Andri Snær Magnason. Tímakistan.

Mál og menning, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2015

Síðustu tvo áratugi hafa skáldsögur sem voru skrifaðar fyrir börn og unglinga iðulega verið efst á sölulistum bókabúða og bíómyndir byggðar á þeim slegið öll aðsóknarmet. Nægir að nefna Harry Potter bækur J.K. Rowlings, Ljósaskiptabækur Stephanie Meyer, Hungurleikana eftir Suzanne Collings og síðast en ekki síst bækur J.R.R. Tolkien sem gengu í endurnýjun lífdaga í kvikmyndum Peters Jackson um Hringadróttinssögu og Hobbittann. Unglingabækurnar sem fyrst voru taldar eru lesnar jafnt af fullorðnum og unglingum og talað um „krosslestur“ (e. cross reading) í því sambandi. Krosslestur er ekki gott hugtak því að orðið kross á íslensku vísar fyrst og fremst til krossins sem trúartákns og þjáninga Krists á krossinum. En þetta hugtak vísar líka til forms, tvær línur skerast og þegar börn lesa fullorðinsbækur og fullorðnir barnabækur lesa kynslóðirnar í kross. Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason er krosslestrarbók. Hún er bók fyrir lesendur á bilinu tíu ára til áttræðs. Meira um það seinna.

TímakistanTímakistan

Sagan gerist á tveimur tímasviðum. Fyrri sagan gerist í framtíðinni en þá hefur það gerst að glúrinn kaupsýslumaður hefur fjöldaframleitt hátæknilegar „tímakistur“ sem eru þeim eiginleikum gæddar að sá sem í þær leggst getur stöðvað tímann. Allir kaupa þær. Verði fólk þreytt og leitt á viðvarandi hræðilegu ástandi í efnahagsmálum og þjóðfélagi getur það flúið í tímakistuna sína þar sem enginn tími líður. Menn geta stillt kistuna þannig að hún opnist sjálfkrafa þegar kreppunni er lokið. Engum þarf að líða illa. Vandamálið er bara að kreppunni lýkur aldrei. Það eru aldrei til nógir peningar og alltaf eitthvað í miklu ólagi einhvers staðar í heiminum og þess vegna hverfa æ fleiri varanlega ofan í tímakisturnar, fyrirhafnarsöm börn, stressaðir foreldrar, aldraðir aðstandendur og loks eru bæirnir orðnir mannlausir og enginn eftir. Þá opnast læsingin á einni tímakistu og eitt barn finnur annað barn og þau finna eina gamla konu sem segir þeim söguna af fyrstu tímakistunni og prinsessunni af Pangeu.

Á hinu tímasviðinu, fortíðarsviðinu, er sagt frá kónginum Dímon í Pangeu sem eignast dótturina Hrafntinnu, sem er svo fögur og dýrmæt að kóngurinn afber ekki tilhugsunina um að hún eldist. Hann lýsir eftir einhverjum sem geti stöðvað tímann sem henni er gefinn og heitir þeim hinum sama hálfu konungsríkinu. Hópur af dvergum kemur til konungs með kistu sem er ofin úr kóngulóarsilki sem er svo þétt að tíminn kemst ekki inn í kistuna. Kóngur tekur kistuna en lætur drepa dvergana og það eru höfuðsvik.

Nú er það svo að ungar, undurfagrar stúlkur, sem eldast ekki, missa ekki fegurð sína og æskuþokka, eignast ekki börn eða deyja, eru vinsælt minni í ævintýrum. Frægastar eru prinsessurnar Þyrnirós og Mjallhvít sem rötuðu inn í Kinder- und Hausmärchen Grimmsbræðra eftir langa vegferð um ævintýrasjóði margra menningarsamfélaga. Báðum er þeim haldið sofandi og þær eru í raun milli lífs og dauða eða lifandi dauðar. Þannig eru þær geymdar fyrir útvalda aðdáendur. Þetta minni birtist í mörgum myndum í heimsbókmenntunum.

Bróðir Róbert segir í Tristrams sögu frá því að Tristram lætur gera styttu af Ísold eftir að hann hefur verið rekinn í útlegð hennar vegna. Þessa styttu geymir hann í afhýsi þar sem hann elskar hana og faðmar og það sama hafði Pygmalion myndhöggvari frá Kýpur áður gert að sögn Óvíds. Honum tókst að búa til höggmynd af svo fagurri konu að hann varð ástfanginn af henni. Ást hans á myndinni var svo heit að Afródíta sá aumur á honum og gaf styttunni líf.

