Hallgrímur Helgason. Sextíu kíló af sólskini.

JPV útgáfa, 2018. 461 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019

Sextíu kíló af sólskiniÞað er óhætt að segja að Hallgrímur Helgason slái nýjan tón í skáldsögu sinni Sextíu kíló af sólskini en raunar virðast merkilega margir ólíkir tónar rúmast í höfundarverki hans. Hér erum við svo sannarlega ekki sjóveik í München, ekki á Hellu, ekki í Roklandi og allra síst að þvælast um 101 Reykjavík. Hér segir frá Segulfirði, frá sauðsvörtum almúganum og borgarastétt í fæðingu á síðustu árum hákarlaveiðanna og frumbernsku síldarævintýrsins um aldamótin 1900. Þessi breyting frá stórum fisk yfir í lítinn virðist kannski ekki svo mikil en markar þó gríðarstór tímamót í sögu þjóðarinnar og er (ásamt heimsstyrjöldinni síðari) kannski stærsta skref þjóðarinnar inn í nýja öld og nýtt líf, bæði menningarlegt og efnahagslegt. Segulfjörður fer ekki leynt með tengsl sín við Siglufjörð og nálægar sveitir en tekur upp áðurnefnt sviðsnafn til að öðlast nauðsynlegt skáldlegt frelsi frá sögulegri nákvæmni.

Við kynnumst drengnum Gesti, Eilífi föður hans og litríku mannlífinu í kringum Segulfjörð þar sem lífsbaráttan er svo hörð að Elífur hrósar happi þegar hann er dæmdur í fangelsisvist því þá kemst hann loks burt úr þessum hataða firði: „Fyrir slíkum manni hljómaði tugthúsdómur, með tilheyrandi siglingu suður í höfuðstaðinn, nánast eins og hnattferð. Sökum ísalaga reyndist þó ekki unnt að fullnusta dóminn þann vetur og veturinn á eftir fékk hann engin boð.“ (21) Á þessum tíma lifir vistarbandið góðu lífi og vinnuhjú mega almennt ekki ferðast, giftast eða eignast börn, Eilífi tekst þó að afreka hjónaband og börn en hvort tveggja er hrifið frá honum og svo er hann sendur í dauðann án þess að hafa nokkurn tímann reynt þann lúxus að komast suður í fangelsi.

Þegar sagan hefst er þjóðfélagið svo staðnað, svo frosið í stellingum síðustu þúsund ára, að það megnar ekki að taka á móti nýjum tímum. Hér er síldin ekki veidd þótt hún ólmist í flæðarmálinu og fólk svelti. En það er ekki bara silfur hafsins sem Íslendingar kunna ekki að meta, alþýðan fúlsar líka við beinhörðum peningum, hefur ekkert við slíkt að gera. Bóndi slær vinnukonu sem kemur með daglaunin af síldarplaninu og kastar seðlunum, sármóðgaður. Norðmennirnir þurfa nefnilega ekki bara að koma með síldina, timbrið og verkvitið – ekki síst koma þeir með framkvæmdaorkuna, kraftinn til breytinga.

Biblían og annar skáldskapur

Þetta er epískt verk, bæði í þeim skilningi að stór saga er sögð, saga fjölskyldu, saga byggðarlags, jafnvel saga þjóðar, en einnig í uppbyggingu og formi. Skáldsögunni er skipt í „bækur“ eins og Biblíunni og fyrsta bók nefnist: Úr skafli ertu kominn, sem aftur kallar fram tengsl við sköpunarsöguna. Fyrsti kafli fyrstu bókar undirstrikar þetta enn: Adam á ísbreiðunni. Okkar Adam, hinn ranglega nefndi Eilífur, var nefnilega aldrei í Paradís. Hann var borinn og barnfæddur á Segulfirði og dó þar líka eftir mislukkaða tilraun til að komast til þeirrar einu Paradísar sem í boði var, Ameríku. Okkar Adam hefur þar að auki misst sína Evu áður en sagan hefst. Hún og dóttir þeirra eru grafnar undir snjóflóði því er grandað hefur bænum og öllum hans jarðnesku eigum fyrir utan einkasoninn og kvíguna Helgu. Ekki fékk Eilífur neina vísbendingu eða guðlegt orð í eyra frá skapara sínum til að forðast þessi grimmu örlög og hann hefur sennilega haft á tilfinningunni, eins og lesandinn, að guð hafi lítinn tíma haft fyrir fátækt fólk á Íslandi um þarsíðustu aldamót.

