn voru ekki lengur dreifðir um landið heldur var þeim safnað saman á einum stað, með mögulegan samtakamátt. Þetta kallaði í sjálfu sér eftir auknu ríkisvaldi, fyrstu lögreglumönnum landsins sem voru fluttir hingað frá Danmörku til að hafa auga með Tugthúsinu. Haukur Már sér húsið sem grundvallarþátt í myndun miðstýrðs ríkisvalds á landinu og þannig í raun rökrétt að hlutverk hússins í dag sé að hýsa sjálft Forsætisráðuneytið, valdamiðju íslenska ríkisins. Hér hófst það, hér dagaði það uppi.

En hvað er það, fyrir utan bara landfræðilega staðsetningu, sem tengir saman blóðuga sögu Tugthússins og nútímalegt hlutverk Stjórnarráðsins? Er eitthvert vit í að spyrða þetta tvennt saman? Hér kemur þá til sögunnar þema „óþægindanna“ sem fyrirfinnast í húsinu samkvæmt bókinni. Tilgangur rannsóknar öryggisvarðarins Páls Holt er að kanna uppruna reimleika sem hafði fundist merki um í húsinu, drauga fortíðarinnar sem kynnu enn, ýjar bókin að, að ásækja íslenskt ríkisvald. Hér kynni að vera vísun í kenningar reimleikafræða (e. hauntology), sem eiga sér enga eina einfalda skilgreiningu en má kannski segja að rannsaki hvernig leifar fortíðarinnar og hinna dauðu ásækja nútímann án þess að tengslin geti kallast bein eða skýrt orsakasamhengi fundist; vofa nýlendustefnunnar, til að taka augljóst dæmi, heldur áfram að ganga ljósum logum um Evrópu og heiminn, alveg sama þótt nýlendutíminn sé liðinn – áhrifin eru út um allt og hvergi á sama tíma, tilheyra fortíðinni og nútímanum í senn.

Þessi draugalega kenning kynni að birtast í sjálfum sögumanni Tugthússins, en nafn skýrsluhöfundarins, Páls Holt, er það sama og nafn manns sem álpaðist í að gerast dyravörður hússins skömmu áður en farið var að beita þar kerfisbundnum líkamlegum refsingum. Samkvæmt skjölunum var Páll Holt dyravörður tregur til þess að berja fangana með tampi, reyndi að skjóta sér undan því, og tilneyddur barði hann aðeins til málamynda. Hann var þannig ómögulegur böðull og var leystur frá sínum störfum: honum blöskraði ofbeldi Tugthússins, rétt eins og nafna hans skýrsluhöfundinum, sem mann fer að gruna að sé dyravörðurinn afturgenginn, enn með sitt veikburða andóf gegn ráðandi öflum hússins tveimur öldum eða svo eftir dauða sinn, skrifandi skýrslu til skýringar á áframhaldandi viðveru sjálfs sín.

En er þessi kenning sannfærandi – að ofbeldisfull saga Tugthússins hafi enn áhrif á framferði íslenska ríkisins gagnvart jaðarsettum hópum og lægri stéttum? Ýmislegt bendir til þess að Haukur Már í það minnsta telji svo vera. Tugthúsið er tileinkað Hauki Hilmarssyni, andófsmanninum sem hengdi Bónus-poka yfir Alþingi, var svo fangelsaður, því næst svo gott sem frelsaður úr varðhaldi með árás á lögreglustöðina þar sem hann var í haldi, og lést loks í loftárás Tyrkja á meðan hann barðist með Kúrdum gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi. Þá hefst bókin á tilvitnun í Þorgeir Þorgeirson, manninn sem má segja að hafi innleitt fullt tjáningarfrelsi á Íslandi með því að vinna mál gegn ríkinu fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassbourg árið 1992. Fyrir þann tíma hafði það verið bannað með lögum að skrifa „ótilhlýðilega“ um opinbera embættismenn, jafnvel þótt það væri satt og rétt sem um þá var skrifað, og var Þorgeir sóttur til saka fyrir að skrifa um lögregluofbeldi á Íslandi og sakfelldur fyrir. Í tilvitnuninni talar Þorgeir um „reigingssvipinn“ og „búðarlokuþóttann ámátlega“ sem var „nánast … orðinn samfrosta við andlitið á sakadómara mínum“. Tengist reigingssvipur og þótti íslensks ríkisvalds sögu Tugthússins? Og tengist andóf Hauks Hilmarssonar og Þorgeirs Þorgeirsonar andófi þrælanna sem þar lifðu og létust? Sú kenning er líklega of stór fyrir eina bók á borð við Tugthúsið: Maður verður að vona að Haukur Már skrifi aðra.

 

Þorsteinn Vilhjálmsson