Löngu seinna notaði Georg Bernhard Shaw tilbrigði við goðsöguna í frásögn sinni af blómasölustúlkunni Elizu Doolittle sem Henry Higgins breytti í hefðarkonu sem talaði yfirstéttarensku. Góð er lifandi fegurðardís en betri er þó í sögunum sú meðvitundarlausa því þá getur aðdáandinn horft á hana, tilbeðið hana og gert hana að blæti vegna þess að hún er ómetanleg. Aðdáandi og handhafi stúlkunnar getur líka túlkað hana eins og honum sýnist og þetta gerir Dímon konungur í Tímakistunni. Hann notar tímann eins og verkfæri til að móta dóttur sína, reynslu hennar og þroska, hann ákveður hvaða tíma hún fær.

Vald

Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason er ákaflega þétt ofinn texti, fullur af vísunum, heimspeki og gagnrýni. Herkonungurinn og valdsmaðurinn Dímon ákveður í sorginni eftir dauða konu sinnar og ástinni á dótturinni að (mis) nota vald sitt til að koma í veg fyrir frekari þjáningar sínar og sinna. Hann setur af stað atburðarás sem er ætlað að grípa fram í gang náttúrunnar og gera uppreisn gegn lögmálum hennar. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Fjölmargar goðsögur fjalla um ólánið sem af því stafar ef menn gera sig seka um ofmetnað (gr. hybris) og raska jafnvægi náttúrunnar. Meira að segja guðirnir geta aðeins fiktað tímabundið við náttúrulögmálin, regluna verður alltaf að endurreisa.

Í goðsögum er það heldur ekki blessun heldur bölvun að lifa lengur en aðrir menn og skemmst að minnast aumingja Starkaðar sem klemmdist milli tveggja guða, Óðins og Þórs, sem lögðu á hann að lifa í 300 ár, lífi sem einkenndist af þversögnum, þjáningum og einmanaleika. Í ævintýrum og þjóðsögum er það heldur ekki gæfumerki að sjá það sem öðrum er hulið eða skilja dýramál. Það síðast nefnda gat verið mjög óþægilegt og væru sögupersónur heppnar var þessi eiginleiki tekinn frá þeim þegar þær voru búnar að leysa þrautirnar.

Dímon misnotar vald sitt og gerir sig jafnan guðunum þegar hann stöðvar tíma Hrafntinnu, dóttur sinnar. Eins og æsirnir sem fengu jötun til að byggja borgarmúrinn umhverfis Ásgarð, fær hann yfirnáttúrulegar verur til að vinna fyrir sig hið óvinnandi verk og heitir þeim stórkostlegum launum í staðinn. Hann gengur síðan á bak orða sinna, breytir reglunum og lætur drepa dvergana. „Ertu að segja að konung skorti VIT?“ spyr Exel, aðalráðgjafi Dímons, Þórdísi fóstru Hrafntinnu. (94) Og hún svarar ekki. Engum leyfist að gagnrýna hann. Hann skortir ekki vit heldur siðferði og þar af leiðandi dómgreind. Svik hans eru „drottinssvik“. Upphaflega þýðir orðið svik gegn konunginum í tvíþættri merkingu því að hinn veraldlegi konungur stjórnaði í umboði annars konungs, þess á himnum. Ofmetnaður Dímons klýfur ekki aðeins kóngsríki hans heldur heiminn allan og sprungan liggur þvert gegnum hans eigin borg, hjarta heimsveldis hans.

Auðvald

Á nútímasviði Tímakistunnar sjáum við hvernig heiminum hefur farnast frá dögum Dímons konungs. Andri Snær Magnason deildi í skáldsögunni LoveStar á neyslusamfélag okkar þar sem allt er verðlagt, þar á meðal draumar mannanna og þrár. Það er bæði fyndin og hræðileg bók. Í Tímakistunni er, eins og í LoveStar, hætt að lofa fólki betra lífi í smáskömmtum, því hver vill hrukkubana og hráfæði ef honum býðst eilíf æska og endalaust líf? Þjáningarlaust að auki af því að það er meðvitundarlaust? En það kostar. Það sjá allir. Ef við eigum aðeins að fá það góða, jafnvel það albesta, en sleppa við allt hið illa, hljótum við að verða að opna budduna.