En upphaf skáldsögunnar kallar ekki bara fram hugrenningatengsl við Biblíuna heldur ekki síður við Halldór Laxness og á vissan hátt er eins Hallgrímur sé að kinka kolli til Nóbelskáldsins í fyrstu köflunum. Þannig minna t.d. harmræn en kómísk samskipti kotbóndans Eilífs við yfirvaldið á samskipti Jóns Hreggviðssonar við yfirvaldið í Íslandsklukkunni – þótt bæði séu meintir glæpir og persónurnar gjörólíkar. Það er fremur hinn kómíski stíll sem notaður er til að tjá gjörsamlega óviðunandi og óbærilegt ástand sem kallar fram tengslin. Þetta kann Hallgrímur afbragðsvel svo ítrekað eru hrollkaldar staðreyndir settar í búning ýkja og kómíkur án þess þó að þetta dragi úr harminum sem býr undir eða að breyskar persónurnar missi samúð og reisn.

Biblían er aftur í baksýn þegar höfundur leiðir fram á sjónarsviðið þrjá misskilda spámenn sem tala tungum og kirkju sem svo ofbýður guðleysið í bænum að hún tekst á loft í vonskuveðri og reynir mögulega að rata aftur heim til skaparans um leið og hún býr einum spámanninum vota gröf. Plássið er eftir það kirkjulaust, flestum að meinalausu, þar til norðmennirnir koma. Þeim finnst óhugsandi að búa án guðs húss og á undraskömmum tíma byggja þeir heila kirkju – í óþökk prestsins sem hafði feginn kvatt guðshúsið og með því flestar skyldur sínar. Hann gat þá farið að sinna sínum raunverulegu hugðarefnum, að safna þjóðlögum. Eins og fjörðurinn sjálfur og nokkur fyrirmenni á presturinn sér stoð í raunveruleikanum en það mun vera Bjarni Þorsteinsson, prestur og tónskáld sem vann það afrek að safna saman og gefa út fjölmörg íslensk þjóðlög og þjóðvísur sem annars hefðu án efa glatast.

Lítið fer sem sagt fyrir hinum þríeina guði en á móti kemur að Gestur hinn ungi er þrífeðra. Sigurlás frá Ytri-Skriðu, þriðji faðir Gests, er ekki hallur undir guðssoninn. Lási er skáld og þrátt fyrir að hafa nánast enga möguleika til að vökva það blóm tekst honum að lifa fyrir skáldskapinn – sinn og annarra. Gagnrýni hans á kristindóminn reynist líka fyrst og fremst vera af bókmenntafræðilegum toga – honum þykir dramatískri uppbyggingu í sögu frelsarans ábótavant: „Sko. Kristssögu skortir nánast allt sem Egilssögu prýðir. Það er helst að krossfestingin nái máli en hún er helstil langdregin og vantar bæði blóð og ofsa. Og þarna eru glötuð tækifæri hjá höfundinum því í stað þess að Faðirinn yrki sitt Sonartorrek eða Sonurinn sína Höfuðlausn hjaðnar þetta út í eitthvert bölvað píslargól …“ (67–68). Samkvæmt þessu hefði Lási sennilega verið dús við skáldsögu þá sem hann er staddur í því þar skortir sannarlega ekki dramatísk örlög, upprisu lífs né skelfilega dauðdaga. Þarna kristallast sú staðreynd að hetjur og andhetjur Íslendingasagnanna hafa löngum staðið þessari þjóð nær en frelsarinn og Íslendingar, þegar að er gáð, hafa raunar fremur verið trúaðir í orði en á borði.

Elskan á sagnalistinni líkamnast í förumanninum Rögnvaldi Jónssyni, öðru nafni Rögnvaldi sumarsól. Í stað þess að knýja dyra, bera sig illa og betla valsar hann glaður inn og býður fram eigin sögur, söngva og slúður og verður þannig aufúsugestur. Það er hann sem tendrar logann í hjarta prestsins sem verður eftir það vakinn og sofinn yfir íslenskum þjóðvísum. Sagnaástin verður aftur ljóslifandi í Lása þegar Grandvör gamla gefur Gesti Kaldanesrímur fyrir „Maríusokkinn“ sinn og eins og helsjúkur drykkjumaður leggst Lási í lestur fram eftir öllum nóttum eftir 15 tíma vinnudaga. Þannig finnur listin – og sérstaklega sagnalistin – sér leið inn í líf og sálir mannanna eftir krókaleiðum. Í landi þar sem ekki virðist pláss fyrir neitt annað en hörku og vinnu finnst alltaf þessi þráður og á þeim bláþræði hangir kannski andleg heilsa fólksins. Hér eru aftur hugrenningatengsl við Laxness og Jón Prímus talar mögulega líka fyrir Lása í Skriðu þegar hann segir í Kristnihaldi undir jökli (41. kafla): „Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni.“