Í því orðabrengli sem við vöndumst í hinu „svokallaða“ góðæri á undan hinu „svokallaða“ hruni 2008, var það illa séð að menn notuðu gamaldags hugtök eins og „stéttir“, „græðgi“, „mannfyrirlitningu“ og „vöruvæðingu“ af því að þau væru mórölsk og fordæmandi (sem þau eru). Verkafólk var kallað „vinnuafl“ en sumar stéttir hafa komist upp á lag með að tala um sjálfar sig sem „mannauð“, landkynning varð „vörumerki þjóðar“, „ímyndakjarni“, „samkeppnishæfni“ og menn áttu að temja sér fjörlega söguskoðun sem fól meðal annars í sér sannleika á borð við þennan: „Náttúrulegur kraftur skýrir hvernig þjóðinni tókst að lifa af í harðbýlu landi, öðlast sjálfstæði, komast á topp lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna og í hóp samkeppnishæfustu þjóða heims á nokkrum áratugum.“

Svona virkar áróður – hann byggist ekki upp á fantasíum eingöngu vegna þess að enginn áróður nær til manna ef hann vísar ekki til einhvers konar samþykkis meirihluta hópsins sem honum er beint að. Hann byggist heldur ekki upp á lygi því fólk er ekki heimskt. Hann byggist upp á hálfsannleika. Þagað er yfir upplýsingum sem gætu flækt myndina og gefið gagnrýni byr undir báða vængi.

Hugvitsmennirnir sem framleiða tímakistur á framtíðarsviði Tímakistunnar eru góðir sölumenn. Fyrst búa þeir til almennan ótta við að allt sé að fara fram af hengifluginu, efnahagsmálin hafi verið í ólestri og verði svo áfram um hríð. Fólki er kannski sagt að stórveldi bíði eftir að taka öll völd ef við gáum ekki að okkur, sláum skjaldborg um auðlindir okkar, „látum reyna á rétt okkar“ andspænis ólinnandi græðgi annarra og þegar fólk er orðið ringlað og hrætt og finnur á versnandi geðheilsu að ekkert er að fara vel í lífinu þá er ráðið að kaupa sér áhyggjulausa ævi í tímakistu.

Ótti, hálfsannleikur og sameiginlegir óvinir eru einnig áróðurstæki Íguls, hins illa ráðgjafa drottningar á fortíðarsviðinu. Á nútíðarsviðinu er sú vá sem hefur hlotist af inngripum mannanna í náttúruöflin alls staðar sjáanleg, villtur trjágróður og skógardýr hafa búið um sig í borgunum, enginn er eftir til að rækta jörðina, samfélögin eru hrunin.

Barnið

Það er alveg óhætt að segja að Tímakistan sé „distópía“. Ef höfuðsyndirnar sjö eru bornar á þemu Tímakistunnar sjáum við þær næstum allar að verki á fortíðarsviðinu og nokkrar á nútímasviðinu. Þær eru: Hroki, öfund, reiði, þunglyndi, ágirnd, ofát og losti.

En eitt viðfangsefni í bókinni fellur ekki undir neina af þessum sjö skemmtilegu syndum það ég fái séð. Það er marghátttuð misnotkun allra á barninu Hrafntinnu. Dímon konungur lætur búa til gerviheim í kringum prinsessuna til að varðveita bernsku hennar, fegurð og sakleysi. Margir fullorðnir vilja koma þannig fram við börn sín og telja það afar jákvætt. En þetta viðhorf til barnslegs sakleysis orkar tvímælis: er nokkurn tíma hægt að varðveita sakleysi annarrar manneskju og velja þá þekkingu sem hún hefur aðgang að án þess að búa jafnframt til gervimanneskju, vilja- og vitundarlausa? Kemur þá ekki að því fyrr eða síðar að einhver annar stígi fram og túlki vilja og þrár þess sem getur ekki gert það sjálfur vegna sakleysis síns og andvaraleysis?

Það gerist í bókinni þegar Ígull ráðgjafi stígur fram og byrjar að túlka skoðanir og vilja hinnar sofandi prinsessu. Þegnar föður hennar ætlast til að hún sofi, fögur, fordekruð og rík, þeir dást að henni og færa henni gjafir og áheit, en þeir hata hana jafnframt fyrir forréttindi, frekju og vaxandi græðgi og sumir telja hana norn. Þessi tvískinnungur gagnvart barninu er áhugaverður og tengist ef til vill krosslestrinum sem minnst var á fyrst í þessu skrifi.