Mannlýsingar gegnum hetjudáðir og begóníur

Gestur hinn ungi virðist snemma ætla að verða miðja sögunnar en er það þó ekki nema að einhverju leyti – til þess fer frásögnin of víða og innlimar of margar persónur. Á köflum jaðrar skáldsagan við að vera sagnasveigur sem hverfist um Segulfjörð og dregur upp litríkar og lifandi myndir af samfélaginu. Persónur eru kynntar til sögunnar með nokkrum vel völdum orðum en síðar í frásögninni eiga þær til að dúkka aftur upp og þá fær lesandinn ríkari innsýn í líf þeirra og sögu. Þannig er því t.d. farið með Grandvöru gömlu, tengdamóður Lása, sem birtist okkur fyrst sem aflóga gamalmenni en er svo dregin fram nokkrum köflum síðar og við sjáum hana í allri sinni dýrð – marserandi ólétta í bálviðri yfir þverhnípta hamra og vötn með barn undir belti og annað í fangi til þess að sækja eld í bæinn sinn. Þetta er þvílík heljarför að það fer um lesandann sem efast þó ekki eitt augnablik um trúverðugleika frásagnarinnar. Auðvitað þurfti fólk að gera annað eins – ekki síður konur – líka þungaðar konur. Og eru það ekki einmitt slíkar hetjudáðir almúgans sem síst eru skráðar í mannkynssögubækurnar og því eina vitið að skrásetja þær í skáldsögur.

En Hallgrímur skapar ekki bara ógleymanleg augnablik úr hetjudáðum, hið hversdagslega eða smáa er ekki síður uppspretta þess ljóss sem lýsir upp innstu kima mennskunnar. Steinka, sú sem mögulega drepur manninn sinn og Gestur flýr til af frönsku skútunni, á endurkomu í miðju frásagnarinnar þegar prestsfrúin fær begóníu og hálf sveitinn kemur í heimsókn til að sjá undrið mikla, blómstrandi pottaplöntu. Síðust kemur Steinka og augljóst að enginn í Segulfirði kann jafn vel að meta fegurðina og sú ófrýnilegasta, hún er líka sú eina sem leggur í að teyga angan blómsins:

„… aldrei hafði prestfrúin unga séð jafn ljóta gleði, jafn fagra grýlu, andlit konunnar ljómaði í öllum sínum hnúðum og kýlum, blóðsprungum og tanngígum, það var sem hinn hábleiki litur blómsins hefði blandast í öll blæbrigði andlitsins og lyft þeim upp í roðaljómandi gleði […] alstaðar gat að líta bleiklitaðan begóníuglampa á stærð við títuprjónshaus, hún hafði laugað sig í fegurð blómsins, sogað í sig lit þess og lykt, áferð og dýrð, og nú stóð hún þarna fyrir vitum Vigdísar eins og frelsuð manneskja sem ætti bara eftir að segja, ja, nú get ég dáið í friði.
(300–301)

Myndlistarmaðurinn Hallgrímur málar hér með breiðum penslum og sterkum litum og stundum eru lýsingarnar gróteskar þar sem tannleysi, útvöxtur og vessar, líkamar afskræmdir af vosbúð, veikindum og elli, lifna fyrir augum lesandans. Það sama á við um geðslag persóna sem ná þó ótrúlegt en satt að vera fullkomlega trúverðugar, þrátt fyrir stærð sína. Það má kallast afrek að ekkert mannhatur virðist þrífast í þessum breiðu dráttum, þvert á móti er eins og höfundi sé hlýtt til flestra persóna og verður lesandanum það sömuleiðis. Það er þó aldeilis ekki af því hér flæði góðmennskan og almennilegheitin, þvert á móti lýsir höfundur hörðum og oft grimmum heimi, en þar rúmast þó einnig hlýja í bland við hörkuna.

Gott dæmi um það eru feður Gests, sérstaklega tveir síðari; kaupmaðurinn Kaupakabbi, svo nefndur af Gesti, og Lási í Skriðu. Eftir að Kaupakabbi hrekur Eilíf föður Gests út í opinn dauðann á Hákarlaskipinu elur hann litla drenginn upp sem sinn eigin og leggur raunverulega ást á barnið. Á einhvern sérkennilegan hátt fordæmir fyrri verknaðurinn ekki þann seinni – án þess þó að sá síðari nái að bæta fyrir þann fyrri. Miklu fremur er þetta lýsandi fyrir þær þversagnir sem rúmast í manneskjum. Hér eru í raun engin gegnheil illmenni þótt margir komi skelfilega fram við sína minnstu bræður – og að sama skapi er enginn án breyskleika. Lási er mætur maður, trúr sínum gamla félaga Eilífi og elskar drenginn hans, en engu að síður er hann tilbúinn til að láta bera út lausaleiksbarn sitt, fórna því og ekki síður móður þess fyrir eigin heimilisfrið.

Þjóðarsálin skrásett

Í upphafi er sögusviðið snævi þakið, hvítt eins og óskrifað blað og á það blað skrifar Hallgrímur þessa mögnuðu sögu og skrifar meira að segja lesandann sjálfan inn í hana. Við komum þarna fyrir, með bókina í hendi, í öruggri fjarlægð frá dramatískri atburðarásinni, frá sorginni sem innan stundar hellist yfir Eilíf, frá óréttlæti þessa heims sem virðist svo óralangt í burtu en er það þó ekki. Rétt hundrað ár skilja okkur frá þessum heimi sem virðist þó mun nær Íslendingasögunum en nútímanum. En það eru ekki árin sem marka hyldýpið sem skilur að heldur menning og efnahagur.

Stundum kallast kómískar en hryllilegar aðstæður alþýðunnar örlítið á við nútímann, eins og þegar kaupmaðurinn á erfitt með að svara því hvað kílóið af hveiti kosti: „Hér afhjúpaðist íslenska geðþóttahagkerfið, sá síbreytilegi skýjaflóki. Íslendingar voru þrautgóðir og útsjónarsamir, hjálpsamir flestir og reddingasamir, allra þjóða bestir í að bregðast við óvæntum aðstæðum, en fátt kvaldi þá meira en fastar stærðir, vel undirbúnar ákvarðanir, gerðir samningar og fastmótaðar áætlanir […] En kannski var þetta allt saman skáldskapnum að kenna, þessu sérkennilega fyrirbæri sem aðrar þjóðir umbáru en Íslendingar tignuðu. Því hér voru jafnvel grunnstærðir hagkerfisins, verð á hveiti, kjöti og víni, skáldaðar, uppdigtaðar, afstæðar – háðar því sem andinn blés í brjóst.“ (93–94) Þannig ber bókina sífellt að sama brunni – að skáldskapnum sem virðist vera okkar leiðarljós – til góðs eða ills.

Hallgrímur nær að beisla tungumálið sem á stundum hefur hlaupið frá honum í fyrri bókum en engu að síður geysar það hér hraðar og harðar en nokkru sinni fyrr. Hann ber, eins og alltaf, hæfilega virðingu fyrir eigin efni og hræðist aldrei að rífa niður fegurðina jafnóðum og hann skapar hana, að grafa undan myndum sem hann dregur upp, að klessa vísunum í nútímann beint á þjóðlegar helgimyndir. Hann notar heilt yfir gamalt orðfæri, engin orð sem urðu til eftir 1910 nema þegar hann mjög meðvitað hendir einhverju fram eins og til að minna okkur harkalega á nútímann. Og þetta gengur fullkomlega upp. Þegar best tekst til nær Hallgrímur að fanga fáránleika og fegurð á sama augnabliki og sýna okkur hluti og aðstæður í nýju ljósi.

Með því að kalla fram á síðurnar öreiga og eignafólk á hjara veraldar um aldamótin 1900 er Hallgrímur eftir allt saman kannski að reyna að kryfja hina undarlegu íslensku þjóðarsál, sem elskar skáldskapinn en fyrirlítur skáldin, sem úthúðar auðvaldinu en myndi aldrei kollvarpa því, sem elskar nýja hluti en fordæmir nýjar hugmyndir. Þjóð sem svalt heilu hungri með slímgrautinn sinn á meðan síldin ólmaðist í alsilfruðum sjó allt í kring um landið. Þjóð sem virðist svo oft sjálfri sér verst, sem bjó við svo mikinn harm og óblíða náttúru að eiginlega er óskiljanlegt að nokkur hafi tórt inn í 20. öldina.

Mótsagnirnar í manneskjunum æpa á mann af síðum bókarinnar og æsa lesandann upp svo hann langar helst til að löðrunga þessa þrjósku vitleysinga. En um leið er ekki annað hægt en að dást að þrautseigjunni, aðlögunarhæfninni og dugnaðinum. Kannski er dugnaðurinn eftir allt okkar stærsti kostur og helsti löstur, það sem heldur í okkur lífinu en heftir okkur um leið. Hallgrímur byrjar með hvíta auðn en endar með litríkt samfélag sem fyllir upp í hugskot lesandans og neitar að hverfa þaðan. Þetta er heimur sem tekur sögurnar fram yfir trúarbrögðin en dugnaðinn fram yfir allt.

Maríanna Clara Lúthersdóttir