Krosslestur

Krosslestrarbylgja hefur farið yfir þjóðir og lönd síðustu þrjá áratugi. Börn og unglingar hafa alltaf lesið fullorðinsbækur en nýtt er að fullorðnir lesi unglingabækur í stórum stíl. Hugtakið „Young Adult (YA)“ hefur nú fest sig í sessi sem sérstök formdeild lesenda eða unglingar á aldrinum 12–15 eða jafnvel 12–25 ára. Upp á síðkastið hefur þetta verið kallað „ungmennabókmenntir“ sem er ágætis heiti. Í enskumælandi löndum hefur verið talað um „kiddult“ bækur, sem mætti kannski þýða með „krakkorðins“ bækur. Menn hafa barið sér á brjóst yfir þessari þróun og spurt hvernig beri að skilja hana? Í bókinni The crossover novel (2009) segir Rachel Falconer að mögulega endurspegli umræðurnar um krosslestur víðtækara óöryggi fólks vegna þess að mörkin milli kynslóða séu óskýrari en nokkru sinni, börn verði hraðar fullorðin en áður og fullorðnir neiti að yfirgefa unglingsárin.

Neyslusamfélag síðustu þriggja áratuga hefur einkennst af meiri æskudýrkun en önnur tímabil en sú athygli sem unglingum er sýnd hefur tvö andlit. Annars vegar dást þeir fullorðnu að glæsilegum unglingum, fögrum, tískumeðvituðum, tæknivæddum og eldklárum. Þessir unglingar eru yndi og eftirlæti markaðsfræðinga sem sjá í þeim framvarðarsveit fyrir nýja hugsun og neyslu. Hins vegar óttast þeir fullorðnu glæpagengi og fátæka unglinga sem eru fullir af eyðileggjandi orku. Margir þeirra fyrirlíta unglinga í neyslu.

Venjulegir unglingar eru hvorki áberandi glæsilegir né glæpahneigðir heldur einhvers staðar þarna á milli og þeim finnst gerðar til sín þversagnakenndar kröfur. Þeir eiga að vera glaðir yfir öllum möguleikunum sem þeir hafa en sjá möguleikaleysi sitt mun betur en hitt. Mörk verða óljós og eru á hreyfingu. Hvar eru vinir og hvar óvinir? Hvað er veruleiki og hvað ímyndun? Það er engin furða þó að unglingar laðist að hrollvekjum og framsetningu hins óhugnanlega því að mörgum þeirra finnst þau standa á bjargbrún. Það verður enn erfiðara að sjá hvað felst í að verða fullorðinn ef þau horfa til eilífðarunglinganna af eldri kynslóðinni.

Tilvistarspurningar hafa verið efni afbragðsgóðra unglingabóka síðustu áratuga, segir Rachel Falconer. Kannski er það sakleysi og áhyggjuleysi bernsku og unglingsára sem fullorðnir vilja flýja til, þegar þeir lesa „krakkorðinsbækur“ en þar mætir þeim annar veruleiki, glansmyndir eru afbyggðar og þessir lesendur geta þá snúið aftur reynslunni ríkari.

Það gerir fullorðinn lesandi Tímakistunnar eftir Andra Snæ Magnason því að sjaldan hefur höfundur unglingabóka og fantasía snúið sér jafn beint að ótta og öryggisleysi okkar tíma gagnvart kynslóðabilinu.

Tilvísanir

  1. Andri Snær Magnason. Tímakistan. Reykjavík: Mál og menning, 2013.
  2. Andri Snær Magnason. LoveStar. Reykjavík: Mál og menning, 2002.
  3. Ímynd Íslands: Styrkur, staða, stefna. Skýrsla nefndar forsætisráðherra, 2008. Reykjavík: Forsætisráðuneytið.
  4. Michael Cart: „From insider to outsider: The evolution of young adult literature“. Voices From the Middle, 9 árg. 2. hefti, 2001.
  5. Rachel Falconer: The Crossover Novel: Contemporary Children‘s Fiction and Its Adult Readership. London: Routledge. 2009, bls. 39–41.
  6. Rachel Falconer. The Crossover Novel, bls. 41.

Dagný Kristjánsdóttir